FRÉTT MENNTUN 25. SEPTEMBER 2008

Hagstofa Íslands hefur tekið saman tölur um fjölda nemenda í grunn- og framhaldsskólum sem lærðu erlend tungumál skólaárið 2007-2008. Tölurnar eru birtar í tilefni af degi tungumála í Evrópu 26. september.

Tvöfalt fleiri yngri nemendur læra ensku
Enska er fyrsta erlenda tungumálið í grunnskólum og jafnframt það erlenda tungumál sem flestir grunnskólanemendur læra. Flestir grunnskólanemar hefja enskunám í 5. bekk og dönskunám í 7. bekk. Enskunemum hefur fjölgað ár frá ári og stunduðu 33.083 grunnskólabörn enskunám skólaárið 2007-2008. Það er fjölgun um 3.353 nemendur frá fyrra ári eða 11,3%. Aldrei áður hafa fleiri grunnskólabörn verið að læra ensku. Dönskunemum hefur hins vegar fækkað samhliða fækkun nemenda í elstu bekkjum grunnskólans og læra nú 18.005 nemendur grunnskólans dönsku. Alls völdu 169 nemendur sænsku og 100 nemendur norsku í stað dönsku.

Í nokkrum skólum hefst kennsla í erlendum tungumálum fyrr en kveðið er á um í aðalnámsskrá. Fleiri 6, 7, 8 og 9 ára nemendur læra nú ensku en nokkru sinni fyrr. Skólaárið 2007-2008 lærðu 6.225 nemendur í 1.-4. bekk ensku í grunnskólum landsins. Það er rúmlega tvöföldun frá fyrra skólaári en þá lærðu 2.989 nemendur í 1.-4. bekk ensku (sjá mynd 1).

 

Spænskan vinsælasta þriðja tungumálið í grunnskólum
Í mörgum grunnskólum landsins er nemendum boðið að læra þriðja erlenda tungumálið. Frá skólaárinu 2005-2006 hefur spænskan verið næstvinsælasta þriðja tungumálið á eftir þýsku. Á síðastliðnu skólaári völdu síðan flestir nemendur spænsku sem þriðja mál eða 548, 447 nemendur völdu þýsku og 307 nemendur lærðu frönsku.

Rúmlega 18 þúsund framhaldsskólanemendur læra erlend tungumál
Skólaárið 2007-2008 lögðu 18.114 nemendur á framhaldsskólastigi stund á nám í erlendum tungumálum eða 72,2% nemenda á þessu skólastigi. Framhaldsskólanemendur sem læra erlend tungumál eru 411 fleiri en á síðasta skólaári en hlutfall þeirra af heildarfjölda nemenda á framhaldsskólastigi hefur þó lækkað um 0,2% prósentustig.

Flestir framhaldsskólanemendur læra ensku eða 15.154. Næstflestir eru nemendur í dönsku eða 8.936 en dönskunemum hefur fjölgað um 260 (3,0%) á milli ára. Þýska er í þriðja sæti en skólaárið 2007-2008 voru 4.536 nemendur skráðir í þýskunám, 18,1% nemenda á framhaldsskólastigi. Spænska er fjórða algengasta erlenda tungumálið í framhaldsskólum þriðja árið í röð með 3.666 nemendur, 14,6% nemenda. Franska er nú í fimmta sæti með 2.554 nemendur, 10,2% nemenda. Nemendum í þýsku og frönsku fækkar hlutfallslega á meðan nemendum í spænsku fjölgar á milli ára.

Sextán erlend tungumál hafa verið kennd í framhaldsskólum frá 1999
Skólaárið 2007-2008 lögðu nemendur í framhaldsskólum landsins stund á 11 lifandi erlend tungumál auk latínu, forngrísku og íslensku fyrir útlendinga. Í gagnagrunni Hagstofunnar um nám í erlendum tungumálum, sem nær aftur til ársins 1999, eru til gögn um 16 erlend tungumál sem nemendur hafa lært, auk íslensku fyrir útlendinga. Á mynd 2 má sjá tungumál sem færri en 200 nemendur í framhaldsskólum hafa lagt stund á skólaárið 2007-2008.


 

Alls lærðu 175 nemendur ítölsku, í sænsku eru skráðir 85 nemendur, í japönsku eru skráðir 67 og í norsku 46 nemendur. Í rússnesku voru 32 nemendur og 28 nemendur voru í pólsku. Þá læra 332 nemendur íslensku fyrir útlendinga.

Um gögnin
Gögnum um tungumálanám nemenda grunnskóla er safnað einu sinni á ári fyrir allt skólaárið. Gögnum um nemendur framhaldsskóla var allt til ársins 2002 einungis safnað á haustin. Skólaárið 2002-2003 var farið að safna gögnum um nemendur í tungumálanámi á vormisseri. Einungis eru taldir þeir nemendur í tungumálanámi á vormisseri sem einnig eru skráðir í nám á haustmisseri sama skólaár. Upplýsinga er eingöngu aflað um nemendur í lifandi tungumálum og því eru ekki taldir nemendur í forngrísku, latínu né esperantó.

Talnaefni
     Grunnskólar
     Framhaldsskólar

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.