FRÉTT MENNTUN 16. OKTÓBER 2017

Tæplega fjórðungur landsmanna á aldrinum 25–64 ára (um 40 þúsund manns) sótti sér símenntun árið 2016 sem er lækkun um rúm þrjú prósentustig frá árinu á undan. Hlutfallið hefur ekki verið lægra frá árinu 2004 en árið 2015 varð töluverð aukning í símenntun milli ára. Minni þátttaka var í öllum tegundum náms, svo sem námskeiðum, ráðstefnum og fyrirlestrum, annarri fræðslu með leiðbeinanda utan skóla eða fræðslu innan skóla. Sömu sögu var að segja um aldurshópinn 16–74 ára, en þar tóku 28,2% þátt í einhvers konar símenntun í fyrra, sem var lækkun um 4,3 prósentustig frá árinu 2015.

Flestir sem afla sér símenntunar með háskólamenntun
Þriðji hver þátttakandi í símenntun árið 2016 hafði lokið háskólamenntun, eða 22.700 manns. Hlutfallið minnkaði með lækkandi menntunarstigi. Þannig sóttu 20,9% þeirra sem lokið hafa starfs- og framhaldsmenntun sér einhvers konar símenntun, en 13,3% þeirra sem eingöngu hafa lokið grunnmenntun.

Konum sem sækja sér símenntun fækkaði töluvert meira milli ára en körlum. Þannig sóttu 27,7% kvenna á aldrinum 25–64 ára sér einhvers konar símenntun í fyrra, þar með talið nám í skóla, og fækkaði þeim um 4,4 prósentustig milli ára. Á sama tíma fækkaði körlum um 2,2 prósentustig, í 20,8%. Þrátt fyrir þessa fækkun voru konur enn töluvert fleiri en karlar, eða 23.100 á móti 17.800.

Fleiri sem sóttu símenntun utan skóla en innan
Alls tóku 28.700 manns á aldrinum 25–64 ára þátt í símenntun utan skóla í fyrra, til dæmis námskeið, ráðstefnur eða fyrirlestra. Um 15.800 manns sóttu námskeið og 14.500 fengu aðra fræðslu með leiðbeinanda utan skóla. Um 16.700 manns tóku þátt í símenntun í skólum. Þátttaka í símenntun var mest hjá háskólamenntuðum og minnst hjá þeim sem eingöngu hafa lokið grunnmenntun, hvort sem horft er til fræðslu innan skóla eða utan.

Þátttaka í símenntun minnkar meðal atvinnulausra og þeirra sem eru utan vinnumarkaðar
Minni þátttaka var í símenntun árið 2016 meðal atvinnulausra og fólks utan vinnumarkaðar en árið áður. Þátttaka fólks á aldrinum 25–64 ára utan vinnumarkaðar minnkaði um 8,2 prósentustig milli ára og um 5,7 prósentustig á meðal atvinnulausra. Á sama tíma minnkaði þátttaka hjá starfandi fólki um 2,7 prósentustig. Atvinnulausir voru hlutfallslega flestir meðal þeirra sem tóku þátt í símenntun, en um 28% atvinnulausra sóttu símenntun árið 2016, um eitt þúsund manns. Rúm 24% starfandi sóttu sér símenntun, eða 36.300 manns.

Um gögnin
Tölurnar eru byggðar á niðurstöðum úr vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands. Vinnumarkaðsrannsóknin byggir á alþjóðlegum stöðlum og skilgreiningum. Í úrtökuramma rannsóknarinnar eru allir íslenskir og erlendir ríkisborgarar 16–74 ára sem skráðir eru í þjóðskrá og eru með lögheimili á Íslandi. Heildarúrtak ársins 2016 var 15.783 manns. Þegar frá eru taldir þeir sem voru látnir eða búsettir erlendis reyndist nettóúrtakið 15.319 einstaklingar. Nothæf svör fengust frá 11.220 einstaklingum sem jafngildir 73,2% endanlegri svörun. Allar niðurstöður hafa verið vegnar eftir kyni og aldri.

Símenntun er skilgreind sem öll menntun sem einstaklingur sækir, hvort sem er formlegt nám í skóla eða menntun utan skóla, s.s. á námskeiði, fyrirlestri eða á ráðstefnu. 

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1000 , netfang menntamal@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.