FRÉTT MENNTUN 20. ÁGÚST 2014

Starfsfólk í leikskólum á Íslandi hefur aldrei verið fleira en í desember 2013. Þá störfuðu 5.826 manns í 5.099 stöðugildum í 256 leikskólum, 2,8% fleiri en árið áður. Á sama tíma sóttu 19.713 börn leikskóla á Íslandi og hafa aldrei verið fleiri. Leikskólabörnum fjölgaði um 98 frá desember 2012, eða um 0,5%. Rúmlega 83% barna á aldrinum 1-5 ára voru skráð í leikskóla og hefur það hlutfall ekki verið hærra.

Börnum af erlendum uppruna fjölgar áfram
Hagstofan hefur frá árinu 2001 skoðað ríkisfang leikskólabarna. Árið 2001 voru 159 börn í leikskólum landsins með erlent ríkisfang, 1,0% leikskólabarna. Tólf árum seinna, í desember 2013, voru börn með erlent ríkisfang 1.147, 5,8% leikskólabarna. Samsetning hópsins hefur breyst töluvert á þessum árum. Börnum frá Eystrasaltslöndunum og Austur-Evrópu hefur fjölgað mikið á meðan börnum frá öðrum heimshlutum hefur fækkað hlutfallslega.

Börn með erlent ríkisfang
Fjöldi Hlutfall
2001 2013 2001 2013
         
Alls 159 1.147 100,0 100,0
Norðurlönd 23 25 14,5 2,2
Vestur-Evrópa 21 69 13,2 6,0
Eystrasaltslönd 5 142 3,1 12,4
Austur-Evrópa 62 813 39,0 70,9
Norður-Ameríka 4 12 2,5 1,0
Suður-Ameríka 3 11 1,9 1,0
Afríka 0 11 0,0 1,0
Asía 31 55 19,5 4,8
Eyjaálfa 0 2 0,0 0,2
Ekki vitað 10 7 6,3 0,6

Í desember 2013 höfðu 2.181 leikskólabörn erlent móðurmál (11,1% leikskólabarna) og hafa aldrei verið fleiri. Pólska er algengasta erlenda móðurmál leikskólabarna eins og undanfarin ár, og hafði 881 barn pólsku sem móðurmál í desember 2013.

Stöðug fjölgun starfsmanna yfir fimmtugu
Starfsmönnum leikskóla hefur fjölgað undanfarin ár og um leið hefur aldurssamsetning hópsins breyst, því fjölgað hefur í yngstu og elstu aldurshópunum. Í elsta aldurshópnum (50 ára og eldri) hefur verið stöðug fjölgun frá því að Hagstofan hóf að safna inn gögnum um starfsmenn í leikskólum árið 1998. Það ár voru 50 ára og eldri 568, 15,5% starfsmanna, en árið 2013 voru þeir 1.490, 25,6% leikskólastarfsmanna. Starfsmönnum á aldrinum 30-49 ára hefur fækkað síðan árið 2009 og voru 46,5% starfsmanna 2013. Starfsmenn undir þrítugu voru 27,9% starfsmanna í desember 2013 og hefur fjölgað úr tæpum fjórðungi starfsmanna árið 2011.

Menntaðir leikskólakennarar voru 1.960 talsins, 36,8% starfsmanna við uppeldi og menntun barna.

Leikskólum fækkar
Í desember 2013 voru starfandi 256 leikskólar á Íslandi og hafði þeim fækkað um sex frá árinu áður. Flestir voru þeir árið 2009, þegar 282 leikskólar störfuðu á landinu.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.