Þjónustuviðskipti við útlönd


0. Skráningaratriði fyrir viðfangsefni


0.1 Heiti

Þjónustuviðskipti við útlönd

0.2 Efnisflokkur

Utanríkisverslun

0.3 Umsjón; stofnun, deild, sérfræðingur o.s.frv.

Hagstofa Íslands
Utanríkisverslunardeild
Vésteinn Ingibergsson, verkefnastjóri
Sími 528 1156
Póstfang vesteinn.ingibergsson@hagstofa.is

0.4 Tilgangur og aðdragandi

Utanríkisverslun heldur utan um upplýsingar um þjónustuviðskipti við útlönd. Þau voru áður gefin út af Seðlabanka Íslands en frá árinu 2009 hefur Hagstofan borið ábyrgð á útgáfu þeirra.

0.5 Notendur og notkunarsvið

Helstu notendur eru opinberir aðilar, alþjóðastofnanir, fyrirtæki, sendiráð, fjölmiðlar og almenningur sem nota gögnin í margvíslegum tilgangi, t.a.m. til efnahagsrannsókna og markaðsrannsókna. Mismunur inn- og útflutnings þjónustu gefa þjónustujöfnuð við útlönd sem er haldgóð vísbending um ástand þjóðfélagsins. Tölur um utanríkisverslun eru notaðar til útreiknings viðskiptajafnaðar, greiðslujafnaðar við útlönd og þjóðhagsreikninga auk þess að veita upplýsingar um innlenda og erlenda eftirspurn.

0.6 Heimildir

Heimildir um þjónustuviðskipti við útlönd byggja á árlegri og ársfjórðungslegri rannsókn á þjónustuviðskiptum fyrirtækja, sveitafélaga og opinberra stofnanna. Öll fyrirtæki sem eru skilgreind sem stór fyrirtæki í úrtaksgrunni, um 100 talsins, eru spurð ársfjórðungslega um þjónustuviðskipti sín á yfirstandandi ári.

Úrtak um 700 lítilla og meðalstórra fyrirtækja er tekið úr úrtaksgrunni lítilla og meðalstórra fyrirtækja og gögn þeirra reiknuð upp eftir því. Lítil og meðalstór fyrirtæki eru á fyrsta ársfjórðungi hvers árs spurð um þjónustuviðskipti sín á liðnu ári. Samhliða eru sveitarfélög og opinberar stofnanir spurð um þjónustuviðskipti sín við útlönd á næstliðnu ári. Upplýsingarnar eru einnig notaðar til að meta fyrir viðskiptum þeirra á yfirstandandi ári.

Úrtaksgrunnur byggir á upplýsingum úr gjaldeyrisviðskiptakerfi Seðlabanka auk upplýsinga um virðisaukaskatt og gögnum beint frá fyrirtækjunum.

Aðrar heimildir um þjónustuviðskipti eru upplýsingar um notkun íslenskra kreditkorta erlendis og notkun erlendra kreditkorta á Íslandi. Mat á útgjöldum námsmanna og sjúkraferðum byggja á upplýsingum frá LÍN, Sjúkratryggingum Íslands og fjölda skiptinema í íslenskum háskólum. Upplýsingar um ferðaþjónustu byggja á upplýsingum um greiðslukortanotkun, upplýsingum um seðlaveltu frá Seðlabanka Íslands auk upplýsinga frá fyrirtækjunum sjálfum. Inn- og útflutningur á óbeint mældri fjármálaþjónustu (FISIM) er reiknaður af þjóðhagsreikningadeild Hagstofu Íslands. Útgjöld sendiráða hérlendis og erlendis eru metin út frá upplýsingum um fjölda starfsmanna sem fengnar eru frá Utanríkisráðuneyti og upplýsingum úr neyslukönnun Hagstofu.

0.7 Lagalegur grundvöllur fyrir hagskýrslugerð

Lög um Hagstofu Íslands og opinbera hagskýrslugerð nr. 163/2007, lög um skráningu og meðferð persónuupplýsinga, nr. 77/2000. Samþykktir Sameinuðu þjóðanna um grundvallarreglur um opinbera hagskýrslugerð.

0.8 Svarbyrði við innsöfnun

Samkvæmt lögum um Hagstofu Íslands og opinbera hagskýrslugerð ber öllum fyrirtækjum í úrtaki að svara. Fyrirtæki veita ársfjórðungslegar eða árlegar upplýsingar um:
-hvaða þjónusta var keypt frá útlöndum eða seld til útlanda
-viðskiptaland
-verðmæti viðskiptanna
-verðmæti viðskipta við tengda aðila
Gögnum er skilað rafrænt á vef Hagstofunnar.

0.9 Ákvæði vegna EES og ESB

Reglugerð 555/2012 með breytingum og viðaukum.

1. Efni


1.1 Efnislýsing

Reglugerð 555/2012 með breytingum og viðaukum. Þjónustuviðskipti við útlönd sýna innflutning á þjónustu til Íslands og útflutning á þjónustu frá Íslandi. Frá því að Hagstofan hóf útgáfu á þjónustuviðskiptum við útlönd árið 2009 og til ársins 2012 fylgdi Hagstofan alþjóðlegum staðli um þjónustuviðskipti við útlönd "Manual on Statistics of International Trade in Services" útgefnum af Sameinuðu þjóðunum í samvinnu við ESB, IMF, OECD og WTO.

Nýr staðall var tekinn upp árið 2013, Manual on Statistics of International Trade in Services 2010" (MSITS 2010), útgefnum af Sameinuðu þjóðunum í samvinnu við ESB, IMF, OECD og WTO. Staðallinn skilgreinir, eins og fyrri staðall, hvað þjónustuviðskipti við útlönd eru og hvað skuli meðtalið í þjónustuviðskiptum, hvaða verðmat er lagt til grundvallar og hvernig þjónusta skuli flokkuð.

Helstu breytingar í nýja staðlinum er að óbeint mæld fjármálaþjónusta (FISIM) og framleiðsluþjónusta bætist við þjónustuviðskiptin. Hinsvegar færist milliliðaverslun úr þjónustuviðskiptum í vöruskipti í greiðslujöfnuði.
Nánar um staðlabreytinguna og áhrif hennar á hagskýrslugerð er að finna í fréttum Hagstofu Íslands 1. September 2014 eða á eftirfarandi slóð: http://www.hagstofa.is/Pages/95?NewsID=10980

Fram til ársins 2013 voru kaup innlendra flutningsfara erlendis á eldsneyti meðtalin í þjónustuviðskiptum við útlönd í stað þess að vera bætt við vöruskipti í greiðslujöfnuði. Í nýjum staðli vöruskipta, sem tekinn var upp á sama tíma og nýr staðall þjónustuviðskipta, eru þessi kaup meðtalin.

Gögn eru birt bæði eftir ítarlegri EBOPS flokkun og viðskiptalöndum árlega. EBOPS stendur fyrir "Extended balance of payment services classification" sem er flokkunarkerfi þjónustuviðskipta útgefið af Sameinuðu þjóðunum og samstarfsaðilum. Eftir breytingu á staðlinum eru gögnin nú birt ársfjórðungslega eftir 12 meginflokkum í stað þriggja eins og áður.

Flokkarnir eru eftirfarandi:
1. Framleiðslutengd þjónusta á vörum í eigu annarra
2. Viðgerðir og viðhald ót.a.
3. Samgöngur og flutningar
4. Ferðalög
5. Byggingastarfsemi og mannvirkjagerð
6. Trygginga- og lífeyrisþjónusta
7. Fjármálaþjónusta
8. Gjöld fyrir notkun hugverka ót.a.
9. Fjarskipta-, tölvu- og upplýsingaþjónusta
10. Önnur viðskiptaþjónusta
11. Menningar- og afþreyingarþjónusta
12. Opinber þjónusta ót.a.

Birtar eru upplýsingar um verðmæti útfluttrar og innfluttrar þjónustu og er verðmæti reiknað í íslenskar krónur miðað við miðgengi viðkomandi gjaldeyris á þeim tíma þegar viðskipti með þjónustu urðu til, þ.e. þegar þjónustan var veitt eða keypt. Þegar ekki eru upplýsingar um slíkt er miðgengi þess tímabils þegar greitt var fyrir þjónustuna notað sem nálgun. Upplýsingar um viðskiptalönd eru birtar árlega.
Gögn eru ekki árstíðaleiðrétt.

1.2 Tölfræðileg hugtök

Upplýsingar um hugtök í þjónustuviðskiptum við útlönd er að finna í staðli um þjónustuviðskipti Manual on Statistics of International Trade in Services 2010" (MSITS 2010) útgefnum af Sameinuðu þjóðunum.

Þjónustujöfnuður: Útflutningur á þjónustu að frádregnum innflutningi á þjónustu gefur þjónustujöfnuð. Ef útflutningurinn er hærri en innflutningurinn er afgangur á þjónustuviðskiptum við útlönd. Ef innflutningur er hærri en útflutningur er halli á þjónustuviðskiptum við útlönd.

Viðskiptajöfnuður, útgefinn af Seðlabanka Íslands, er samtala vöruskiptajafnaðar, þjónustujafnaðar, jafnaðar þáttatekna og rekstrarframlaga. Þáttatekjur og rekstarframlag er reiknað af Seðlabanka Íslands.

2. Tími


2.1 Viðmiðunartími talnaefnis

Unnið er með árs- og ársfjórðungstölur í hvert sinn og gögnin tilheyra þeim ársfjórðungi eða ári þegar viðkomandi viðskipti með þjónustu urðu til, þ.e. þegar þjónustan er veitt eða keypt. Þegar ekki eru til upplýsingar um hvenær þjónustan var veitt er tímabil greiðslu notað.
Viðmiðunartími talnaefnis þjónustuviðskipta eru ársfjórðungstölur

2.2 Vinnslutími

Leitað er eftir upplýsingum frá fyrirtækjum u.þ.b. þremur vikum eftir lok viðmiðunarársfjórðungs og eru gögn gefin út innan tveggja mánaða frá lokum viðmiðunarársfjórðungs. Leitað er eftir upplýsingum um árstölur frá litlum og meðalstórum fyrirtækjum, sveitafélögum og opinberum stofnunum í lok febrúar ár hvert. Gagnasöfnun tekur um 2-3 mánuði. Árstölur eru gefnar út í lok áttunda mánaðar eftir lok viðmiðunarárs.

2.3 Stundvísi birtingar

Útgáfa talna um utanríkisverslun þjónustu fylgir birtingaráætlun fyrir ár í senn sem er birt í nóvember árið á undan viðmiðunarári og er á vef Hagstofunnar. Þessari áætlun er fylgt, nema í undantekningartilvikum. Birtingartími er kl. 9 að morgni.

2.4 Tíðni birtinga

Í hvert sinn eru birtar ársfjórðungstölur og árstölur eru gefnar út eftir lok viðmiðunarárs. Tölur eru því birtar 5 sinnum á ári.

3. Áreiðanleiki og öryggismörk


3.1 Nákvæmni gagna og áreiðanleiki

Gögn fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki fyrir ársfjórðunga eru metin út frá gögnum árið á undan. Hagstofa leitar stoða í öðrum gögnum, svo sem virðisaukaskattskrá, til að styrkja áætlun um þjónustuviðskipti lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Sú aðferð sem Hagstofan hefur stuðst við til að áætla ársfjórðunga er mjög nærri lagi. Styrkir þetta mjög mat á gæðum þeirrar aðferðafræði sem notuð er til að meta gögn lítilla og meðalstórra fyrirtækja.

Þegar fyrirtæki svarar ekki, villur eru í gögnunum eða hugsanleg vanþekja er til staðar hefur það áhrif á áreiðanleika gagna. Þessu er mætta með ítrekun til fyrirtækja um gagnaskil, yfirferð á gögnum og samanburði á úrtaksgrunni við önnur gögn.

Svörun stórra fyrirtækja sem vega mest í þjónustuviðskiptum við útlönd er að jafnaði um og yfir 90%. Slík svörun eykur mjög áreiðanleika gagnanna. Svörun lítilla og meðalstórra fyrirtækja er rúmlega 70%.

3.2 Skekkjuvaldar í gögnum

Helstu skekkjuvaldar í gögnum eru:
-rangur þjónustuflokkur er valinn fyrir viðkomandi þjónustu
-verðmæti er rangt
-viðskiptaland er rangt
-fyrirtæki svarar ekki
-úrtaksgrunnur byggir á gögnum fyrra árs sem getur valdið skekkju í gögnunum
-ef fyrirtæki er ekki í úrtaksgrunni sem á að vera þar, veldur það vanþekju

3.3 Tölur um öryggismörk/skekkjumælingar

Engar tölur um skekkju eða öryggismörk hafa verið reiknaðar út.

4. Samanburður


4.1 Samanburðarhæfi milli tímabila

Gagnasöfnun um þjónustuviðskipti var flutt frá Seðlabanka til Hagstofu á árinu 2009. Þar sem ólík aðferðafræði liggur að baki útreikningum Hagstofu og Seðlabanka eru tölur um þjónustu útgefnar frá 2009 ekki samanburðarhæfar við útgefnar tölur Seðlabanka frá 2008 og fyrr. Eftir staðlabreytingu eru tölur um þjónustuviðskipti ekki samanburðarhæfar milli áranna 2009-2012 og 2013-2014.

4.2 Samanburður við aðrar hagtölur

Hægt er að gera spegilrannsóknir á þjónustuviðskiptum, þ.e. þá er borið saman hvað Ísland flytur út af þjónustu til ákveðins lands og hvað það land skráir hjá sér sem innflutning á þjónustu frá Íslandi og öfugt. Hagstofan hefur ekki verið farið í slíkar rannsóknir en slíkt er áætlað.

4.3 Samband milli bráðabirgðatalna og lokatalna

Ársfjórðungslegar útgefnar tölur um þjónustuviðskipti eru álitnar bráðabirgðatölur þar til endanlegar árstölur eru gefnar út. Árstölur eru yfirfarnar eftir árslok auk þess sem áður útgefnir ársfjórðungar fyrir viðkomandi ár eru leiðréttir í vinnslu eins og þurfa þykir og því geta tölur útgefnar eftir árslok og eftir því sem líður á viðmiðunarárið verið frábrugðnar þeim tölum sem gefnar voru út fyrr á árinu fyrir einstaka ársfjórðunga.

5. Aðgangur að upplýsingum


5.1 Miðlunarleiðir

Fréttir og veftöflur eru birtar og gefnar út ársfjórðungslega og árlega í ágúst á íslensku og á ensku. Fréttatilkynningar eru sendar út til áskrifenda og fjölmiðla.

Í Landshögum hvers árs er að finna kafla um utanríkisverslun sem inniheldur tölur um þjónustuviðskipti við útlönd.

5.2 Grunngögn; varðveisla og notkunarmöguleikar

Fjölmargar skrár innihalda gögn um þjónustuviðskipti, þ.e. ársfjórðungsgögn og fylgiskrár þeirra. Gögn um þjónustuviðskipti eru geymd í gagnabanka Hagstofunnar. Ekki er veittur aðgangur að gögnunum sjálfum en unnt er að fá upplýsingar veittar.

5.3 Skýrslur

Leiðbeiningar Sameinuðu þjóðanna um skilgreiningu og meðferð talnaefnis um þjónustuviðskipti er hægt að finna í Manual on Statistics of International Trade in Services 2010 (MSITS 2010), UN.

Aðeins er hægt að fá leiðbeiningarnar á rafrænu formi á heimasíðu Sameinuðu þjóðanna http://unstats.un.org/unsd/tradeserv/default.htm eins og er.

5.4 Aðrar upplýsingar

Utanríkisverslunardeild og upplýsingasvið veita allar upplýsingar um utanríkisverslun. Póstföng og símanúmer má sjá á vef Hagstofunnar.

© Hagstofa �slands, �ann 8-12-2016