Rannsókn á útgjöldum heimila


0. Skráningaratriði fyrir viðfangsefni


0.1 Heiti

Rannsókn á útgjöldum heimila

0.2 Efnisflokkur

Neysla

0.3 Umsjón; stofnun, deild, sérfræðingur o.s.frv.

Finnbogi Gunnarsson
Vísitöludeild
Hagstofa Íslands
finnbogi.gunnarsson@hagstofa.is
sími 528 1209

0.4 Tilgangur og aðdragandi

Samfelld útgjaldarannsókn hófst í ársbyrjun árið 2000 og hefur verið haldið áfram óslitið, Kannanir voru gerðar áður árin 1939/1940, 1953/1954, 1964/1965, 1978/79, 1985/86, 1990 og 1995.
Sambærilegar rannsóknir eru framkvæmdar í öðrum löndum.
Megintilgangur útgjaldarannsókna er að afla upplýsinga um neysluútgjöld heimila fyrir útgjaldagrunn vísitölu neysluverðs. Þær veita þýðingarmikla vitneskju um breytingar á neyslumynstri og upplýsingar um heimilisútgjöld og samsetningu þeirra eftir ýmsum félagslegum og efnahagslegum þáttum.

0.5 Notendur og notkunarsvið

Auk þess að vera grunnur að gerð vísitölu neysluverðs, þá er notkunargildi hennar víðtækt:
  • við mat á einkaneyslu í þjóðhagsreikningum
  • við rannsóknir, á sviði félags- og efnahagsmála
  • við markaðsrannsóknir
  • við alþjóðlegan samanburð á neyslu.

0.6 Heimildir

Útgjaldarannsóknin er úrtakskönnun.
Skipta má heimildum í þrennt: Viðtöl við þátttakendur, búreikningshald, og upplýsingar úr þjóðskrá, skattskrá og fasteignaskrá.

0.7 Lagalegur grundvöllur fyrir hagskýrslugerð

Í gildandi lögum um vísitölu neysluverðs nr. 12/1995 segir að Hagstofan skuli eigi sjaldnar en á fimm ára fresti gera athugun á heimilisútgjöldum, útgjaldarannsókn.

0.8 Svarbyrði við innsöfnun

Þeir sem lenda í úrtaki rannsóknarinnar geta neitað að taka þátt í henni.
Þátttakendur halda nákvæma búreikninga í 2 vikur. Þeim gefst kostur á að skila inn kvittunum úr verslunum sem auðveldar þátttöku.
Auk þess eru tekin viðtöl við þátttakendur í upphafi könnunar til að afla upplýsinga um heimilið og í lok búreikningstímans er spurt um sjaldgæf og veigameiri útgjöld heimilisins síðastliðna þrjá mánuði. Svarbyrði þátttakenda er því nokkur.
Til viðbótar þessum gögnum eru fengnar upplýsingar úr þjóðskrá, skattskrá og fasteignaskrá auk upplýsinga frá símafyrirtækjum

0.9 Ákvæði vegna EES og ESB

Engin formleg samþykkt eða reglugerð. Tilskipun EES um gerð samræmdra neysluverðsvísitalna gerir ráð fyrir því að útgjaldarannsóknir séu gerðar reglulega.

1. Efni


1.1 Efnislýsing

Rannsóknin gefur nákvæmar og sundurgreindar upplýsingar um neyslu heimila í landinu. Eftirtalin atriði má sjá í útgjaldarannsókninni:
- Meðalneyslu heimila á ári og skiptingu neyslunnar eftir útgjaldaflokkum.
- Tækjaeign (bíll, heimilistæki, sími o.s.frv.) og áskriftir.
- Húsnæði. Eigið húsnæði, leiguhúsnæði, stærð þess og gerð.
- Stærð og gerð heimila eftir búsetu
Meðalneyslu á ári eftir útgjaldaflokkum og meðalráðstöfunartekjum heimila er skipt:
- eftir búsetu, (höfuðborgarsvæði, annað þéttbýli, dreifbýli)
- eftir heimilisgerðum (einhleypir, hjón/sambýlisfólk með og án barna, einstæðir foreldrar, aðrir)
- eftir tekjufjórðungum. Þátttakendum er raðað eftir hæð ráðstöfunartekna og er úrtakinu síðan skipt í fjóra jafnstóra hópa - eftir útgjaldafjórðungum. Þátttakendum er raðað eftir stærð heildarútgjalda og er úrtakinu síðan skipt í fjóra jafnstóra hópa.
Úrtak. Úrtak á hverju ári er 1.200 heimili, valin af handahófi úr fjölskyldunúmerum 18-74 ára einstaklinga í þjóðská. Þátttakendur eru allir sem búa á heimili þess sem dreginn er út.
Gagnasöfnun. Í viðtölum við þátttakendur í upphafi könnunar er m.a. aflað upplýsinga um fjölda heimilismanna, innbyrðis tengsl þeirra, kennitölur, menntun og atvinnu. Þátttakendur halda búreikninga í tvær vikur og skrá niður öll útgjöld heimilisins.
Heimilunum eru send sérstök búreikningshefti til að færa útgjöldin í. Nota má kassakvittanir verslana ef þær eru nægilega sundurliðaðar í stað þess að skrá hverja vörutegund í búreikningsheftin. Að loknu búreikningshaldi eru heimili á höfuðborgarsvæðinu, í Reykjanesbæ og á Akureyri heimsótt en heimili utan þessara svæða fá spurningalista senda í pósti. Í þeim viðtölum/spurningalistum er m.a. spurt um sjaldgjæf og/eða veigameiri útgjöld yfir þriggja mánaða tímabil, svo sem húsnæðiskostnað, rekstur á bíl, kostnað vegna utanlandsferða og kaup á húsgögnum og heimilistækjum. Einnig er spurt um stærð og gerð húsnæðis, ásamt heimilis- og raftækjaeign og afborganir af lánum. Til viðbótar eru notaðar upplýsingar úr þjóðskrá, skattskrá og fasteignaskrá.

1.2 Tölfræðileg hugtök

Rannsóknareiningin er heimili og úrtak er tekið tilviljanakennt úr Þjóðskrá. Valið er úr fjölskyldunúmerum fólks á aldrinum 18-74 ára, án tillits til búsetu eða hjúskaparstöðu. Þátttakendur verða allir sem búa á heimili þess sem dreginn er út.
Neysla: Kaup heimila á vöru og þjónustu. Beinir skattar og lífeyrissjóðsiðgjöld, vextir og afborganir, sektir, félagsgjöld og styrkir teljast ekki til neyslu.
Heimili: Allir einstaklingar sem bjuggu undir sama þaki og höfðu sameiginlegt heimilishald meðan á útgjaldarannsókn stóð.
Neyslueining: Vog sem er útbúin til þess að hægt sé að taka tillit til mismunandi stærðar heimila og þess að útgjöld aukast ekki alltaf í réttu hlutfalli við fjölda heimilismanna. Hver einstaklingur á heimili fær tiltekið vægi eftir aldri sínum og stærð heimilis. Tvenns konar vogir eru notaðar, aðrar frá OECD þar sem fyrsti fullorðinn fær vægið 1, aðrir vægið 0,7 og börn fá vægið 0,5. Hinar vogirnar notar Eurostat en samkvæmt þeim fær fyrsti fullorðinn vægið 1, aðrir vægið 0,5 og börn 0,3. Þessi kerfi gera bæði ráð fyrir að við 13 ára aldur verði útgjöld unglinga þau sömu og fullorðinna.
Tekjur: Ráðstöfunartekjur heimilis. Lagðar eru saman launatekjur, lífeyris- og bóta-greiðslur og hlunnindi allra heimilismanna, ennfremur fjármagnstekjur og aðrar tekjur ef einhverjar eru. Frá tekjum dragast álagðir skattar. Þegar talað er um tekjur á mann í niðurstöðum þessarar rannsóknar er átt við ráðstöfunartekjur deilt með fjölda heimilismanna.

2. Tími


2.1 Viðmiðunartími talnaefnis

Gögnum er safnað óslitið og eru niðurstöður byggðar á uppsöfnuðum gögnum fyrir þrjú ár í senn. Úrtakið, sem er 1200 heimili á ári, er of lítið til þess að unnt sé að útbúa nógu traustar og ítarlegar niðurstöður á hverju ári.
Því eru gefnar út niðurstöður byggðar á gögnum þriggja ára, á verðlagi síðasta ársins. Þær fyrstu byggðust á gögnum fyrir árin 2000, 2001 og 2002 og síðan hefur verið stuðst við þriggja ára hlaupandi meðaltal.

2.2 Vinnslutími

Samfelld útgjaldarannsókn hófst í ársbyrjun 2000 og í mars árið 2002 voru fyrstu niðurstöðurnar notaðar við gerð á nýjum vísitölugrunni. Heildarniðurstöður fyrir fyrstu þrjú árin voru birtar í júní 2004. Unnið er að styttingu vinnslutíma og er áformað að niðurstöður þriggja síðustu ára verði birtar fyrir lok þess næsta.

2.3 Stundvísi birtingar

Niðurstöður eru birtar samkvæmt útgáfuáætlun fyrir Hagtíðindi, kl. 9 að morgni.

2.4 Tíðni birtinga

Niðurstöður eru birtar árlega, í desember.

3. Áreiðanleiki og öryggismörk


3.1 Nákvæmni gagna og áreiðanleiki

Niðurstöður úr úrtakskönnunum eru alltaf háðar einhverri óvissu, vegna þess að einungis hluti af þýðinu er skoðaður. Því meiri sundurliðunar sem krafist er, þeim mun stærra úrtak þarf til að niðurstöðurnar verði marktækar. Niðurstöður um útgjöld eru einnig misjafnlega áreiðanlegar eftir því um hvaða tegund vöru og þjónustu er að ræða. Gera má ráð fyrir að upplýsingar um útgjöld sem eru tíð séu áreiðanlegri en um útgjöld sem eru sjaldgæf. Í allmörgum útgjaldaflokkum eru flest heimili með engin útgjöld, en fáein heimili með mikil útgjöld. Þetta á t.d. við um bílakaup og kaup á húsgögnum og heimilistækjum.

3.2 Skekkjuvaldar í gögnum

Skekkjuvaldar í gögnum geta verið af ýmsum toga, nefna má:
  • Úrtaksskekkjur (þekjuskekkju, brottfallsskekkju).
  • Mæliskekkjur (vegna spyrla, ónákvæmra eyðublaða, ónákvæmra svara, eða mismunandi aðferða við gagnaöflun).
  • Úrvinnsluskekkjur (skráningarskekkjur, skekkjur við flokkun útgjalda, og fl.).
  • Villur í gögnum eða upplýsingar vantar og þarf þá að áætla gildi.
  • Skekkjur í opinberum skrám.
Þekja. Þýði neyslurannsóknar eru einkaheimili á Íslandi þar sem einhver á heimilinu er yngri en 75 ára. Í þjóðskrá er ekki unnt að aðgreina heimili en þar eru skilgreindar kjarnafjölskyldur og hefur hver kjarnafjölskylda eitt fjölskyldunúmer og sama á við um einhleypa. Úrtökurammi rannsóknarinnar eru fjölskyldunúmer einstaklinga í þjóðskrá 18-74 ára. Úrtakslíkur eru ekki þær sömu fyrir öll heimili. Heimili með marga einstaklinga 18-74 ára hafa meiri líkur á að lenda í úrtakinu. Við úrvinnslu gagna er tekið tillit til þessa.
Brottfall. Mikið brottfall getur skekkt niðurstöður rannsóknarinnar ef brottfallshópurinn er frábrugðinn þeim sem tekur þátt í könnuninni. Reynsla af fyrri könnunum hefur leitt í ljós að mikill munur er á svörun eftir því um hvers konar heimili er að ræða. Þeir sem síst vilja taka þátt í rannsókninni eru einhleypir en best hefur gengið að fá hjón/sambýlisfólk með börn til þátttöku. Við úrvinnslu könnunarinnar eru niðurstöður leiðréttar með tilliti til brottfalls.
Úrvinnsla. Helstu vandamál við úrvinnslu eru að leiðrétta þarf niðurstöður fyrir mismunandi úrtakslíkum og brottfalli. Einnig vantar stundum svör við einstökum spurningum. Þá þarf að áætla gildi í eyðurnar. Miðgildi útgjaldaflokka þeirra sem svara eru oftast notuð. Útgjöld eru líka áætluð út frá öðrum svörum heimilisins ef það er hægt.

3.3 Tölur um öryggismörk/skekkjumælingar

Því meira sem svör þátttakenda eru sundurliðuð, t.d. eftir búsetu, heimilisgerð o.s.frv. því stærra úrtak þarf til að niðurstöður geti talist marktækar. Í niðurstöðum útgjaldarannsóknarinnar eru fjárhæðir og hlutföll merkt með stjörnu (*) ef hlutfall staðalskekkju af meðaltali er yfir 20%.

4. Samanburður


4.1 Samanburðarhæfi milli tímabila

Framkvæmd rannsóknanna hefur breyst nokkuð frá því að þær hófust. Búreikningstímabil hafa styst úr einu ári í fyrstu tveimur könnunum í tvær vikur en á móti hefur gagna um veigamikil og fátíð útgjöld verið aflað sérstaklega. Einnig hafa úrtökuaðferðir breyst milli kannana. Vegna breytinga á flokkunarkerfi er nokkrum vandkvæðum bundið að bera niðurstöður nýjustu rannsókna saman við eldri kannanir.

4.2 Samanburður við aðrar hagtölur

Niðurstöður útgjaldarannsóknar eru bornar saman við aðrar heimildir eftir því sem við verður komið; svo sem innflutningstölur, framleiðslutölur úr landbúnaði og veltutölur atvinnugreina. Niðurstöðurnar eu einnig bornar saman við þjóðhagsreikningatölur.

4.3 Samband milli bráðabirgðatalna og lokatalna

Ekki eru gefnar út bráðabirgðatölur.

5. Aðgangur að upplýsingum


5.1 Miðlunarleiðir

Niðurstöður eru gefnar út í Hagtíðindum. Þar eru ítarlegar upplýsingar um gerð rannsóknarinnar, úrvinnslu og marktækni. Niðurstöður eru birtar í töflum.
Í Landshögum árbók Hagstofunnar eru birtar töflur um meðalneysluútgjöld og ráðstöfunartekjur heimila.
Talnaefni úr útgjaldarannsókn er birt á vef Hagstofu

5.2 Grunngögn; varðveisla og notkunarmöguleikar

Gögnin eru geymd á tölvutæku formi á Hagstofunni. Ekki er veittur aðgangur að gögnunum sjálfum en unnt er að fá sérvinnslur úr þeim.

5.3 Skýrslur

Hér vísast í skýrsluna Neyslukönnun 1995 (Hagskýrslur Íslands III, nr. 50) þar sem gerð er grein fyrir niðurstöðum neyslukönnunar ársins 1995.

5.4 Aðrar upplýsingar

Frekari upplýsingar veitir
Finnbogi Gunnarsson
sími 528 1209

© Hagstofa �slands, �ann 6-12-2012