Gæðaúttekt

 

Jafningjarýni 2023

Evrópskar hagtölur innihalda áreiðanleg gögn um Evrópu sem eru unnar af Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins, í samstarfi við evrópskar hagstofur eins og Hagstofu Íslands og aðra opinbera hagskýrsluframleiðendur.


Notendur evrópskra hagtalna

Evrópskar hagtölur eru notaðar af stjórnvöldum, stjórnmálamönnum, fyrirtækjum, fræða- og vísindasamfélaginu en einnig til þess að upplýsa fjölmiðla og almenna borgara. Hagtölur eru þannig hluti af daglegu lífi allra.


Af hverju á að nota evrópskar hagtölur?

Faglegt sjálfstæði hagstofa tryggir að hagtölur séu unnar án allrar pólitískrar aðkomu og án utanaðkomandi áhrifa. Evrópskar hagtölur sýna raunveruleikann á áreiðanlegan hátt, þær eru samfelldar og sambærilegar yfir tíma og á milli svæða og landa og eru aðgengilegar og skýrar.


Evrópska tölfræðisamstarfið

Eurostat býr til evrópskar hagskýrslur í samstarfi við hagstofur og önnur innlend yfirvöld í aðildarríkjum ESB og EFTA. Þetta samstarf kallast European Statistical System (e. ESS). Aðildarríkin safna gögnum og taka saman hagskýrslur fyrir hvert ríki. Eurostat er leiðandi í gerð samræmdrar og sambærilegrar tölfræði í nánu samstarfi við ESS-aðildarríkin.


Meginreglur í evrópskri hagskýrslugerð

Meginreglurnar (Code of Practice) eru 16 og ná yfir 3 svið: stofnanaumhverfi hagskýrslugerðar, framleiðsluferli hagskýrslna og hagskýrslur. Stuðst er við mælistikur (84 talsins) um gott verklag og bestu starfsvenjur fyrir hverja meginreglu. Mælistikurnar veita viðmið við úttektir á innleiðingu meginreglanna hjá hagstofum aðildarríkjanna og Eurostat.


Gæðaúttekt á hagstofum - ESS jafningjarýni

Markmið jafningjarýninnar (peer review) er að meta hvort aðilar að Evrópska tölfræðisamstarfinu (ESS) uppfylli meginreglur í evrópskri hagskýrslugerð. Ábendingar frá notendum hjálpa einnig hagskýrsluyfirvöldum við það að bæta og þróa hagskýrslukerfi sín enn frekar. Tvær umferðir af jafningjarýni hafa áður verið framkvæmdar á árunum 2006-2008 og 2013-2015. Þriðja lotan 2021-2023 stendur nú yfir og mun gæðaúttekt á Hagstofu Íslands verða birt í lok maí 2023..


Hverjir taka þátt í gæðaútektinni?

Allir meðlimir Evrópska tölfræðisamstarfsins (ESS), þ.á m. Eurostat, taka þátt og eru rýndir af teymum óháðra sérfræðinga. Teymin sem leggja mat á innlend hagskýrsluyfirvöld eru skipuð fjórum sérfræðingum í tölfræði, endurskoðun og stjórnsýslumálum. Teymi frá European Statistical Governance Advisory Board (e. ESGAB) rýnir Eurostat..


Hvernig fer gæðaúttektin fram?

  1. Hagskýrsluyfirvöld framkvæma sjálfsmat sem tekur mið af meginreglunum.
  2. Úttektarteymin framkvæma ítarlega jafningjarýni með heimsókn til aðildarríkis.
  3. Úttektarteymið tekur saman skýrslu um styrkleika og tillögur til umbóta.
  4. Skýrslan er kynnt fyrir hagskýrslustofnun.

Hverju á jafningjarýni að ná fram?

Markmiðið er að sýna ESS og utanaðkomandi hagsmunaaðilum fram á það að samstarfið sé reist á meginreglum í evrópskri hagskýrslugerð.


Jafningjarýni er hluti af Evrópska hagskýrslusamstarfinu (ESS) og er ætlað að hafa eftirlit með innleiðingu og framkvæmd meginreglna samstarfsins og aðstoða hagstofur við það að bæta og þróa hagskýrslugerð þeirra.


Gæðaúttekt 2021-2023
Evrópska hagskýrslusamstarfið

Evrópska hagskýrslusamstarfið (European Statistical System)

Tölfræði hefur spilað veigamikinn þátt í uppbyggingu Evrópusambandsins allt frá upphafi þess. Hagstofa Evrópusambandsins (Eurostat) var stofnuð árið 1953. Upphaflegt hlutverk hennar var í tengslum við stál og kolabandalagið en árið 1958, með stofnun Evrópusambandsins, varð Eurostat að sérstöku ráðuneyti um hagskýrslugerð.


Samfara þróun og útvíkkun Sambandsins jókst krafan um samanburðarhæfa tölfræði fyrir ákvarðanatöku og árangur í stefnumótun. Þetta kallaði á nánari samvinnu milli Eurostat og hagstofa aðildarríkjanna og var lagður grunnur að Evrópska tölfræðisamstarfinu (ESS) í upphafi níunda áratugarins. Þegar EFTA-ríkin fengu aðgang að innri markaði með samningi Evrópska efnahagssvæðisins (EES) gengust þau undir evrópskar hagskýrslukröfur og urðu aðilar að ESS.


Evrópska tölfræðisamstarfið er byggt upp sem samstarf Eurostat, hagstofa aðildarríkjanna og annarra opinberra hagskýrsluframleiðenda, þ.e. stofnana sem framleiða opinbera evrópska tölfræði. Nú eru alls 27 aðildarríki innan ESS, auk fjögurra EFTA-ríkja; Íslands, Liechtensteins, Noregs og Sviss. Markmið samstarfsins er að veita öllum borgurum Evrópska efnahagssvæðisins samanburðarhæfar upplýsingar, þar sem gæði eru höfð að leiðarljósi, um stöðu efnahags og samfélagsins í þágu rannsókna og lýðræðislegrar umræðu og ákvarðana.


Bæði Eurostat og hagstofur ESS starfa samkvæmt viðmiðum sem sett eru fram í meginreglum í evrópskri hagskýrslugerð (European Statistics Code of Practice). Meginreglurnar eru 16 viðmið um framleiðslu og framsetningu opinberrar hagskýrslugerðar, þar með talið faglegt sjálfstæði, hlutlægni, svarbyrði, hagkvæmni, aðgengi og gegnsæi. Meginreglurnar eru mikilvægar í opinberri hagskýrslugerð og tryggja samhæfðar gæðakröfur innan EES.


Samstarf ESS nær til stofnana og þjónustu framkvæmdarstjórnar Evrópusambandsins og evrópskra seðlabanka (European System of Central Banks). Þá starfar ESS einnig með fjölda alþjóðastofnana svo sem OECD, Sameinuðu þjóðunum (UN), Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (IMF) og Alþjóðabankanum (World Bank).


Gæðayfirlýsing Evrópska hagskýrslusamstarfsins

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Sameinuðu þjóðirnar (United Nations) og heimsmarkmiðin 17

Hagstofa Íslands tekur þátt í tölfræðisamstarfi Sameinuðu þjóðanna. Tölfræðiskrifstofa Sameinuðu þjóðanna (UNSC) var stofnuð árið 1947 og er æðsti vettvangur hnattrænnar tölfræði. Þar koma saman hagstofustjórar aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna til að ræða og ákveða alþjóðleg tölfræðileg málefni svo sem staðla, þróun hugtaka og aðferða og innleiðingu þar að lútandi.

Árið 2015 samþykktu aðildarþjóðir Sameinuðu þjóðanna 17 heimsmarkmið um sjálfbæra þróun. Mikil áhersla hefur verið lögð á innleiðingu markmiðanna, fjöldi vísa hefur verið samþykktur til að meta árangur þjóðanna gagnvart markmiðunum. Flestir vísanna byggjast á opinberri tölfræði og hefur viðamikið samstarf hagstofa í heiminum snúist um hvernig best skuli útfæra mælingarnar. Hagstofa Íslands hefur unnið með Stjórnarráðinu að því að útbúa tölfræði fyrir Ísland um heimsmarkmiðin 17.

Norrænt samstarf

Hagstofa Íslands starfar náið með hagstofum hinna Norðurlandanna. Samstarf Norðurlandaþjóða á vettvangi tölfræði er ákaflega gott og mikil virkni einkennir samstarfið. Áhersla samstarfsins er innan evrópskrar opinberrar tölfræði og er starfrækt samvinnunet þar sem hagstofurnar skipa einn tengilið hver í hópa sem spegla málefnasvið evrópska tölfræðisamstarfsins og þvera málaflokka á borð við upplýsingatækni eða miðlun. Hagstofustjórar norðurlandanna hittast árlega á fundi þar sem tekin eru fyrir mál líðandi stundar og unnið að því að efla veg hagskýrslugerðar á Norðurlöndum. Þriðja hvert ár er haldið norrænt tölfræðingamót þar sem hagstofur Norðurlandanna leiða saman hesta sína og fjalla um tölfræðileg málefni og áskoranir á breiðum sameiginlegum vettvangi.

Annað alþjóðlegt samstarf

Upplýsingar frá Hagstofu Íslands eru notaðar í fjölda alþjóðlegra verkefna og á vettvangi alþjóðlegs samstarfs ýmissa stofnana. Þessar upplýsingar koma notendum íslenskra hagtalna að gagni við að meta stöðu Íslands í alþjóðlegu samhengi.