FRÉTT FERÐAÞJÓNUSTA 06. JÚNÍ 2005

Gistinóttum á hótelum í apríl fjölgaði um tæp 9% milli ára
Gistinætur á hótelum í apríl voru 77.590 en voru 71.420 árið 2004 (9%).  Gistinóttum fjölgaði í apríl í öllum landshlutum.  Hlutfallslega varð mesta aukningin á Suðurlandi þar sem gistinætur fóru úr 7.040 í 9.520 (35%) og á Austurlandi (23%) þar sem fjöldinn fór úr 1.470 í 1.820 milli ára.  Á Suðurnesjum, Vesturlandi og Vestfjörðum fjölgaði gistinóttum úr 5.110 í 5.730 milli ára (12%) og á Norðurlandi úr 4.570 í 4.640 (2%).  Á höfuðborgarsvæðinu voru gistinæturnar í apríl 55.880 en voru 53.230 árið á undan, fjölgar því um 5% milli ára.

Fjölgun gistinátta á hótelum í apríl 2005 er eingöngu vegna Íslendinga (32%) því gistinætur útlendinga standa í stað.  Skýringu á þessari fjölgun Íslendinga má að einhverju leyti finna í aukinni markaðssetningu því fjölgun gistinátta er oft í tengslum við styttri ferðir og árshátíðir.

 

Gistinóttum í janúar-apríl (1. ársþriðjungur) fjölgar um rúm 3% milli ára
Gistinætur á hótelum á 1. ársþriðjungi 2005 voru 232.110 en voru 225.200 fyrir sama tímabil árið 2004.  Fjölgunin er eingöngu vegna Íslendinga (14%) því gistinóttum útlendinga fækkaði um tæpt 1% á tímabilinu.

Gistinóttum á hótelum janúar-apríl fjölgaði í öllum landshlutum nema á Austurlandi  (-31%).  Fjölgunin nam 17% á Norðurlandi, 14% á Suðurnesjum, Vesturlandi og Vestfjörðum, 6% á Suðurlandi og 2% á höfuðborgarsvæðinu.


 

Athygli skal vakin á því að hér er átt við gistinætur á hótelum eingöngu, þ.e. hótelum sem opin eru allt árið (í þessum flokki gististaða teljast hvorki gistiheimili né hótel sem eingöngu eru opin yfir sumartímann).  Fjöldi hótela í þessum flokki gististaða sem opnir voru í apríl voru 68 talsins 2005, en voru 65 árið á undan.  

Tölur fyrir 2005 eru bráðabirgðatölur.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.