Á árunum 2009–2018 missti að jafnaði 101 barn foreldri árlega, fæst árið 2015 þegar 89 börn misstu foreldri en flest árið 2010 eða 133 börn. Alls misstu 1.007 börn foreldri yfir tímabilið, 525 drengir og 482 stúlkur.

Alls létust 649 foreldrar barna á tímabilinu, þar af voru 448 feður og 201 móðir. Flestir feðra sem létust voru eldri en 49 ára, 172 talsins eða 38%. Næstflestir voru milli 40 og 49 ára, 140 feður eða 31% af heildarfjölda feðra. Flestar mæður sem létust voru á aldrinum 40–49 ára, 85 talsins eða um 42%. Næststærsti hópurinn var á aldrinum 30–39 ára, 56 mæður, tæplega 28%.

Á tímabilinu 2009–2018 létust flestir foreldrar af völdum illkynja æxlis eða 257, tæplega 40%. Næstalgengast var að foreldri létist vegna ytri orsaka áverka og eitrana, tæplega 34% tilvika eða 218 manns. Tveir undirflokkar dauðsfalla af völdum ytri orsaka áverka og eitrana voru skoðaðir sérstaklega, annars vegar óhöpp og hins vegar sjálfsvíg og vísvitandi sjálfsskaði. Meirihluti foreldra sem létust af völdum ytri orsaka, létust af völdum sjálfsvígs og vísvitandi sjálfsskaða, alls 106 (48,6% af heildarfjölda foreldra sem lést af völdum ytri orsaka og 16,3% af heildarfjöldanum).

Þegar dánarorsakir eru skoðaðar eftir kyni og aldursflokkum má sjá að langalgengasta dánarsorsök ungra mæðra og ungra feðra, þeirra sem eru 29 ára eða yngri, eru ytri orsakir. Alls létust 24 feður (89%) og 11 mæður (73%) á þessum aldri vegna ytri orsaka. Meðal foreldra sem voru eldri en 49 ára var algengasta dánarorsökin hins vegar illkynja æxli, 31 móðir (69%) og 86 feður (50%).

Um gögnin
Hagstofa Íslands gefur í fyrsta sinn út upplýsingar um börn sem misst hafa foreldri. Gögnin eru brotin niður eftir dánarmeini, kyni og aldri foreldra. Talin voru öll börn, 17 ára og yngri, sem voru búsett á Íslandi 1. janúar ár hvert frá 2009 til 2018 sem misst höfðu foreldri árið á undan. Með foreldri er átt við líffræðilegt foreldri og kjörforeldri.

Talnaefni