FRÉTT VÍSINDI OG TÆKNI 23. OKTÓBER 2017

Á árunum 2014–2016 stundaði helmingur fyrirtækja* á Íslandi með 10 starfsmenn eða fleiri nýsköpun þar sem nýjar vörur eða þjónusta var sett á markað eða nýir verkferlar innleiddir. Þetta er svipuð niðurstaða og í fyrstu mælingu Hagstofunnar árin 2012–2014. Þriðjungur fyrirtækja setti nýja vöru eða þjónustu á markað eða endurbætti eldri vöru eða þjónustu. Gat það þó verið nýjung hjá fyrirtækinu sjálfu án þess að vera nýjung á markaðnum, en 25% fyrirtækja settu á markað vörur eða þjónustu sem voru nýjungar á markaði. Jafnframt innleiddi þriðjungur fyrirtækja nýja verkferla á tímabilinu. Hjá 31% fyrirtækja var einhver nýsköpunarstarfsemi sem leiddi ekki til þess að vörur eða þjónusta var sett á markað eða verkferlar innleiddir á tímabilinu.

Auk nýsköpunar vöru, þjónustu og verkferla gátu fyrirtæki hafa innleitt nýtt starfskipulag eða nýjungar í markaðssetningu. 31% fyrirtækja innleiddu þannig nýtt starfskipulag á tímabilinu, en 27% innleiddu nýjungar í markaðssetningu. Ef þess konar nýsköpun er talin með sem nýsköpun almennt, auk nýsköpunar vöru, þjónustu og verkferla, voru 55% fyrirtækja virk í nýsköpun á tímabilinu í stað 50%. Var það hlutfall 59% á árunum 2012–2014 þar sem nýsköpun skipulags og markaðssetningar var algengari þá.

Um gögnin
Skilgreiningar á nýsköpun í gagnasöfnun Hagstofunnar byggjast á handbók Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD), Oslo Manual (3. útgáfu). Staðlaður spurningalisti frá hagstofu Evrópusambandsins, Eurostat, er lagður fyrir í íslenskri þýðingu Hagstofu Íslands. Helstu niðurstöður rannsóknarinnar eru birtar í töflum á vef Hagstofunnar.

Nýsköpun felur í sér tilkomu nýrra eða verulega endurbættra afurða, verkferla, skipulags, eða markaðssetningar hjá fyrirtækjum.

Nýsköpunin þarf að búa yfir einhverjum eiginleikum eða notkunarmöguleikum sem eru nýjung eða fela í sér verulegar endurbætur frá því sem fyrirtæki hefur áður selt eða notað. Nýsköpunin má þó hafa mistekist eða tekið lengri tíma til að ganga upp en upprunalega var gert ráð fyrir.

Nýsköpunin þarf aðeins að vera ný eða verulega endurbætt innan fyrirtækisins. Hún gæti upprunalega hafa verið þróuð eða notuð af öðrum aðilum.

Í rannsókninni eru undanskilin fyrirtæki með aðalstarfsemi í eftirfarandi atvinnugreinum samkvæmt bálkum ÍSAT-atvinnugreinaflokkunarinnar: Landbúnaður, skógrækt og fiskveiðar (ÍSAT 01–03); byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð (ÍSAT 41–43); sala, viðgerðir og viðhald á vélknúnum ökutækjum (ÍSAT 45); smásöluverslun (ÍSAT 47); fasteignaviðskipti (ÍSAT 68); lögfræðiþjónusta og reikningshald (ÍSAT 69); starfsemi höfuðstöðva, starfsemi við rekstrarráðgjöf (ÍSAT 70); dýralækningar (ÍSAT 75); leigustarfsemi og ýmis sérhæfð þjónusta (ÍSAT 77–82); opinber stjórnsýsla og varnarmál; almannatryggingar (ÍSAT 84); fræðslustarfsemi (ÍSAT 85); heilbrigðisþjónusta (ÍSAT 86); umönnun á dvalarheimilum og félagsþjónusta án dvalar á stofnun (ÍSAT 87–88); menningar-, íþrótta- og tómstundastafsemi (ÍSAT 90–93); félagasamtök og önnur þjónustustarfsemi (ÍSAT 94–96).

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1260 , netfang fyrirtaekjatolfraedi@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.