Fjölmiðlun og menning


0. Skráningaratriði fyrir viðfangsefni


0.1 Heiti

Fjölmiðlun og menning

0.2 Efnisflokkur

Menning, fjölmiðlar og tómstundir

0.3 Umsjón; stofnun, deild, sérfræðingur o.s.frv.

Hagstofa Íslands
Mennta- og menningarmáladeild
Ragnar Karlsson,
Borgartúni 21 A,
150 Reykjavík
ragnar.karlsson@hagstofa.is
Sími: 528 1051
Bréfasími: 528 1199

0.4 Tilgangur og aðdragandi

Tilgangurinn er að safna tölulegum upplýsingum um fjölmiðla og fjölmiðlun og menningarstarfsemi, halda þeim til haga og koma á framfæri innanlands og erlendis. Upphaf skipulegrar söfnunar á vegum Hagstofunnar er að rekja allt aftur til ársins 1964 er Ísland gerðist aðili að Menningar- og fræðslustofnun Sameinuðu þjóðanna, UNESCO. Er fram í sótti dróst söfnunin saman og var næsta takmörkuð frá 1981 og fram til 1996/1997 er yfirgripsmikil gagnasöfnun var hafin á ný.

0.5 Notendur og notkunarsvið

Stjórnvöld, alþjóðastofnanir, lögaðilar og einstaklingar. Gögnin nýtast jafnt þeim sem vinna að stefnumótun í fjölmiðla- og menningarmálum, fyrirtækjum og samtökum, rannsakendum og námsfólki.

0.6 Heimildir

Heimildir koma ýmist frá sérhæfðum stofnunum sem hafa með innsöfnun gagna um viðkomandi svið að gera og sem miðla þeim áfram til Hagstofunnar eða beint frá lögaðilum, fyrirtækjum, samtökum og stofnunum sem Hagstofan safnar árvisst upplýsingum frá.

0.7 Lagalegur grundvöllur fyrir hagskýrslugerð

Lög um Hagstofu Íslands og opinbera hagskýrslugerð (Lög 2007 nr. 163) og samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið (Lög um Evrópska efnahagssvæðið, 2/1993). Alþjóðlegar samþykktir og ýmsir samningar sem Ísland á aðild að og þátttaka í alþjóðastofnunum, s.s. Evrópuráðinu, Norðurlandaráði og UNESCO, gera ráð fyrir samfelldri innsöfnun og skilum á gögnum um fjölmiðlun og menningarstarfsemi. Annars er þátttaka háð samkomulagi við viðkomandi lögaðila.

0.8 Svarbyrði við innsöfnun

Árvisst er leitað eftir upplýsingum hjá stofnunum, samtökum og lögaðilum á sviði fjölmiðlunar og menningarstarfsemi.

0.9 Ákvæði vegna EES og ESB

Lög um Evrópska efnahagssvæðið 2/1993 gera ráð fyrir að samningsaðilar tryggi úrvinnslu og dreifingu samfelldra og sambærilegra hagskýrslna sem lýsi og geri kleift að fylgjast með öllum þeim þáttum sem máli skipta á sviði efnahags-, félags- og umhverfismála á Evrópska efnahagssvæðinu" (§ 76:1).

1. Efni


1.1 Efnislýsing

Efnisflokkum má í grófum dráttum skipta upp í eftirfarandi:
Auglýsingar
Auglýsingatekjur (e. survey data) og auglýsingaútgjöld (e. rate card data) eftir tegund fjölmiðla og auglýsingaútgjöld og kostun eftir flokkum auglýsinga og fjölmiðla.
Bækur og bókasöfn
Bókaútgáfa
Útgefnar bækur og bæklingar og hljóðbækur eftir bókmenntaformi og efnisflokkun samkvæmt Dewey Decimal Classification, útgáfa frumsamdra rita á íslensku og þýddra rita eftir tungumáli. Tölur um fjölda bókaverslana, innflutning erlendra bóka eftir upprunalandi og bókakaup einstaklinga samkvæmt könnunum.
Almenningsbókasöfn
Safnkostur, útlan, ráðstöfunarfé og skráðir lánþegar eftir bókasafnsumdæmum.
Háskóla-, rannsóknar- og stofnanabókasöfn
Safnkostur, útlán, lánþegar og mannafli Landsbókasafns Íslands Háskólabókasafns, háskóla-, rannsóknar- og stofnanabókasafna.
Blöð og tímarit
Blöð
Yfirlit yfir blöð eftir útgáfutíðni, blaðsíðufjölda, efni, útbreiðslu, tekjum og lestri blaða samkvæmt könnunum. Upplýsingar eru einnig brotnar niður eftir seldum blöðum og fríblöðum.
Tímarit
Fjöldi tímarita eftir útgáfutíðni og efnisflokkum, sk. Dewey Decimal
Classification og upplýsingar um lestur tímarita samkvæmt könnunum.
Hljóðrit
Fjöldi útgefinna hljóðrita eftir útgáfuformi (á disk, hljómplötu, snældu) og útgefendum og magn og verðmæti seldra innlendra og erlendra hljóðrita.
Kvikmyndir
Upplýsingar um kvikmyndahús og sýningarhald þeirra eftir landshlutum, tölur um sýndar og frumsýndar kvikmyndir, aðsókn og tekjur eftir uppruna mynda. Innlendar kvikmyndir í fullri lengd, eftir viðfangi, leikstjórum og samframleiðendalöndum.
Myndbönd og mynddiskar
Útgáfa, dreifing og sala á leigu og sölumyndböndum (VHS) og diskum (DVD), áætluð útleiga leigumyndbanda, útbreiðsla myndbandstækja og mynddiskaspilara á heimilum.
Útvarp
Starfsmannahald og tekjur Ríkisútvarpsins (Hljóðvarps og Sjónvarps) og einkarekinna útvarpsstöðva eftir tekjuflokkum, fjöldi hljóðvarps- og sjónvarpsstöðva sem hófu og hættu útsendingum á árinu.
Hljóðvarp
Fjöldi útvarpsstöðva eftir landshlutum, eignarformi og efnissniði. Upplýsingar um útsendingartíma, skiptingu útsends efnis, tekjur Ríkisútvarps Hljóðvarps og einkarekinna hljóðvarpsstöðva. Hlustun á hljóðvarp samkvæmt könnunum.
Sjónvarp
Fjöldi sjónvarpsstöðva eftir landshlutum, eignarformi og efnissniði. Upplýsingar um útsendingartíma, skiptingu útsends efnis, tekjur Ríkisútvarps Sjónvarps og einkarekinna sjónvarpsstöðva. Áhorf sjónvarps samkvæmt könnunum.
Listir
Leiklist
Atvinnuleikhús, atvinnuleikhópar og áhugaleikfélög. Upplýsingar um sætafjölda og svið leikhúsa, uppfærslur, sýningar og áhorfendafjölda eftir tegund leikverka. Tekjur og mannafli atvinnuleikhúsa.
Tónlist
Tónleikar eftir tegund og landshlutum, tónleikar og gestir á tónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands, og tónleikahald í Salnum og Ými.
Myndlist
Fjöldi myndlistarsýninga eftir tegund og landshlutum.
Söfn
Upplýsingar um fjölda safna, safnvísa, setra og fastar sýningar eftir
landshlutum, viðfangsefni, sýningardögum, mannafla og aðsókn.
Menningarsjóðir
Upplýsingar um styrkveitingar menningarsjóða og styrki til innlendrar kvikmyndagerðar eftir tegund mynda og viðfangi.
Félög
Fjöldi fullgildra félagsmanna félaga fjölmiðlunga og listamanna, skipt eftir kyni.
Siðanefnd blaðamanna
Fjöldi mála og úrskurða Siðanefndar eftir tegund fjölmiðla og tegund brots.

1.2 Tölfræðileg hugtök

Þýði og þekja: Í öllum tilfella er reynt eftir megni að talnasöfnun nái til allra þeirra aðila sem eru með reglubundna starfsemi í viðkomandi málaflokki og sem fellur undir skilgreiningar sem lagðar eru til grundvallar talnasöfnuninni. Skilgreiningar eru miðaðar við alþjóðlega staðla þegar þeirra nýtur við (s.s. ISO) og alþjóðastofnanir (s.s. EUROSTAT, UNESCO), lög um leyfisskylda starfsemi (s.s. úthlutuð útvarpsleyfi), aðild að hagsmunasamtökum (s.s. atvinnuleikhópar, útgefendur og dreifendur myndbanda og mynddiska og hljóðrita).
Upplýsinga um tilvist og starfsemi viðkomandi er aflað með margvíslegum hætti, úr skrám stofnana, samtaka og hagsmunaaðila á viðkomandi sviði og stjórnsýsluskrám.
Einingar: Grunntölur ásamt samtölum þeirra. Tölur um hlutfallslega skiptingu og magntölur miðað við fjölda íbúa eru settar fram við birtingu gagna þar sem þykir koma notendum að gagni. Afleiddar stærðir, s.s. uppfærsla talna á föstu verðlagi eru tíðast ekki birtar. Um skilgreiningar á sértækum hugtökum sem fyrir koma í birtum tölum skal vísað til ábyrgðarmanns verksviðs.

2. Tími


2.1 Viðmiðunartími talnaefnis

Almanaksárið, að frátöldum sýningum og gestafjölda leikhúsa og áhugaleikfélaga sem miðast við leikárið.

2.2 Vinnslutími

Innsöfnun og úrvinnsla gagna fer fram á ýmsum tímum árs. Leitast er við að tölur næstliðins árs liggi fyrir eigi síðar en við árslok árið eftir.

2.3 Stundvísi birtingar

Tölur eru birtar eins fljótt og auðið er á vef Hagstofunnar, í Hagtíðindum, Landshögum og í tilfallandi skýrslum.

2.4 Tíðni birtinga

Megnið af efninu er birt árlega á vef Hagstofunnar. Þá birtist árlega efni frá Hagstofunni í skýrslum fjölmargra alþjóðasamtaka og stofnana (sjá §5.1 a.n.).

3. Áreiðanleiki og öryggismörk


3.1 Nákvæmni gagna og áreiðanleiki

Nákvæmni og áreiðanleiki gagna ræðst að nokkru af því hversu samviskusamlega skýrslur til Hagstofunnar eru fylltar út. Gögn eru yfirfarin og borin saman við önnur tiltæk gögn þegar þau berast. Verði vart við skekkjur eru upplýsingagjafar beðnir um að yfirfrara innsend gögn. Í þeim tilfellum þar sem gögn ekki berast eru tölur áætlaðar út frá öðrum fyrirliggjandi gögnum, s.s. ársreikningum, virðisaukaskattsskýrslum, fjölmiðlakönnunum og innsendum gögnum frá fyrra ári. Að öllu jöfnu er svarhlutfall vel yfir níutíu af hundraði.

3.2 Skekkjuvaldar í gögnum

Skekkjur í gögnum sem Hagstofan safnar sjálf inn frá fyrstu hendi geta verið af tvennum toga: a) kerfisbundnar skekkjur; b) tilviljanaskekkjur.

3.3 Tölur um öryggismörk/skekkjumælingar

Ekki er unnt að reikna skekkjumörk þar sem tölur eru ekki fengnar með úrtakskönnunum.

4. Samanburður


4.1 Samanburðarhæfi milli tímabila

Tölur eru að öllu jöfnu samanburðarhæfar milli ára, nema í þeim tilfellum þar sem skilgreiningum og aðferðum við gagnasöfnun hefur verið breytt. Þegar slíkt hefur verið gert er það tekið sérstaklega fram við birtingu talna. Yngri tölur í gagnasafni eru vel samanburðarhæfar við hliðstæðar upplýsingar fyrir önnur lönd sem birtast á vegum ýmissa alþjóðastofnana og samtaka, s.s. EUROSTAT, European Audiovisual Observatory, MEDIA Salles, NORDICOM og UNESCO.

4.2 Samanburður við aðrar hagtölur


4.3 Samband milli bráðabirgðatalna og lokatalna

Bráðabirgðatölur eru að jafnaði ekki birtar.

5. Aðgangur að upplýsingum


5.1 Miðlunarleiðir

Hagtölur, efnisflokkaðar veftöflur
Hagtíðindi, ritröð
Landshagir, árbók Hagstofunnar
Tölur er einnig að finna í útgáfunni Fjölmiðlun og menning.
Árlega lætur Hagstofan einnig fjölda aðila í té upplýsingar, innlendum sem erlendum. Á meðal þeirra aðila sem Hagstofan lætur árlega í té upplýsingar eru Dodona Research (um kvikmyndir), European Audiovisual Observatory (um kvikmyndir og sjónvarp), Free Daily Newspapers (um fríblöð), International Video Federation (um myndbönd og mynddiska), IP Grouppe (um sjónvarp), MEDIA Salles (um kvikmyndir), NORDICOM (um fjölmiðla og fjölmiðlun almennt), Screen Digest (um kvikmyndir og myndbönd og mynddiska), UNESCO (um blöð og tímarit, bækur, kvikmyndir og söfn og garða), World Association of Newspapers (um blöð) og til skamms tíma einnig til EUROSTAT (um hljóðrit, hljóðvarp og sjónvarp, kvikmyndir, myndbönd og mynddiska). Tölfræðisöfn þeirra aðila sem Hagstofan lætur efni í té berast á bókasafn stofnunarinnar og er notkun þeirra öllum heimil.

5.2 Grunngögn; varðveisla og notkunarmöguleikar

Grunngögn eru ýmist geymd í Excel eða á gagnagrunnsformi í Access.

5.3 Skýrslur

Fjölmiðlun og menning 2003 Media and Culture 2003.
Fjölmiðlun og menning 1999 Media and Culture 1999
Hagtíðindi


5.4 Aðrar upplýsingar

Frekari upplýsingar hjá starfsmanni.

© Hagstofa �slands, �ann 16-7-2008