Í tilefni af 100 ára afmæli Hagstofu Íslands samþykkti yfirstjórn Hagstofunnar að Hallgrímur Snorrason, fyrrverandi hagstofustjóri, skyldi heiðraður vegna framlags hans til hagskýrslugerðar á Íslandi.

Hallgrímur Snorrason var skipaður hagstofustjóri frá ársbyrjun 1985 til ársloka 2007, eða í 23 ár og má segja að hann hafi staðið að umbyltingu í íslenskri hagskýrslugerð á þeim tíma.

Hallgrímur hafði forystu um tölvuvæðingu allrar upplýsingavinnslu Hagstofunnar. Áður voru stórtölvur, eða skýrsluvélar,  notaðar fyrir hluta starfseminnar til að halda utan um stórar skrár, en með almennri útbreiðslu og framförum í tölvutækni var hagskýrslugerðin í raun nútímavædd.

Miðlun hagtalna á rafrænu formi skipti Hallgrím miklu máli og fólst veigamesti þátturinn í miðlun hagtalna á vef Hagstofunnar fljótlega eftir að sú leið opnaðist. Hagstofuvefurinn gjörbreytti í nokkrum skrefum aðgangi að hagtölum og tímanleika þeirra auk þess sem jafnræði milli notenda varð að veruleika. Má segja að um byltingu hafi verið að ræða með bættri þjónustu við notendur auk þess mikla sparnaðar sem fólst í því að útgjöld til prentunar hagtalna lækkuðu verulega.

Hallgrímur endurskipulagði rekstur Hagstofunnar í nokkrum mikilvægum áföngum.  Stjórnsýsluskrár sem Hagstofan bar ábyrgð á, einkum þjóðskrá og fyrirtækjaskrá, færðust til annarra stofnana. Jafnframt voru hagskýrsluverkefni utan Hagstofunnar færð í áföngum til hennar, gerð þjóðhagsreikninga árið 2002 og launa- og kjararannsóknir árið 2005.  Þar með voru meginsvið hagskýrslugerðar komin á einn stað og styrktist Hagstofa Íslands til jafns við aðrar hagstofur á Norðurlöndum sem miðstöð hagskýrslugerðar á Íslandi.

Í aðdraganda EES-samningsins sem tók gildi árið 1994, eða fyrir réttum 20 árum,  varð íslensk hagskýrslugerð samtvinnuð þeirri evrópsku auk þess sem áhrifa af alþjóðlegum straumum gætti meira í íslenskri hagskýrslugerð en áður. Hallgrímur leiddi þá þróun af einurð og stórefldi samskipti Hagstofunnar og erlenda samvinnu við alþjóðastofnanir í hagskýrslugerð. Sýndi hann með því mikla framsýni í störfum sínum sem stjórnandi. Sem dæmi má nefna að Hagstofan innleiddi árið 1991 úrtaksrannsóknir  um vinnumarkað í samræmi við evrópska staðla. Hallgrímur tók þátt í evrópsku hagskýrslusamstarfi af lífi og sál löngu áður en EES-samningurinn tók gildi.

Loks má nefna að í desember 2007 voru samþykkt ný lög um Hagstofu Íslands og opinbera hagskýrslugerð sem Hallgrímur hafði forgöngu um. Leystu þau af hólmi eldri lög frá árinu 1913. Fullyrða má að núgildandi löggjöf sé sambærileg við það besta sem gerist á því sviði annars staðar í Evrópu og tekur hún mið af þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem Ísland hefur undirgengist.