Starfsfólk í framhalds- og háskólum


0. Skráningaratriði fyrir viðfangsefni


0.1 Heiti

Starfsfólk í framhalds- og háskólum

0.2 Efnisflokkur

Menntun

0.3 Umsjón; stofnun, deild, sérfræðingur o.s.frv.

Deild: Mennta- og menningarmál
Tengiliður: Ásta M. Urbancic
Sími: 528-1041
Tölvupóstfang: Asta.Urbancic@hagstofa.is

0.4 Tilgangur og aðdragandi

Hagstofa Íslands hefur frá árinu 1998 safnað saman tölfræðilegum upplýsingum um starfsmenn skóla á framhalds- og háskólastigi. Söfnun þessara upplýsinga fer fram á haustin ár hvert og viðmiðunartími er nóvembermánuður. Frumgögn eru fengin frá Fjársýslu ríkisins þegar um ríkisrekna skóla er að ræða og síðan send til skóla til skoðunar og samþykktar. Gögn um einkaskóla koma beint frá viðkomandi skóla.
Tilgangur skýrslugerðarinnar er að afla upplýsinga um starfsmenn framhalds- og háskóla, einkum starfsmenn við kennslu, fjölda þeirra, menntun, réttindi og stöðugildi. Einnig um hlut kennslu og rannsókna í starfi starfsmanna þar sem það á við. Gögnin eru notuð við hagsýslugerð bæði til innlendra nota og í alþjóðlegu samhengi.

0.5 Notendur og notkunarsvið

Upplýsingar um starfsmenn á framhalds- og háskólastigi eru grundvöllur upplýsingagjafar til alþjóðastofnana og útgáfu Hagstofunnar um málefni þessara skólastiga. Niðurstöðurnar eru nýttar af menntamálaráðuneyti, fræðasamfélaginu, stjórnendum og starfsmönnum skóla. Notkunin er hvoru tveggja til stefnumótunar og rannsóknarstarfa.

0.6 Heimildir

Aðalheimildir Hagstofu eru skýrslur frá Fjársýslu ríkisins þegar um ríkisrekna skóla er að ræða. Þegar um einkarekna skóla er að ræða er aðalheimildin viðkomandi skóli. Gögnum er safnað á haustin ár hvert með nóvember sem viðmiðunarmánuð. Í þessari gagnasöfnun er aflað upplýsinga um einstaka starfsmenn skóla (kennitöluskrá) þar sem fram koma upplýsingar um starfsheiti, menntun, stöðuhlutfall, hlut kennslu, hlut rannsókna og kennsluréttindi þegar það á við.

0.7 Lagalegur grundvöllur fyrir hagskýrslugerð

Lög um Hagstofu Íslands og opinbera hagskýrslugerð 163/2007; lög um framhaldsskóla, nr. 92/2008; lög um háskóla nr. 63/2006. Samningur Hagstofu Íslands og menntamálaráðuneytisins frá 1997 um öflun upplýsinga um skóla- og menningarmál og úrvinnslu þeirra í tengslum við hagskýrslugerð. Ákvæði í skólasamningum milli menntamálaráðuneytis annars vegar og skóla hins vegar um skil á gögnum til Hagstofu. Ákvæði í lögum um skil á upplýsingum til hagskýrslugerðar.

0.8 Svarbyrði við innsöfnun

Hjá flestum skólum telst svarbyrði lítil og hefur frekar farið minnkandi þar sem meiri undirbúningsvinna hefur farið fram á Hagstofu. Þannig hefur mennta- og menningarmáladeild Hagstofu smám saman útbúið skjöl til skóla í endanlegt form og gengið frá skýrslum fyrir þá með öllum helstu upplýsingum en farið fram á að skólar lesi gögn yfir og staðfesti að rétt sé með farið. Svarbyrði er meiri hjá einkaskólum þar sem ekki er hægt að byggja á gögnum frá Fjársýslu ríkisins.

0.9 Ákvæði vegna EES og ESB

Gagnasöfnun um starfsmenn á framhalds- og háskólastigi er í samræmi við staðla evrópsku hagstofunnar Eurostat. Tölulegar upplýsingar eru sendar til Eurostat og annarra alþjóðastofnana.

1. Efni


1.1 Efnislýsing

Skýrslugerðin nær til eftirtalinna atriða sem varða starfsmenn á framhalds- og háskólastigi:

Starfsmaður: Starfsmenn sem þegið hafa laun frá skóla í nóvembermánuði ár hvert. Fjöldi starfsmanna er talinn út frá kennitöluskrá sem annað tveggja berst frá Fjársýslu ríkisins eða beint frá viðkomandi skóla. Upplýsinga um kyn og lögheimili starfsmanns er aflað með samtengingu við þjóðskrá 1. desember ár hvert.

Starfsheiti: Starfsheiti er flokkað í samræmi við ÍSTARF flokkunarkerfið, sem er byggt á alþjóðlegu flokkunarkerfi starfa ISCO-88. Viðkomandi skóli er beðinn um að flokka og setja ÍSTARF númer við hvern starfsmann eins og ráðningarsamningur hans segir til um.

Menntun: Spurt er um hæstu menntagráðu sem starfsmaður hefur aflað sér. Menntun þessi er flokkuð eftir alþjóðlega flokkunarkerfinu ISCED97. Gerður er greinarmunur á einstaka háskólagráðum, s.s. kandídats-, doktors-, diplóma-, bakkalárgráðu eða viðbótarnámi.

Kennsluréttindi: Spurt er um kennsluréttindi þegar það á við en slíkt á eingöngu við um kennara á framhaldsskólastigi.

Stöðugildi
: Stöðugildi er reiknað af Fjársýslu ríkisins fyrir starfsmenn ríkisrekinna skóla sem þegið hafa laun í nóvember ár hvert. Stöðugildi byggir á upplýsingum úr ársverkagrunni. Stöðugildi getur verið hærra en 1,0 þegar talinn hefur verið heildarvinnutími starfsmanns með yfirvinnu. Stöðugildi hjá stundakennurum eða öðru starfsfólki í tímavinnu reiknast þannig: Fjöldi greiddra klst./fjöldi klst. í 100% starfi. Stöðugildi einkarekinna skóla byggir á sömu forsendu og hér greinir en er reiknað af skólunum sjálfum en ekki af Fjársýslu ríkisins.

Kennsluhlutfall: Reiknað hlutfall kennslu af heildarstöðugildi. Þegar um framhaldsskóla er að ræða er spurt um kennslustundir á viku og gert ráð fyrir að 24 kennslustundir á viku jafngildi einu stöðugildi. Þannig er starf manns sem hefur stöðugildið 1,3 og kennir 31,2 tíma á viku 100% kennsla sbr. = (31,2/24)=1,3.
Þegar um háskólakennara er að ræða er miðað við hlutfall kennsluskyldu í ráðningarsamningi, þ.e.a.s. því kennsluhlutfalli sem fylgir starfsheiti. Þannig hefur prófessor að jafnaði 48% kennsluskyldu af einu stöðugildi en aðjúnktar 65%.

Rannsóknarhlutfall: Rannsóknarhlutfall á aðeins við um skóla á háskólastigi og þá starfsmenn sem hafa einhverja rannsóknarskyldu. Rétt eins og um hlut kennslu er rannsóknarhlutfall miðað við ráðningarsamning og starfsheiti. Þannig hafa prófessorar að jafnaði 40% rannsóknarskyldu en aðjúnktar ekki nema 30%. Ef aðrar reglur gilda um rannsóknarhlutfall fylla skólarnir sjálfir út þessar upplýsingar, yfirfara gögn og leiðrétta.

1.2 Tölfræðileg hugtök

Skóli: Litið er á skóla sem sjálfstæða einingu þar sem nám fer fram. Skóli þarf ekki að vera bundinn húsnæði eða stað. Oftast er skóli þó hefðbundin stofnun á einum stað með skólastjóra sem stjórnanda.

Starfsmaður: Einstaklingur sem þegið hefur laun hjá viðkomandi skóla í viðmiðunarmánuði.

Starfsmaður við kennslu: Starfsmaður sem þegið hefur laun hjá viðkomandi skóla í viðmiðunarmánuði og tekið að sér einhverja kennslu. Starfsmaðurinn kann að hafa annað starf en kennslu sem aðalstarf.

Starfsmannavelta: Hlutfall starfsmanna sem starfað hafa í skóla á framhalds- eða háskólastigi eitt ár og koma ekki fram í starfsmanaskrá ári síðar án þess að hafa látist á árinu. Líka kallað brottfall starfsfólks úr starfi.

2. Tími


2.1 Viðmiðunartími talnaefnis

Óskað er eftir skýrslum frá skólum einu sinni á ári í nóvember. Við skýrslugerð er miðað við alla starfsmenn skólans sem þáðu laun í nóvembermánuði.

2.2 Vinnslutími

Vinnslutími gagna er 9-10 mánuðir. Gagnavinnsla skiptist í 3 þrep.
1. Frumgögn eru undirbúin og send til skóla. Þetta er ferli tekur u.þ.b. mánuð.
2. Skólar fá eins til tveggja mánaða frest til þess að yfirfara og samþykkja gögn. Sumir skólar þurfa talsverðan tíma til að ljúka þessu.
3. Gögn eru yfirfarin og samræmd eftir að þau koma frá skólum. Skólar er spurðir út úr um óljós atriði áður en gögn eru vistuð í gagnagrunn.

2.3 Stundvísi birtingar

Helstu niðurstöður úr haustsöfnun um starfsmenn framhalds- og háskóla birtast á vef Hagstofunnar í byrjun september.
Birtingaráætlun er birt í október ár hvert á heimasíðu Hagstofunnar og kemur þar fram hvaða dag efnið verður birt.

2.4 Tíðni birtinga

Niðurstöður gagnasöfnunarinnar eru birtar árlega. Gefin hafa verið út Hagtíðindahefti um Starfsmenn í framhaldsskólum í mars 2004 og Starfsfólk við kennslu í leik-, grunn- og framhaldsskólum 2000-2005. Niðurstöður eru jafnframt birtar á vef Hagstofunnar og árlega eru birtar tölur um starfsmenn á framhalds- og háskólastigi í tölfræðiárbók Hagstofu Íslands, Landshögum.

3. Áreiðanleiki og öryggismörk


3.1 Nákvæmni gagna og áreiðanleiki

Hagstofan leitar eftir gögnum frá þeim framhalds- og háskólum landsins sem falla undir þekju þessarar gagnasöfnunar auk gagna frá Fjársýslu ríkisins. Skil á skýrslum um starfsmenn framhalds- og háskóla í þessari gagnasöfnun hafa verið 100%.

3.2 Skekkjuvaldar í gögnum

Markmiðið er að halda skekkjum í lágmarki og er það m.a. gert með samanburði við skýrslugerð fyrri ára, fyrirspurnum til einstakra skóla og samkeyrslu við aðrar skrár Hagstofu, s.s. þjóðskrá með kennitölum starfsmanna og gagnaskrám fyrri ára. Þannig er t.d. leitað upplýsinga í eldri starfsmannaskrám, prófaskrá Hagstofu og skrám um kennara sem vistaðar eru hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Skekkjuvalda í gögnum má oftast rekja til ónákvæmra skráninga í frumgögnum hjá skólum. Þá er helst um ræða að upplýsingar skorti um menntun og/eða kennsluréttindi. Einnig virðist flokkun skóla eftir starfanúmerum vera mis áreiðanleg. Þannig hafa sumir skólar tilhneigingu til að finna starfsmanni starfsnúmer sem lýsir menntun, virðingu eða launum fremur en raunverulegu starfi viðkomandi (t.d. starfsheitið læknir fremur en stundakennari). Skólar hafa stundum takmarkaðar upplýsingar um stundakennara og því vantar oft upplýsingar um menntun þeirra.
Fjöldi starfsmanna í nóvember er talinn endurspegla starfsmannafjölda skólaársins. Fjöldi starfsmanna á vormisseri er ekki endilega sá sami og að hausti og því kann það að valda skekkju þegar ályktun er dregin um fjölda starfsmanna skólaársins af hausttölunum einum saman. Einnig lenda starfsmenn, sem starfa aðeins stuttan tíma á skólaárinu ekki alltaf inni í gagnasöfnuninni.

3.3 Tölur um öryggismörk/skekkjumælingar

Í gagnaöflun um starfsmenn framhalds- og háskóla eru fengnar upplýsingar frá öllum skólum sem falla undir þekju þessarar könnunar. Þar sem unnið er með þýðistölur eru hvorki reiknuð út öryggismörk né gerðar skekkjumælingar.

4. Samanburður


4.1 Samanburðarhæfi milli tímabila

Gagnasöfnun þessi hefur staðið óslitið frá 1998 en þó ekki með sama sniði og ekki með sama viðmiðunartíma. Árið 1998 var safnað fjöldatölum um starfsfólk í febrúar en ekki kennitölugögnum. Frá árinu 1999 var safnað upplýsingum um starfsfólk eftir kennitölum með febrúar sem viðmiðunarmánuð. Árið 2001 var gagnasöfnunin færð yfir í marsmánuð þar sem í febrúar var í sumum tilfellum verið að gera upp yfirvinnu vegna jólaprófa. Haustið 2004 var svo gagnasöfnunin flutt til nóvembermánaðar til að bæta samræmi við nemendatölur. Gögn eru því ekki alls kostar samanburðarhæf á milli ára. Breytingar sem hafa verið gerðar á gagnasöfnuninni miða að því að bæta gögn og styrkja.

4.2 Samanburður við aðrar hagtölur

Tölur um starfsfólk framhalds- og háskóla eru birtar á grundvelli skóla, þannig að hver skóli telst aðeins á einu skólastigi, enda þótt hann bjóði upp á nám bæði á framhalds- og háskólastigi. Oftast er skóli talinn vera á sama skólastigi og meirihluti nemenda. Niðurstöður skýrslugerðar um framhalds- og háskóla eru bornar saman við aðrar heimildir og hagtölur eftir því sem við á, svo sem þjóðskrá, nemendaskrá og prófaskrá. Einnig tölur frá öðrum löndum, m.a. í alþjóðlegum ritum. Þekja talna um starfsfólk í framhalds- og háskólum er nokkru minni en þekja talna um nemendur, þar sem ekki er spurt um starfsfólk tónlistarskóla að undanskildum Tónlistarskólanum í Reykjavík og Söngskólanum í Reykjavík. Ekki er heldur spurt um starfsfólk ýmissa lítilla sérskóla sem eru utan hins hefðbundna skólakerfis.

4.3 Samband milli bráðabirgðatalna og lokatalna

Ekki eru birtar bráðabirgðatölur.

5. Aðgangur að upplýsingum


5.1 Miðlunarleiðir

Fréttir, birtar á vef Hagstofunnar
Hagtölur, efnisflokkaðar veftöflur
Hagtíðindi, ritröð
Landshagir, árbók Hagstofu Íslands
Upplýsingar úr gagnaöflun Hagstofu um starfsmenn framhalds- og háskóla er að finna í ritum alþjóðastofnana um menntamál s.s. Key data on Education in Europe sem kemur út á tveggja ára fresti (útgefandi Eurydice), Education at a Glance (árleg útgáfa OECD) og Global Education Digest (árleg útgáfa UNESCO).

5.2 Grunngögn; varðveisla og notkunarmöguleikar

Gögnin eru geymd á tölvutæku formi á Hagstofunni. Litið er á gögn um einstaka starfsmenn sem trúnaðarmál. Ekki er veittur aðgangur að gögnunum sjálfum en unnt er að fá unnar tölur að ósk fyrirspyrjenda þar sem niðurstöður eru í samandregnu formi og ekki hægt að þekkja einstaklinga. Vísindamenn geta sótt um aðgang að gögnunum í rannsóknarskyni að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

5.3 Skýrslur


5.4 Aðrar upplýsingar

Frekari upplýsingar má fá hjá ábyrgðarmanni gagna um framhalds- og háskóla og öðrum starfsmönnum mennta- og menningarmáladeildar.

© Hagstofa �slands, �ann 7-2-2014