Vísitala neysluverðs


0. Skráningaratriði fyrir viðfangsefni


0.1 Heiti

Vísitala neysluverðs

0.2 Efnisflokkur

Verðlag og neysla

0.3 Umsjón; stofnun, deild, sérfræðingur o.s.frv.

Heiðrún Erika Guðmundsdóttir
Vísitöludeild
Hagstofa Íslands
neysluverd@hagstofa.is
sími: 528 1200

0.4 Tilgangur og aðdragandi

Samkvæmt lögum um vísitölu neysluverðs nr. 12/1995, með breytingu í lögum nr. 27/2007 mælir hún breytingar á verðlagi einkaneyslu. Vísitalan, sem áður hét framfærsluvísitala, hefur verið reiknuð frá 1914 í einni eða annarri mynd. Grunnur vísitölunnar er reistur á neyslurannsóknum og hefur svo verið frá 1939. Grunnur vísitölunnar hefur verið endurskoðaður í mars á hverju ári frá árinu 1997. Frá mars 2002 eru notaðar niðurstöður úr árlegum útgjaldarannsóknum. Vísitalan er á grunni maí 1988=100 og eru niðurstöður keðjutengdar þegar skipt hefur verið um grunn vísitölunnar. Frá mars 1997=100 eru einnig birtar undirvísitölur og niðurstöður í samræmi við alþjóðlega flokkunarkerfið COICOP. Yfirlit um grunna og gerð eldri vísitalna er að finna í Hagskinnu, töflu 12.15, bls. 628. Áætlanir hafa einnig verið gerðar um verðlagsþróun frá 1849-1914 og er niðurstöðurnar að finna í Hagskinnu undir heitinu almenn verðlagsvísitala í töflu 12.25, bls. 637.

0.5 Notendur og notkunarsvið

Vísitala neysluverðs mælir fyrst og fremst verðbólgu og er einnig notuð til verðtryggingar skv. lögum um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, með breytingu í lögum nr. 51/2007, sem kveða á um gildistíma hennar til þeirra nota. Þá er vísitala neysluverðs og undirvísitölur hennar mikilvægar við peningastjórn Seðlabanka Íslands.
Helstu not hennar önnur eru:
  • Við efnahagsspár.
  • Við verðtryggingu húsaleigu.
  • Við mat á kaupmætti.
  • Til staðvirðingar á ýmsum stærðum svo sem launum, tekjum og útgjöldum.
  • Við samanburð á verðbólgu milli ríkja.
  • Við útreikning og framreikning á jafnvirðisgildum.
  • Við útreikning á verðbreytingarstuðli í reikningsskilum.

0.6 Heimildir

Grunnur neysluverðsvísitölunnar er að mestu reistur á niðurstöðum úr útgjaldarannsóknum sem Hagstofan framkvæmir. Rannsókn var gerð árið 1995 og var grunnur vísitölunnar frá 1997-2001 að mestu leyti byggður á niðurstöðum hennar. Frá árinu 2000 er útgjaldarannsóknin samfelld og frá mars 2002 eru niðurstöðurnar nýttar við árleg grunnskipti.
Upplýsingar um vöruverð, sem safnað er í hverjum mánuði, eru notaðar til að mæla verðlagsbreytingar. Í mánuði er safnað yfir 20.000 verðum á ríflega 4000 vörum og þjónustuliðum. Spyrlar Hagstofunnar safna upplýsingum um verð í dagvöru- og fataverslunum. Annarra upplýsinga er aflað í gegnum vefskil, með hringingum eða á vefsíðum fyrirtækja.

0.7 Lagalegur grundvöllur fyrir hagskýrslugerð

Vísitalan er reiknuð samkvæmt lögum um vísitölu neysluverðs nr. 12/1995 með breytingu í lögum 27/2007.

0.8 Svarbyrði við innsöfnun

Hagstofan aflar sjálf að verulegu leyti verðupplýsinga með heimsóknum í verslanir og má segja að svarbyrðin sé lítil sem engin þar. Þeir sem veita upplýsingar í gegnum vefskil hafa lítilsháttar fyrirhöfn af því að skila upplýsingunum. Leit verðupplýsinga á vefsíðum hefur sjaldnast áhrif á fyrirtækin sjálf. Í þeim tilfellum þar sem verði er safnað símleiðis þurfa viðmælendur aðeins að svara fáum spurningum. Svarbyrði er því ekki mikil. Einstaka aðilar veita annars konar upplýsingar, til dæmis um sundurliðaðar vogir á ýmis konar vörum og þjónustu og eru þær upplýsingar oftast nokkuð ítarlegar og geta fyrirtæki haft af því nokkra fyrirhöfn.

0.9 Ákvæði vegna EES og ESB

Vísitala neysluverðs er reiknuð samkvæmt íslenskum lögum (nr. 12/1995 og nr. 27/2007). Útreikningur vísitölunnar tekur hins vegar að verulegu leyti mið af aðferðum sem beitt er við útreikning á samræmdri vísitölu neysluverðs
sem reiknuð er fyrir EES ríki. Samræmda neysluverðsvísitalan er reiknuð í samræmi við ESB lög sem um hana gilda.

1. Efni


1.1 Efnislýsing

Vísitala neysluverðs er Lowe fastgrunnsvísitala, keðjutengd í mars ár hvert. Vísitalan hefur sterka drætti framfærsluvísitölu því í henni er leiðrétt fyrir staðkvæmni með því að nota margfeldismeðaltal í grunni. Keðjuvogir eru notaðar til að leiðrétta staðkvæmni milli verslana og gæðaleiðréttingum beitt til að leiðrétta staðkvæmni vegna innkaupa heimila. Þjónusta við búsetu í eigin húsnæði er reiknuð sem einfaldur notendakostnaður. Flokkun sem notuð er fylgir alþjóðlega flokkunarkerfinu COICOP (Classification Of Individual COnsumption expenditure by Purpose).

1.2 Tölfræðileg hugtök

Fræðilega eru tvær meginaðferðir notaðar við útreikning á vísitölum, fastgrunnsvísitölur og framfærsluvísitölur. Í fastgrunnsvísitölu er neyslusamsetningu haldið fastri og venjulega eru þær Lowe vísitölur. Sérstök tilvik af Lowe vísitölu eru Laspeyres þegar miðað er við eldri grunn eða Paasche vísitala þegar miðað er við nýjan grunn.
Afburðavísitölur eru samhverfar og fræðilega endurspegla þær sanna framfærsluvísitölu og taka mið af bæði gömlum og nýjum grunni.
Fimm útreikningsaðferðir eru notaðar í grunni vísitölu neysluverðs:
Einfalt margfeldismeðaltal verðs (Jevon) við útreikning á um 56% útgjalda í grunni.
Vegið margfeldismeðaltal verðs á dagvöru, nær yfir um 18% útgjaldanna.
Lowe eða einfalt meðaltal verðs (Duot) sem nær til um 21% af vísitölunni.
Afburðavísitala (Fisher) sem nær til um 1% útgjalda.
Vísitölur sem ná yfir um 4% vísitöluútgjaldanna.

2. Tími


2.1 Viðmiðunartími talnaefnis

Verðsöfnun fer fram í a.m.k vikutíma um miðjan hvern mánuð frá janúar 2008. Fram að því var verði safnað tvo fyrstu virku daga hvers mánaðar. Viðmiðunartíminn er bundinn í lög um neysluverðsvísitöluna.

2.2 Vinnslutími

Vinnslutími eru um það bil tvær vikur í hverjum mánuði og er miðað við að vísitalan sé birt eigi síðar en næst síðasta virka dag mánaðar.

2.3 Stundvísi birtingar

Vísitalan er ávallt birt samkvæmt útgáfuáætlun kl 9:00 að morgni. Útgáfuáætlunin fyrir ár hvert er birt á vef Hagstofunnar, í október.

2.4 Tíðni birtinga

Vísitalan er birt í hverjum mánuði

3. Áreiðanleiki og öryggismörk


3.1 Nákvæmni gagna og áreiðanleiki

Með árlegri endurskoðun á grunni vísitölunnar og notkun á árlegum niðurstöðum úr útgjaldarannsókn er áreiðanleiki vísitölu mikill.
Mjög umfangsmikil verðsöfnun í hverjum mánuði og mikil sundurliðun flokka sem mælingin nær yfir stuðlar ennfremur að nákvæmni.

3.2 Skekkjuvaldar í gögnum

Við útreikning vísitölu eru ýmsar skekkjur mögulegar:
Úrtaksskekkjur (þekjuskekkja, brottfallsskekkja): Ef vörusafn eða úrtak fyrirtækja endurspegla ekki þýðið rétt.
Mæliskekkjur: Geta komið fram við verðsöfnun til dæmis vegna ónákvæmra vörulýsinga, ónákvæmra merkinga í búðum og ófullnægjandi eða rangra svara viðmælenda.
Úrvinnsluskekkjur: Skráningarskekkjur og fl. koma fram í vinnslu gagna.
Aðferðaskekkjur: Mismunandi aðferðir við útreikning vísitalna valda mismunandi skekkjum. Afburðavísitölur eru samhverfar og taka þess vegna með magn tveggja tímabila. Vandinn er að upplýsingar um vogir á líðandi stund eru sjaldan tiltækar fyrr en eftir á og erfitt að reikna þær tímanlega. Þær eru frábrugðnar fastgrunnsvísitölum sem ganga annaðhvort út frá eldri vogum (Laspeyres) eða nýjum vogum (Paasche). Bjagi í fastgrunnsvísitölu er metinn út frá niðurstöðu á útreikningi fræðilega réttrar framfærsluvísitölu. Afburðavísitölur, á borð við Fisher, eru taldar endurspegla fræðilega réttar niðurstöður, en oft er ekki mögulegt að reikna niðurstöður þeirra fyrr en að löngum tíma liðnum.
Skekkjur vegna staðkvæmni: Ef innkaupavenjur heimila breytast til dæmis þannig að verslað er í meira mæli þar sem verð er lágt, en úrtaki verslana haldið óbreyttu, þannig að verðlækkun vegna þessa mælist ekki í vísitölu, verður skekkja vegna staðkvæmni í innkaupum heimila sem getur þurft að leiðrétta. Staðkvæmni milli verslana verður ef vara er ekki til í einni verslun og leita verður annað eftir að kaupa hana, en slíkt er leiðrétt í útreikningi neysluvísitölunnar. Ef vöruvogum er haldið óbreyttum þegar neysluvenjur breytast getur orðið skekkja vegna staðkvæmni vöru. Slík skekkja getur orðið innan vöruflokka og einnig milli vöruflokka og dæmi um það er ef fiskur hækkar mikið í verði en kjöt lækkar og neysla heimila færist að neyslu kjöts frá fiski (m.v. venjulega verðteygni). Þessi breyting mælist ekki beint (strax) í fastgrunnsvísitölu, Laspeyres-vísitala ofmælir hana en Paashe-vísitala vanmælir hana. Margfeldismeðaltal leiðréttir fyrir staðkvæmni vöru innan vöruflokka og við ör grunnskipti minnka staðkvæmniskekkjur vísitalna verulega.

3.3 Tölur um öryggismörk/skekkjumælingar

Hagstofa Íslands vann rannsókn á áhrifum mismunandi útgjaldavoga á efra lagi í vísitölu neysluverðs á árunum 2001-2010 sem birt var í Hagtíðindum, Vísitala neysluverðs 2010-2011, 4. nóvember 2011. Rannsóknin sýndi að lítill munur var á birtri niðurstöðu vísitölu neysluverðs og niðurstöðu fenginni með samtímavogum.

Við verðmælingar og úrvinnslu eru aðferðir miðaðar við að lágmarka áhrif af skekkjum eins og kostur er.

4. Samanburður


4.1 Samanburðarhæfi milli tímabila

Mjög gott innan grunntíma. Vísitölustig samanburðarhæf á milli grunna með keðjutengingu. Aðferðafræðibreytingar og stórfelldar flokkunarbreytingar geta minnkað samanburðarhæfi sé til lengri tíma litið. Mismunandi aðferðir við útreikning á húsnæðislið vísitölunnar eru dæmi um slíkt.

4.2 Samanburður við aðrar hagtölur

Samanburður við aðrar heimildir er gerður eftir því sem efni standa til. Aðallega hefur verið litið til verðkannana sem gerðar eru reglulega og þær niðurstöður bornar saman við niðurstöður sem fást við útreikning vísitölunnar. Erfitt er að gera samanburð við aðrar heimildir svo sem einingarverð inn- og útflutnings vegna mismunandi flokkunarkerfa sem notuð eru og þeirrar staðreyndar að gengisbreytingar skila sér með mismunandi hætti inn í hagkerfið. Aðrar heimildir, svo sem framleiðsluverðsvísitala, er enn ekki nothæf til samanburðar vegna þess að sundurliðun er ekki ítarleg. Samvinna milli landa um útreikning samræmdrar vísitölu neysluverðs gefur möguleika á samanburði á verðbólgu við önnur lönd.

4.3 Samband milli bráðabirgðatalna og lokatalna

Ekki eru birtar bráðabirgðatölur

5. Aðgangur að upplýsingum


5.1 Miðlunarleiðir

  • Vefur Hagstofu íslands.
  • Fréttatilkynningar sendar rafrænt.
  • Símsvörun.
  • Hagtíðindi.
  • Landshagir, árbók Hagstofu Íslands.

5.2 Grunngögn; varðveisla og notkunarmöguleikar

Grunngögn eru varðveitt á Hagstofu og eru ekki aðgengileg öðrum en starfsmönnum vísitöludeildar.

5.3 Skýrslur

Greinar og fyrirlestra starfsmanna er að finna á vef Hagstofunnar undir útgáfun.

Sérstakt hefti Hagtíðinda hafa verið gefin út um vísitölu neysluverðs þar sem gerð hefur verið grein fyrir grunnskiptum auk þess sem fjallað hefur verið um þróun vísitölunnar og einstakra hluta hennar.

Upplýsingar eru einnig í Landshögum, árbók.

5.4 Aðrar upplýsingar

Nánari upplýsingar um vísitölu neysluverðs veitir
Heiðrún Erika Guðmundsdóttir s. 528 1200

© Hagstofa �slands, �ann 20-12-2013