Launavísitala


0. Skráningaratriði fyrir viðfangsefni


0.1 Heiti

Launavísitala

0.2 Efnisflokkur

Laun og tekjur

0.3 Umsjón; stofnun, deild, sérfræðingur o.s.frv.

Hagstofa Íslands
Laun, tekjur og menntun
Tölvupóstfang: laun@hagstofa.is
Sími: 528 1250

0.4 Tilgangur og aðdragandi

Tilurð laga um launavísitölu, nr. 89/1989, má rekja til málefnasamnings stjórnarflokkanna frá september 1988 þar sem gert var ráð fyrir að tekin yrði upp ný lánskjaravísitala sem reist yrði á launavísitölu auk vísitölu framfærslukostnaðar og vísitölu byggingarkostnaðar. Í frumvarpi með lögunum er kveðið á um að mældar skuli breytingar allra launaþátta, ekki aðeins dagvinnulauna. Ekki er skilgreint nánar í frumvarpinu hvað launaliðum í vísitölunni er ætlað að endurspegla breytingar á, en tekið er fram að ekki sé ætlast til að breytingar á vinnutíma og samsetningu hans hafi áhrif á launavísitöluna, nema ef um sé að ræða samningsbundnar breytingar sem jafna má til launabreytinga. Við framkvæmd mælinga hefur því verið stuðst við það sjónarmið löggjafans að um sé að ræða verðvísitölu þar sem vinnutíma og samsetningu hópsins sem liggur að baki útreikningum er haldið föstum á milli mælinga til að endurspegla launaþróun í landinu.

Ásamt mánaðarlegri heildartölu launavísitölu er einnig birt sundurliðun. Með birtingu á mánaðarlegri sundurliðun launavísitölu er Hagstofa Íslands að koma til móts við kröfur notenda um sundurliðaðar upplýsingar um launaþróun einstakra hópa á íslenskum vinnumarkaði.

0.5 Notendur og notkunarsvið

Helstu notendur launavísitölu eru greiningaraðilar, aðilar vinnumarkaðarins, stjórnvöld, einstaklingar og erlendar stofnanir. Launavísitalan segir til um þróun launa á íslenskum vinnumarkaði.

0.6 Heimildir

Launavísitala byggir á gagnasafni launarannsóknar Hagstofu Íslands. Í rannsókninni er mánaðarlega aflað upplýsinga um laun og launakostnað allra starfa hjá rekstrareiningum í úrtaki rannsóknarinnar. Í úrtaki eru fyrirtæki á almennum vinnumarkaði og sveitarfélögum, en heildarupplýsingar liggja fyrir um ríkisstarfsmenn. Rekstrareiningar senda mánaðarlega rafrænar upplýsingar á samræmdu sniði beint úr launabókhaldi í rannsóknina. Í launarannsókn er nákvæmra upplýsinga aflað um launagreiðanda, launamann, launagreiðslur, greiddar stundir og annan launakostnað. Gögnin eru gæðaprófuð við móttöku, þar sem sannreynt er að þau standist kröfur launarannsóknar. Við framkvæmd launarannsóknar er tekið mið af þeim kröfum sem gerðar eru til launakannana í reglugerðum á Evrópska efnahagssvæðinu.

0.7 Lagalegur grundvöllur fyrir hagskýrslugerð

Launavísitala er byggð á lögum nr. 89/1989. Í lögunum er að finna fyrirmæli um að Hagstofan skuli í mánuði hverjum reikna og birta launavísitölu sem byggð er á mældum launabreytingum næstliðins mánaðar. Um heildarvísitölu og sundurliðun á launavísitölu gilda jafnframt lög um Hagstofu Íslands og opinbera hagskýrslugerð nr. 163/2007.

0.8 Svarbyrði við innsöfnun

Reynt er að halda svarbyrði rekstrareininga í lágmarki í launarannsókn. Í upphafi er farið í gegnum tæknileg atriði með sérfræðingi Hagstofunnar. Launasamsetning rekstrareiningar er skoðuð og launaliðir tengdir færslu rannsóknarinnar þannig að samræmis sé gætt við aðrar rekstrareiningar. Þegar innleiðingarferli er lokið senda rekstrareiningar mánaðarlega skilagrein í formi textaskjals til Hagstofunnar. Ef upp koma álitaefni við vinnslu gagna er haft samband við viðkomandi rekstrareiningu.

0.9 Ákvæði vegna EES og ESB

Engin ákvæði eru í gildi vegna EES og ESB. Hins vegar er stuðst við reglugerð ráðsins (EB) nr. 530/1999 frá 9. mars 1999 varðandi hagskýrslur um uppbyggingu launa og launakostnaðar og reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 1916/2000 frá 8. september 2000 um framkvæmd reglugerðar ráðsins (EB) nr. 530/1999 varðandi hagskýrslur um uppbyggingu launa og launakostnaðar með tilliti til skilgreiningar og sendingar upplýsinga um uppbyggingu launa.

1. Efni


1.1 Efnislýsing

Launavísitala segir til um þróun launa á íslenskum vinnumarkaði og byggir á launahugtakinu regluleg laun. Launahugtakið endurspeglar laun sem greidd eru mánaðarlega fyrir umsamda vinnuskyldu. Birt er eitt gildi fyrir hvern mánuð, sem er mat á meðallaunabreytingum milli mánaða. Grunnur launavísitölunnar er desember 1988 en þá var vísitalan sett á stig 100. Grunnur fyrir sundurliðun á launavísitölu er hins vegar desember 2014.

Útreikningur launavísitölu byggir á tveimur meginaðferðum eftir því hvort um er að ræða útreikning á verðbreytingum í grunni eða í efra lagi þar sem grunnbreytingar eru vegnar saman. Í grunni er beitt svokallað Fisher margfeldismeðaltal (e. Fisher ideal index). Við útreikning í efra lagi, þar sem grunnliðir eru vegnir saman, er notast við keðjutengda Laspeyres fastgrunnsvísitölu. Í grunni eru reiknaðar paraðar breytingar reglulegra launa á milli tveggja samliggjandi mánaða hjá þeim sem uppfylla skilyrði pörunar. Mældar eru breytingar á reglulegum launum á greidda stund, þ.e. reglulegu tímakaupi, en regluleg laun á mánuði hjá viðkomandi launamanni ákvarða þá vog sem notuð er til að vega breytinguna innan viðkomandi starfasellu. Það þýðir að vægi einstakra launabreytinga í útreikningi ræðst af vægi reglulegra launa einstaklingsins af heildarsummu reglulegra launa í starfasellu. Einstaklingur sem hafði tiltekið hlutfallslegt vægi þegar launabreytingar eru mældar á milli janúar og febrúar getur því haft annað vægi í samanburði á launum febrúar og mars. Tekið er tillit til úrtakshönnunar við útreikning á grunnbreytingum þannig að við útreikning eru regluleg laun vegin með úrtaksvog.

Heildartala fyrir launavísitölu er birt mánaðarlega u.þ.b. 20 dögum eftir að viðmiðunarmánuði lýkur.

·Launavísitala 1989-2018

Sundurliðun á launavísitölu er birt mánaðarlega u.þ.b. 90 dögum eftir að viðmiðunarmánuði lýkur. Birt er sundurliðun eftir launþegahópum; starfsmenn á almennum vinnumarkaði, starfsmenn sveitarfélaga, ríkisstarfsmenn og opinberir starfsmenn alls. Einnig er birt fyrir almennan vinnumarkað sundurliðun eftir starfsstéttum annars vegar og atvinnugreinum hins vegar.

·Mánaðarleg launavísitala helstu launþegahópa 2015-2018
·Mánaðarleg launavísitala á almennum vinnumarkaði eftir atvinnugrein 2015-2018
·Mánaðarleg launavísitala á almennum vinnumarkaði eftir starfsstétt 2015-2018

Eldri töflum með ársfjórðungslegu niðurbroti er einnig viðhaldið.

·Ársfjórðungsleg launavísitala helstu launþegahópa 2005-2018
·Mánaðarleg launavísitala á almennum vinnumarkaði eftir starfsstétt 2005-2018

1.2 Tölfræðileg hugtök

Vísitalan byggir á pöruðum einstaklingsbreytingum. Reiknaðar eru breytingar reglulegra launa þeirra einstaklinga sem eru í sama starfi, hjá sama fyrirtæki og í sömu atvinnugrein, í tveimur samliggjandi mánuðum.

Pöruð breyting
Með paraðri breytingu er átt við að aðeins eru reiknaðar breytingar á launum þeirra einstaklinga sem eru í sama starfi á báðum viðmiðunartímabilum, hjá sama fyrirtæki og í sömu atvinnugrein í tveimur samliggjandi mánuðum. Reiknaðar eru breytingar á launum sérhvers einstaklings sem uppfyllir áður nefnd skilyrði og eru þær breytingar svo vegnar saman með tilliti til launasummu í hverri starfasellu.

Regluleg laun
Í lögum um launavísitölu er ekki skilgreint með nákvæmum hætti hvaða launaliðir skulu teljast hluti heildarlauna fyrir fastan vinnutíma en í framkvæmd hefur vísitölunni verið ætlað það hlutverk að mæla breytingar allra launaliða svo framarlega sem breytingar á vinnutíma og samsetningu hans hafi ekki áhrif á verð þeirra. Notast er því við launahugtakið regluleg laun sem inniheldur grunndagvinnulaun, vaktaálag, álagsgreiðslur, kostnaðargreiðslur og afkastatengdar bónusgreiðslur sem gerðar eru upp á hverju útborgunartímabili. Í reglulegum launum er ekki tekið tillit til yfirvinnugreiðslna, uppmælinga, ákvæðisgreiðslna, hlunninda, akstursgreiðslna og greiðslna sem ekki eru gerðar upp á hverju útborgunartímabili, s.s. eingreiðslna, nema að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Þýði
Þýði rannsóknarinnar eru allir launamenn 18 ára eða eldri sem starfa hjá fyrirtækjum, stofnunum eða sveitarfélögum með 10 eða fleiri starfsmenn. Þýðið er sá hópur sem rannsókninni er ætlað að lýsa.

Sama starf
Störf eru flokkuð samkvæmt ÍSTARF95 flokkunarkerfinu. ÍSTARF95 er flokkunarstaðall sem byggir á starfaflokkunarkerfi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, ISCO-88. Meginmarkmið flokkunarkerfisins er að störf séu flokkuð eftir innihaldi starfs í stað starfsheitis. Við pörun er notast við fjögurra stafa flokkun auk stöðutölu.

Sama fyrirtæki í sömu atvinnugrein
Atvinnugreinar byggja á ÍSAT08 atvinnugreinaflokkunarkerfinu. ÍSAT08 skipar skyldri starfsemi saman í bálka, deildir, flokka og greinar til þess að unnt sé að flokka starfsemi launagreiðanda. Kerfið er byggt á samræmdri atvinnugreinaflokkun Evrópusambandsins NACE Rev.2 sem liggur til grundvallar sams konar flokkunum í öllum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins. Þannig er tryggt að upplýsingar um tiltekna starfsemi eða atvinnugrein í einu ríki séu samanburðarhæfar við sams konar upplýsingar í öðrum ríkjum. Við pörun er notast við fimm tölustafa flokkunarkóða.

Skipting vinnumarkaðarins
Frá árinu 2018 er stuðst við evrópska þjóðhagsreikningastaðalinn ESA 2010 við ákvörðun um skiptingu vinnumarkaðarins í almennan vinnumarkað og opinbera starfsmenn. Opinberir starfsmenn teljast þeir sem vinna hjá hinu opinbera" (S.13). Til hins opinbera telst rekstur ríkis og sveitarfélaga sem er undir stjórn þeirra og er rekinn að meiri hluta fyrir skatttekjur. Aðrir teljast þá til almenns vinnumarkaðar, þar með talið fyrirtæki í eigu opinberra aðila sem rekin eru að meiri hluta fyrir tekjur af sölu á vöru eða þjónustu.

Fram til ársins 2017 voru opinberir starfsmenn skilgreindir sem starfsmenn sem fengu greidd laun frá sveitarfélögum og fjársýslu ríkisins. Aðrir töldust til almenns vinnumarkaðar. Ekki er teljandi munur á þessum skilgreiningum.

Almennur vinnumarkaður
Mælingar á almennum vinnumarkaði takmarkast við atvinnugreinarnar: Framleiðsla (C), rafmagns-, gas- og hitaveitur (D), vatnsveita, fráveita, meðhöndlun úrgangs og afmengun (E), byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð (F), heild- og smásöluverslun, viðgerðir á vélknúnum ökutækjum (G), flutningur og geymsla (H), upplýsingar og fjarskipti (J - eingöngu deildir 58-61, fyrirtæki á sviði upplýsingatækni - deildir 62-63 vantar), fjármála- og vátryggingastarfsemi (K) og árið 2018 var starfsemi arkitekta og verkfræðinga (M - eingöngu deild 71) bætt við.
Utan við mælingar vísitölunnar standa því nokkrar atvinnugreinar en sífellt er unnið að innleiðingu nýrra greina í launarannsókn Hagstofunnar.

Opinberir starfsmenn
Mælingar á opinberum starfsmönnum byggja á öllum starfsmönnum ríkisins sem fá greidd laun frá fjársýslu ríkisins og starfsmönnum sem fá greidd laun frá sveitarfélögum í úrtaki. Utan við mælingar vístölunnar standa nokkrir hópar sem teljast til hins opinbera og er þar fyrst og fremst um að ræða rekstur ýmissar stoðþjónustu sem er oft á tíðum í eigu fleiri en eins sveitarfélags.

Vogir
Notaðar eru vogir til þess að vega saman gögn launarannsóknar þannig að þau endurspegli samsetningu íslensks vinnumarkaðar. Þar sem mismunandi upplýsingar eru til staðar um hvern hluta úrtaks launarannsóknar byggja vogirnar á þeim upplýsingum sem tiltækar eru á hverjum tíma.

Grunnskipti eru áætluð í upphafi hvers árs og koma til framkvæmda við útreikning launavísitölu eftir fyrsta ársfjórðung. Við ákvörðun voga er stuðst við gögn úr staðgreiðslu og launarannsókn Hagstofu Íslands.

Grunnur vísitölunnar á almennum vinnumarkaði eru starfasellur og byggja þær á ÍSAT08 atvinnugreinaflokkuninni og ÍSTARF95 starfaflokkuninni. Vog hverrar starfasellu er ákvörðuð á grundvelli starfsstéttar annars vegar og atvinnugreinabálks hins vegar.

Árið 2018 er vægi almenna markaðarins 75,0% af heildarvísitölunni og vog hverrar sellu eftirfarandi. Athugið að alls talan byggir á nákvæmum gildum.

Framleiðsla (C)
Stjórnendur 3,9%
Sérfræðingar 1,6%
Tæknar 2,1%
Skrifstofufólk 0,8%
Afgreiðslufólk 0,9%
Iðnaðarmenn 4,6%
Verkafólk 11,2%
Alls 25,1%

Veitustarfsemi (D & E)
Stjórnendur 0,8%
Sérfræðingar 0,8%
Tæknar 0,4%
Skrifstofufólk 0,3%
Afgreiðslufólk 0,1%
Iðnaðarmenn 0,5%
Verkafólk 0,7%
Alls 3,7%

Byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð (F)
Stjórnendur 0,9%
Sérfræðingar 1,1%
Tæknar 0,7%
Skrifstofufólk 0,3%
Afgreiðslufólk 0,0%
Iðnaðarmenn 6,0%
Verkafólk 3,8%
Alls 13,1%

Heild- og smásöluverslun, viðgerðir á vélknúnum ökutækjum (G)
Stjórnendur 4,3%
Sérfræðingar 3,5%
Tæknar 2,1%
Skrifstofufólk 1,2%
Afgreiðslufólk 9,9%
Iðnaðarmenn 0,7%
Verkafólk 1,4%
Alls 23,2%

Flutningar og geymsla (H)
Stjórnendur 1,5%
Sérfræðingar 0,8%
Tæknar 4,3%
Skrifstofufólk 2,0%
Afgreiðslufólk 2,0%
Iðnaðarmenn 1%
Verkafólk 4,5%
Alls 16,1%

Upplýsingar og fjarskipti (J) - deildir 58-62 - niðurbrot ekki birt
Stjórnendur 0,5%
Sérfræðingar 1,3%
Tæknar 1,2%
Skrifstofufólk 0,2%
Afgreiðslufólk 0,2%
Iðnaðarmenn 0,1%
Verkafólk 0,0%
Alls 3,6%

Fjármála- og vátryggingastarfsemi (K)
Stjórnendur 2,9%
Sérfræðingar 4,4%
Tæknar 2,6%
Skrifstofufólk 1,2%
Afgreiðslufólk 0,0%
Iðnaðarmenn 0,0%
Verkafólk 0,0%
Alls 11,3%

Starfsemi arkitekta og verkfræðinga (M) eingöngu deild 71 - niðurbrot ekki birt
Stjórnendur 0,7%
Sérfræðingar 2,2%
Tæknar 0,6%
Skrifstofufólk 0,2%
Afgreiðslufólk 0,0%
Iðnaðarmenn 0,0%
Verkafólk 0,0%
Alls 3,8%

Hjá opinberum starfsmönnum eru ekki tiltækar upplýsingar um samsetningu eftir starfsstétt. Því er stuðst við samsetningu eftir heildarsamtökum stéttarfélaga.

Vægi ríkis er 13,5% af heildarvísitölunni árið 2017 og vægi heildarsamtaka er eftirfarandi:

ASÍ 4,8%
BSRB 23,1%
BHM 33,2%
KÍ 7,5%
Háskólamenntaðir aðrir 21,6%
Æðstu stjórnendur 5,9%
Utan stéttarfélaga 1,4%
Aðrir 2,5%

Vægi sveitarfélaga er 11,5% af heildarvísitölunni árið 2017 og vægi heildarsamtaka er eftirfarandi:

ASÍ 16,0%
BSRB 27,6%
BHM 12,9%
KÍ 39,6%
Háskólamenntaðir aðrir 1,7%
Æðstu stjórnendur 0,6%
Utan stéttarfélaga 1,2%
Aðrir 0,4

2. Tími


2.1 Viðmiðunartími talnaefnis

Viðmiðunartími launavísitölu er næstliðinn mánuður. Launavísitala janúarmánaðar sem birtist eftir 20. febrúar byggir því á breytingum launa á milli desember og janúar. Viðmiðunartími fyrir sundurliðun á launavísitölu er um það bil 90 dögum eftir að viðmiðunarmánuði lýkur. Sundurliðun á launavísitölu janúarmánaðar birtist í lok apríl.

2.2 Vinnslutími

Vinnslutími er að jafnaði um 20-24 dagar frá því að launagögn byrja að berast Hagstofunni þar til að launavísitala er birt. Vinnslutími fyrir sundurliðun á launavísitölu er að jafnaði um 80-90 dagar eftir að viðmiðunartímabili lýkur.

2.3 Stundvísi birtingar

Launavísitala er birt samkvæmt birtingaráætlun sem er á vef Hagstofu Íslands.
http://www.hagstofa.is.

2.4 Tíðni birtinga

Mánaðarlega.

3. Áreiðanleiki og öryggismörk


3.1 Nákvæmni gagna og áreiðanleiki

Launarannsókn Hagstofu Íslands er úrtaksrannsókn sem byggist á handahófsúrtaki fyrirtækja, sveitarfélaga og stofnana með tíu eða fleiri starfsmenn og byggir úrtaksramminn (sá hópur sem úrtakið er valið úr og ætlað að endurspegla þýðið) á staðgreiðslugögnum. Á hverju ári verða breytingar, sumar rekstrareiningar hætta starfsemi, aðrar stækka auk þess sem samruni eða sameining rekstrareininga er algeng. Við þessu hefur verið brugðist með vali sambærilegra rekstrareininga inn í úrtakið. Úrtaksramminn er endurnýjaður á hverju ári.
Við hönnun úrtaks á almennum vinnumarkaði er notað svokallað lagskipt klasaúrtak (e. Stratified cluster sampling) þar sem úrtakseining (e. sampling unit) rannsóknarinnar og grunneining úrtaksrammans er rekstrareining fyrirtækisins (e. kind of activity unit). Lagskipt er eftir atvinnugrein og stærð og eru rekstrareiningar klasar. Í hverju lagi (atvinnugrein) er fundin viðmiðunarstærð sem endurspeglar fjölda starfsmanna í meðalstóru fyrirtæki. Stærstu fyrirtækin í hverri atvinnugrein eru sjálfvalin og fá úrtakslíkur 1. Önnur fyrirtæki eru dregin af handahófi. Öll fyrirtæki í sama atvinnugreinabálki og stærðarflokki hafa sömu líkur á að vera dregin í úrtak. Einstaklingar hafa sömu úrtakslíkur og fyrirtækið sem þeir starfa hjá.
Sveitarfélög eru dregin í úrtak eftir landsvæði og stærð. Ríkið skilar heildargögnum í launarannsókn Hagstofu Íslands.

Til að tryggja nákvæmar og réttar upplýsingar um störf og laun í launarannsókn Hagstofu Íslands er leitað beint til fyrirtækja, sveitarfélaga og stofnana og gagna aflað með rafrænum hætti úr hugbúnaði þeirra. Sú aðferð er sú áreiðanlegasta sem völ er á þar sem gögnin berast hrein og milliliðalaust. Áður en þátttaka rekstrareininga í rannsókninni hefst gefa starfsmenn frá Hagstofu Íslands nákvæmar leiðbeiningar við flokkun og tengingar launaliða auk þess sem gætt er að samræmingu eftir nákvæmum verklagsreglum. Eftir að rekstrareining er komin í regluleg skil heldur endurgjöf áfram ef ástæða þykir. Við gæðaprófun gagna er mikil áhersla lögð á stöðluð villupróf, vönduð og nákvæm vinnubrögð og samræmingu. Fyrstu tvo mánuði sem einstaklingar parast í nýju starfi eru útilokaðir, einnig ef starfsmenn eru að hætta í starfi. Stöðugt er unnið að gæðamálum til að auka áreiðanleika hagtalna um laun á íslenskum vinnumarkaði.

3.2 Skekkjuvaldar í gögnum

Áreiðanleiki launavísitölu er háður óvissu vegna mögulegra skekkja. Skekkjur geta verið af ýmsum toga en í grunninn flokkast þær eftir því hvort um er að ræða úrtaksskekkjur (e. sampling errors) eða aðrar skekkjur (e. non sampling errors).
Úrtaksskekkjur stafa af þeirri óvissu sem felst í því að úrtakið er ekki nákvæm eftirmynd þýðis. Úrtaksskekkjur eru háðar úrtakshönnun, stærð úrtaks og dreifni (e. variance). Við úrtakshönnun og gerð úrtaksramma launarannsóknarinnar hefur verið reynt að halda úrtaksskekkju og skekkju vegna ófullkomins úrtaksramma í lágmarki. Á hverju ári er úrtaksrammi endurnýjaður og unnið að stækkun úrtaks til að lágmarka þessar skekkjur. Skekkjur geta orðið ef galli er í úrtaksramma sem unnin er úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra s.s. rekstrareiningar rangt flokkaðar í atvinnugreinanúmer, rekstrareiningar í blönduðum rekstri teljast einungis til einnar atvinnugreinar, rekstrareiningar vantar í úrtaksramma, rekstrareiningar eru nýjar í rekstri og vantar í úrtaksramma, rekstrareiningar sem hafa hætt rekstri eru í úrtaksramma, rekstrareiningar sem hafa breytt rekstri og eru með gamlar upplýsingar í úrtaksramma. Staðgreiðslugögn sem byggja á upplýsingum frá ríkisskattsstjóra eru skoðuð og leiðrétt hjá Hagstofu Íslands með það að markmiði að lágmarka mögulegar skekkjur.
Auk úrtaksskekkja er ýmislegt annað sem getur talist til mögulegra uppspretta skekkja. Með góðu samstarfi við fyrirtækin sem taka þátt í rannsókn og nákvæmum vinnureglum við gæðaprófun gagna er hættan á brottfalls- og mæliskekkjum lágmörkuð.

3.3 Tölur um öryggismörk/skekkjumælingar

Ekki hafa verið gerðar sérstakar athuganir á umfangi skekkju í launavísitölunni. Öryggismörk eru ekki reiknuð.

4. Samanburður


4.1 Samanburðarhæfi milli tímabila

Launavísitala hvers mánaðar er niðurstaða af mælingum Hagstofunnar á launabreytingum á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Sífellt er unnið að því að auka áreiðanleika vísitölunnar og hefur magn og gæði gagna verið aukið stöðugt á þeim árum sem liðin eru síðan fyrstu mælingar hófust. Allur samanburður yfir tíma verður að taka mið af þeirri þróun.

4.2 Samanburður við aðrar hagtölur

Launavísitala sýnir þróun reglulegra launa fyrir íslenskan vinnumarkað frá árinu 1989. Frá árinu 2015 hafa verið birtar upplýsingar um sundurliðun á launavísitölu sem sýnir þróun launa eftir atvinnugrein og starfsstétt á almennum vinnumarkaði auk launaþróunar í opinbera geiranum eftir stjórnsýslustigum.

Hugtakið regluleg laun er einnig notað í útreikningum meðallauna sem Hagstofa Íslands birtir árlega. Í reglulegum launum er hlutastarf uppreiknað í fullt starf ef launamaður er í hlutastarfi,
en í útreikningum launavísitölu eru regluleg laun umreiknuð í greitt tímakaup. Að öðru leyti er skilgreining launahugtaka hin sama. Í meðallaunum er einnig birt sambærileg sundurliðun og í launavísitölu.

Við samanburð á sundurliðun á launavísitölu og eldra efni með sundurliðun eftir atvinnugrein og starfsstétt verður að hafa í huga að fleiri atvinnugreinabálkar liggja að baki starfsstétta í sundurliðun á launavísitölu. Þá hefur nýtt atvinnugreinaflokkunarkerfi verið tekið upp og byggir atvinnugrein á ÍSAT08 í stað ÍSAT95.

4.3 Samband milli bráðabirgðatalna og lokatalna

Engar bráðabirgðatölur eru birtar. Launavísitala er ekki leiðrétt með afturvirkum hætti en breytingar sem koma í ljós eftir að mælingu á viðmiðunarmánuði lýkur geta haft áhrif á vísitöluna þegar þeirra breytinga verður vart. Í hverjum útreiknimánuði eru síðustu tvær mælingar endurskoðaðar.

5. Aðgangur að upplýsingum


5.1 Miðlunarleiðir

Gefin er út fréttatilkynning í hverjum mánuði, sjá birtingaráætlun á vef Hagstofunnar og fréttatilkynningar á vefnum. Hagtölur má finna í efnisflokkuðum veftöflum á vef Hagstofunnar.

5.2 Grunngögn; varðveisla og notkunarmöguleikar

Grunngögn sem launavísitala byggir á eru fyrst og fremst upplýsingar sem fengnar eru beint úr launakerfum fyrirtækja, sveitarfélaga og stofnana. Þau gögn innihalda upplýsingar um laun og launakostnað einstaklinga. Grunngögn eru varðveitt sem trúnaðarupplýsingar á Hagstofunni. Aðgangur er ekki veittur að þessum gögnum umfram það sem birt er opinberlega. Um meðferð og varðveislu gagna gilda að öðru leyti reglur Hagstofu Íslands um meðferð trúnaðargagna.

5.3 Skýrslur

Ekki eru gefnar út sérstakar skýrslur í tengslum við launavísitölu.

5.4 Aðrar upplýsingar

Frekari upplýsingar fást hjá starfsmönnum deildarinnar.

© Hagstofa �slands, �ann 3-5-2018