FRÉTT MANNFJÖLDI 12. NÓVEMBER 2008

Hagstofa Íslands tekur reglulega saman upplýsingar um algengustu eiginnöfn meðal landsmanna. Síðast var fjallað um mannanöfn í Hagtíðindahefti Hagstofunnar hinn 20. nóvember 2005. Þær upplýsingar grundvölluðust á nöfnum í íbúaskrá þjóðskrár hinn 1. janúar 2005 og voru töflur um algengustu mannanöfn eftir kyni og aldri birtar á vef Hagstofu Íslands. Nú bætast við þessar upplýsingar töflur um algengustu nöfn barna á aldrinum 0–4 ára hinn 1. janúar 2008. Í þeim töflum sem birtast á vef Hagstofunnar eru þau nöfn sem rituð eru á tvenna vegu eða fleiri í íslensku flokkuð sem eitt nafn. Þetta á t.a.m. við um nöfnin Elvar og Elfar, Telma og Thelma og Skafti og Skapti. Ritmyndir nafna eru birtar í sérstakri töflu á vefnum.        

Á undanförnum áratugum hefur mjög dregið úr notkun gamalgróinna mannanafna. Tískusveiflur í nafngiftum eru áberandi sem birtist meðal annars í breytingum á tíðni nafna milli fæðingarárganga. Nöfnin Jón og Guðrún voru um aldir langalgengustu mannanöfnin á Íslandi og samkvæmt manntalinu 1703 hétu 23,5% allra karla Jón og 19,7% allra kvenna báru nafnið Guðrún. Talsvert dró úr tíðni þessara nafna á 18. og 19. öld og í manntalinu 1901 hétu 9,6% karla Jón og 10,5% kvenna Guðrún. Á 20. öldinni dró áfram úr vinsældum þessara nafna og hinn 1. janúar 2005 báru 3,8% landsmanna nafnið Jón og 3,6% kvenna hétu Guðrún. Þessi nöfn eru mun sjaldgæfari meðal þeirra yngstu. Um síðustu áramót báru þannig 2,3% 0–4 ára drengja nafnið Jón og einungis 1,5% stúlkna á sama aldri nafnið Guðrún.

Þótt mikið hafi dregið úr vinsældum áður algengra nafna er þó vert að hafa í huga að mörg þeirra halda enn stöðu sinn sem vinsæl mannanöfn. Þannig er Guðrún sjöunda algengasta nafnið meðal yngstu barnanna (0–4 ára) og Jón er algengasta drengjanafnið. Bæði þessi nöfn eru þó mun algengari sem fyrra nafn í tvínefni og einnefnin Jón og Guðrún eru afar sjaldgæf meðal barna á aldrinum 0–4 ára. Einnefnið Jón lendir þannig í 83. sæti af öllum einnefnum drengja á þessum aldri og Guðrún í 47. sæti af einnefnum stúlkna. Ef einungis er litið til einnefna eru vinsælustu einnefnin meðal drengja á aldrinum 0–4 ára Kári (33 börn), Dagur (32) og Alexander (29) en ef tekið er mið af öllum aldurshópum voru Sigurður (1.744), Guðmundur (1.660) og Jón (1.283) algengustu einnefnin árið 2005. Sara (33), Freyja (32) og Katla (31) eru nú algengustu einnefnin meðal stúlkna 0–4 ára en ef allir aldurshópar er skoðaðir kemur í ljós að Guðrún (2.184), Sigríður (1.874) og Kristín (1.699) voru algengustu einnefnin í íbúaskrá þjóðskrár árið 2005.   
 
Áberandi er hve hlutur tvínefna hefur vaxið á síðustu áratugum. Á 19. öld heyrði til undantekninga að íslensk börn væru skírð tveimur nöfnum en hinn 1. janúar 2005 báru 55,5% þjóðarinnar tvö nöfn eða fleiri. Tvínefni eru munu algengari meðal barna en fullorðinna og nú bera 82% barna á aldrinum 0–4 ára tvö nöfn eða fleiri. Hið sama átti einungis við um 19% þeirra sem náð höfðu 85 ára aldri hinn 1. janúar 2005. Algengustu tvínefni 0–4 ára drengja um síðustu áramót voru Sindri Snær (20), Mikael Máni (19) og Andri Snær (18) en algengustu tvínefni allra karla 1. janúar 2005 voru Jón Þór (214), Gunnar Þór (187) og Jón Ingi (161). Meðal stúlkna 0–4 ára eru nöfnin Eva María (29), Anna María (22) og Sara Lind (22) algengust en algengustu tvínefni allra kvenna voru Anna María (344), Anna Margrét (206) og Anna Kristín (201) árið 2005.       

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.