Heildarlaunakostnaður á greidda stund jókst um 8,1% frá fyrri ársfjórðungi í samgöngum og flutningum, 6,1% í iðnaði, 5,7% í verslun og ýmissi viðgerðarþjónustu og 5,3% í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð. Þessi aukning er tilkomin meðal annars vegna óreglulegra greiðslna sem féllu til á tímabilinu og vegna breytinga á samsetningu vinnuafls þar sem starfsfólki í neðri þrepum launastigans  hefur fækkað hlutfallslega meira en öðrum.

Heildarlaunakostnaður á greidda stund  án óreglulegra greiðslna jókst í áðurnefndum atvinnugreinum nema iðnaði, þar sem kostnaðurinn dróst saman um 0,2%, frá fyrri ársfjórðungi. Var aukningin 3% í samgöngum og flutningum, 2,7% í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð og 1,8% í verslun og ýmissi viðgerðarþjónustu. Greiðsla desemberuppbótar sem greiðist á tímabilinu er dæmi um óreglulega greiðslu.

Frá fyrra ári jókst heildarlaunakostnaður mest í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð um 9,3% en dróst saman um 3,3% í verslun og ýmissi viðgerðarþjónustu. Á sama tímabili jókst heildarlaunakostnaður um 7,5% í samgögnum og flutningum og 5,6% í iðnaði.

Á 4. ársfjórðungi komu til framkvæmda kjarasamningar milli einstakra fyrirtækja og stéttarfélaga, meðal annars í iðnaði.

Vísitala launakostnaðar er kostnaðarvísitala sem sýnir breytingar á launakostnaði á greidda stund og er ekki leiðrétt fyrir breytingum í samsetningu vinnuafls og vinnustunda. Niðurstöður eru birtar með fyrirvara um breytingar. Vísitala launakostnaðar er gefin út ársfjórðungslega og reiknuð samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og Ráðsins nr. 450/2003.

Talnaefni