Búferlaflutningar


0. Skráningaratriði fyrir viðfangsefni


0.1 Heiti

Búferlaflutningar

0.2 Efnisflokkur

Mannfjöldi

0.3 Umsjón; stofnun, deild, sérfræðingur o.s.frv.

Brynjólfur Sigurjónsson
Hagstofa Íslands
brynjolfur.sigurjonsson (hjá) hagstofa.is
Sími: 528 1033

0.4 Tilgangur og aðdragandi

Árið 1961 hóf Hagstofa Íslands að birta tölur um búferlaflutninga, en fyrir þann tíma voru aðalmanntöl helstu heimildir um búferlaflutninga. Fram til loka ársins 1985 voru tölur um búferlaflutninga unnar einu sinni á ári og var því hver sá sem skipti um lögheimili á árinu aðeins talinn flytja búferlum einu sinni. Miðað var við breytingar á lögheimili fyrsta desember líðandi árs og ársins á undan. Með tilkomu breytingaskrár 1986 voru tölur um búferlaflutninga unnar mánaðarlega og var miðað við að hver einstaklingur yrði að hafa lögheimili í a.m.k. einn mánuð á sama stað áður en hann teldist flytja búferlum.

0.5 Notendur og notkunarsvið

Ráðuneyti, sveitarfélög, stofnanir, fyrirtæki, félagasamtök og einstaklingar.

0.6 Heimildir

Breytingaskrá Þjóðskrár en í hana eru m.a. skráðar tilkynningar um búferlaflutninga.

0.7 Lagalegur grundvöllur fyrir hagskýrslugerð

Lög um Hagstofu Íslands og opinbera hagskýrslugerð nr. 163/2007.
Lög um þjóðskrá og almannaskráningu, nr. 54/1962.

0.8 Svarbyrði við innsöfnun


0.9 Ákvæði vegna EES og ESB


1. Efni


1.1 Efnislýsing

Hagstofa Íslands birtir tölur yfir búferlaflutninga bæði innanlands og milli landa ársfjórðungslega í upphafi hvers ársfjórðungs.

Með tilkomu breytingaskrár Þjóðskrár í mars 1986 var skilgreiningu á búferlaflutningum breytt. Í stað þess að miða búferlaflutninga við heilt ár er tekið tillit til búferlaflutninga innan ársins.

Eftirtalin atriði koma fram í útgefnum fréttatilkynningum:

  • Búferlaflutningar innanlands milli landsvæða
  • Innanlandsflutningar eftir sveitarfélögum og byggðakjörnum
  • Búferlaflutningar milli landa eftir löndum og ríkisfangi

1.2 Tölfræðileg hugtök

Flutningstíðni: Jafnan sýnd sem aðfluttir umfram brottflutta af hverjum 1.000 íbúum á aðflutningssvæði.

Flutningsjöfnuður (net migration): Fjöldi aðfluttra að frádregnum fjölda brottfluttra.

Endurkomur brottfluttra (return migration): Aðflutningar þeirra sem áður hafa flust frá Íslandi til útlanda.

2. Tími


2.1 Viðmiðunartími talnaefnis

Tölur um búferlaflutninga eru gerðar upp ársfjórðungslega.

2.2 Vinnslutími

Um það bil 10 dagar frá lokum tímabils.

2.3 Stundvísi birtingar

Tölur um búferlaflutninga birtast samkvæmt birtingaráætlun hvers árs.

2.4 Tíðni birtinga

Tölur um búferlaflutninga eru gefnar út á þriggja mánaða fresti í formi fréttatilkynninga en auk þess einu sinni á ári í Landshögum.

3. Áreiðanleiki og öryggismörk


3.1 Nákvæmni gagna og áreiðanleiki

Síðbúnar flutningstilkynningar er helsti skekkjuvaldur á tölum um búferlaflutninga.

Búferlaflutningar eru gerðir upp fyrir hvern mánuð og er því um endanlega tölu að ræða fyrir hvern mánuð fyrir sig og tölum þess mánaðar sem búið er að vinna er ekki breytt síðar í vinnsluferlinu. Berist flutningstilkynning mánuði of seint eða meira er henni bætt við þann mánuð sem hún barst í.

Aðeins um 55% flutningstilkynninga berast innan við mánuð frá flutningsdegi ef miðað er við alla flutninga síðastliðin 5 ár (frá 1996-2000). Eftir tvo mánuði hafa 96% allra flutningstilkynninga skilað sér til Hagstofu og innan hálfs árs hafa 98% þeirra borist Hagstofu Íslands.

3.2 Skekkjuvaldar í gögnum

Skekkjur á útgefnum flutningstölum eru til komnar vegna seinkana á flutningstilkynningum.

3.3 Tölur um öryggismörk/skekkjumælingar

Engin öryggismörk reiknuð þar sem um heildarsafn er að ræða.

4. Samanburður


4.1 Samanburðarhæfi milli tímabila

Með tilkomu breytingaskrár í lok mars 1986 var skilgreiningu á búferlaflutningum breytt. Í stað þess að miða búferlaflutninga við heilt ár er miðað við einn mánuð sem þýðir að ef einstaklingur flytur tvisvar í sama mánuðinum telst hann aðeins hafa flutt einu sinni. Rétt er að ítreka að tölur um búferlaflutninga eftir 1986 eru því ekki að fullu samanburðarhæfar við eldri tölur.

4.2 Samanburður við aðrar hagtölur


4.3 Samband milli bráðabirgðatalna og lokatalna

Engar bráðabirgðatölur eru gefnar út fyrir búferlaflutninga.

5. Aðgangur að upplýsingum


5.1 Miðlunarleiðir

  • Fréttir birtar á vef Hagstofunnar
  • Hagtölur, efnisflokkaðar veftöflur
  • Hagtíðindi, ritröð
  • Landshagir, árbók Hagstofu Íslands
  • Hagtíðindi. Mánaðarrit Hagstofu Íslands. Útgáfu hætt 2004
  • Mannfjöldaskýrslur til ársins 1980. Í ritröðinni Hagskýrslur Íslands
  • Hagskinna. Sögulegar hagtölur um Ísland

5.2 Grunngögn; varðveisla og notkunarmöguleikar

Gögn geymd á tölvutæku formi hjá Mannfjölda- og manntalsdeild Hagstofu Íslands. Ekki er veittur aðgangur að einstaklingsbundnum gögnum en unnt er að fá sérvinnslur úr þeim gegn greiðslu.

5.3 Skýrslur


5.4 Aðrar upplýsingar

Frekari upplýsingar má fá hjá Mannfjölda- og manntalsdeild Hagstofu Íslands, s. 528 1031 eða með tölvubréfi: mannfjoldi (hjá) hagstofa.is

© Hagstofa �slands, �ann 4-1-2010