FRÉTT LAUN OG TEKJUR 08. NÓVEMBER 2022

Vísitala heildarlauna hækkaði um 7,6% á milli annars ársfjórðungs 2021 og sama ársfjórðungs 2022. Þar gætir meðal annars áhrifa kjarasamningsbundinna launahækkana sem ná til stórs hluta launafólks á vinnumarkaði, bæði krónutöluhækkana í ársbyrjun 2022 og hækkunar launa vegna hagvaxtarauka á vormánuðum.

Vísitala heildarlauna hækkaði meira hjá hinu opinbera en á almenna markaðinum. Að sama skapi var hækkunin mismikil eftir atvinnugreinabálkum (sjá mynd). Hækkunin var mest um 10,5% í atvinnugreininni rekstur gististaða og veitingarekstur og leigustarfsemi og önnur sérhæfð þjónusta. Minnst hækkun var í upplýsingum og fjarskipti eða 5,9%.

Árstíðabundnar sveiflur í vísitölu heildarlauna
Sambærileg hækkun launavísitölu á milli ársfjórðunga var 8,4% (hér er byggt á ársfjórðungsmeðaltali launavísitölu) en útreikningur þessara vísitalna byggir á afar ólíkum aðferðum. Á meðan launavísitalan er verðvísitala, þar sem vinnutíma og samsetningu hópsins sem liggur að baki er haldið föstum á milli mælinga, er launaþróun samkvæmt vísitölu heildarlauna ætlað að sýna áhrif fleiri þátta á launaþróun. Til að mynda breytingar á samsetningu vinnuaflsins og hlutfalls yfirvinnutíma. Vísitala heildarlauna er reiknuð með því að leggja saman öll greidd laun og deila þeim með heildarfjölda greiddra stunda.

Samanburður á þróun vísitölu heildarlauna og launavísitölu eftir ársfjórðungum (sjá mynd ofar) sýnir töluverðar árstíðarbundnar sveiflur í vísitölu heildarlauna sem ekki eru greinanlegar í launavístölunni. Til að mynda lækkar vísitala heildarlauna alltaf á milli annars og þriðja ársfjórðungs. Það skýrist af því að mikið er um ótímamældar eingreiðslur vegna orlofsuppbótar sem er greidd út á öðrum ársfjórðungi og veldur því að launasumman hækkar án þess að fjölgun í greiddum tímum vegi á móti sem lækkar heildartímakaupið. Þar sem áhrifa þessara eingreiðslna gætir ekki lengur á þriðja ársfjórðungi lækkar tímakaupið aftur og þar með vísitala heildarlauna. Óreglulegir launaliðir, svo sem orlofs- og desemberuppbót, hafa ekki áhrif á launavísitölu sem byggir á reglulegu tímakaupi í stað heildartímakaups.

Lækkun vísitölu heildarlauna á þriðja ársfjórðungi má einnig rekja til árstíðabundinna breytinga á samsetningu vinnuaflsins yfir sumarmánuðina þegar sumarstarfsfólk streymir inn á vinnumarkaðinn meðal annars vegna sumarafleysinga. Sú breyting endurspeglast í hagtölum um aldursdreifingu starfandi samkvæmt skráargögnum en þar sést að töluverður munur er á milli ársfjórðunga á hlutdeild fólks yngra en 25 ára á vinnumarkaði (sjá mynd). Fólk undir 25 ára nær þannig mestri hlutdeild á vinnumarkaðnum á þriðja ársfjórðungi hvers árs. Þetta veldur því að vægi hálaunastarfa verður minna sem lækkar heildartímakaup að jafnaði.

Á milli þriðja og fjórða ársfjórðungs hækkar vísitala heildarlauna svo aftur hratt. Þá minnkar hlutfall ungs fólks á vinnumarkaði nokkuð skarpt og að auki eru greiddar út miklar ótímamældar eingreiðslur eins og desemberuppbót á fjórða ársfjórðungi.

Um vísitölu heildarlauna og launavísitöluna
Vísitala heildarlauna byggir á staðgreiðslugögnum og er reiknuð með því að deila summu allra staðgreiðsluskyldra launa með heildarfjölda greiddra stunda. Hún sýnir breytingar á heildarlaunum fyrir greidda stund og því geta ýmsir þættir, auk breytinga á föstum launakjörum, haft áhrif. Til að mynda breyting á hlutfalli vinnuafls með há og lág laun, breyting á hlutfalli yfirvinnustunda eða breytingar á tilfallandi eingreiðslum. Vísitala heildarlauna nær til alls launafólks sem fær greidd laun frá launagreiðenda með tíu eða fleiri starfsmenn. Undanskildir eru þeir sem starfa við fiskveiðar og landbúnað, atvinnurekstur innan heimilis til eigin nota og starfsemi stofnana og félagasamtaka með úrlendisrétt.

Launavísitalan er verðvísitala sem byggir á launagögnum úr fyrirtækjarannsókn, launarannsókn Hagstofunnar. Við útreikning hennar er vinnutíma og samsetningu hópsins sem liggur að baki haldið föstum á milli mælinga. Launavísitalan sýnir þannig breytingar á verði greiddrar vinnustundar fyrir fasta samsetningu vinnutíma þar sem miðað er við breytingu á reglulegum launum, hvort sem er í dagvinnu eða vaktavinnu. Með reglulegum launum er átt við grunnlaun auk hvers kyns álags- og bónusgreiðslna, svo sem vaktaálags og ómældrar/fastrar yfirvinnu, sem gerðar eru upp á hverju útborgunartímabili. Tilfallandi yfirvinna telst ekki til reglulegra launa né aðrir óreglulegir launaliðir líkt og orlofs- og desemberuppbót sem ekki eru gerðir upp á hverju launatímabili.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1250 , netfang laun@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.