Hagstofa Íslands fagnaði 100 ára afmæli árið 2014 og minntist afmælisins með ýmsum hætti á árinu.

Hagstofan tók til starfa árið 1914. Til ársloka 2007 var hún eitt ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Hún hefur lengst af starfað samkvæmt stofnlögum sínum frá 1913 og lögum og reglugerð um Stjórnarráð Íslands. Hinn 1. janúar 2008 var hún hins vegar lögð niður sem ráðuneyti. Þá tóku gildi ný lög um Hagstofu Íslands og opinbera hagskýrslugerð og komu þau að mestu í stað eldri löggjafar um starf Hagstofunnar. Samkvæmt þeim er Hagstofan sjálfstæð stofnun sem heyrir undir forsætisráðherra. Í 1. gr. laganna segir að Hagstofan sé miðstöð opinberrar hagskýrslugerðar í landinu og hafi forystu um tilhögun, samræmingu og framkvæmd hennar svo og um samskipti við alþjóðastofnanir á þessu sviði.

Fyrirlestrar fluttir á afmæli Hagstofunnar 28. nóvember 2014

Hallgrímur Snorrason fyrrverandi hagstofustjóri heiðraður

Hagtíðindi á timarit.is

Sumarið 2014 samdi Hagstofan við Landsbókasafn Íslands — Háskólabókasafn um skönnun og miðlun Hagtíðinda 1916–2003 gegnum vefinn timarit.is en þar er að finna mikið úrval tímarita sem hægt er að lesa með aðgengilegum hætti gegnum samræmt viðmót. Á vefsíðu Hagstofunnar er að finna Hagtíðindi frá 2004 sem var ár mikilla breytinga í miðlun hagtalna. Eins og sakir standa eru Hagtíðindi frá upphafi 1916 til okkar tíma aðgengileg gegnum tvo aðskilda vefi; timarit.is (1916–2003) og hagstofa.is (2004–).

Einnig samdi Hagstofan um skönnun og miðlun ritraðarinnar Þjóðhagsreikningaskýrslur sem Þjóðhagsstofnun gaf út á árunum 1982–1999 og eru öll 18 hefti ritraðarinnar nú aðgengileg á timarit.is.

Sjá nánari umfjöllun í fréttatilkynningu: Hagtíðindi í heild komin á vefinn.

Hagstofan á frímerki

Í tilefni aldarafmælis Hagstofunnar gaf Íslandspóstur út frímerki hinn 16. janúar 2014. Frímerkið hannaði Kristín Þóra Guðbjartsdóttir hönnuður og er hægt að skoða frímerkið á vef Póstsins.