Heildarlaunakostnaður á greidda stund jókst um 13% frá fyrri ársfjórðungi í samgöngum og flutningum, 10,8% í verslun og ýmissi viðgerðarþjónustu, 8,5% í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð og 7,3% í iðnaði.

Ef litið er til heildarlaunakostnaðar án óreglulegra greiðslna frá fyrri ársfjórðungi var aukningin 5,7% í samgöngum og flutningum, 5,6% í verslun og ýmissi viðgerðarþjónustu, 4% í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð og 1,8% í iðnaði. Í heildarlaunakostnaði án óreglulegra greiðslna eru greiðslur útilokaðar sem ekki eru gerðar upp á hverju útborgunartímabili eins og desemberuppbót.

Árshækkun heildarlaunakostnaðar á greidda stund frá 4. ársfjórðungi 2008 var á bilinu 5,6% til 7,7%.

Samkvæmt samkomulagi um breytingar á kjarasamningum milli aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins sem undirritað var 25. júní 2009 komu launabreytingar, sem samkvæmt fyrri samningum áttu að taka gildi 1. mars 2009, til framkvæmda í tvennu lagi, 1. júlí og 1. nóvember síðastliðinn. Samkvæmt samkomulaginu hækkuðu almennir launataxtar um 6.750-8.750 krónur 1. júlí og um sömu upphæð 1. nóvember. Í samkomulaginu var einnig kveðið á um 3,5% launaþróunartryggingu fyrir tímabilið 1. janúar 2009 til 1. nóvember 2009. Sú hækkun kom til framkvæmda 1. nóvember 2009.

Vísitala launakostnaðar er kostnaðarvísitala sem sýnir breytingar á launakostnaði á greidda stund og er ekki leiðrétt fyrir breytingum í samsetningu vinnuafls og vinnustunda. Niðurstöður eru birtar með fyrirvara um breytingar. Vísitala launakostnaðar er gefin út ársfjórðungslega og reiknuð samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og Ráðsins (EB) nr. 450/2003.


Talnaefni