FRÉTT MENNTUN 03. NÓVEMBER 2008


Aldrei hafa fleiri nemendur útskrifast af háskólastigi á einu skólaári
Á háskólastigi útskrifuðust 3.521 nemendur með 3.553 próf skólaárið 2006-2007. Aldrei hafa fleiri útskrifast úr námi á háskólastigi á Íslandi á einu skólaári síðan gagnasöfnun Hagstofu Íslands hófst árið 1995. Brautskráðum nemendum fjölgaði um 159, eða 4,7% frá árinu áður. Konur voru tveir þriðju (67,6%) þeirra sem útskrifuðust með próf á háskólastigi og karlar þriðjungur (32,4%) útskrifaðra.

Ekki hafa fleiri lokið meistaragráðu á Íslandi á einu skólaári til þessa. Þeir voru 612 og fjölgaði um 201 frá fyrra ári, sem er fjölgun um 48,9%. Rúmlega tvöfalt fleiri luku meistaragráðu þetta ár en skólaárið 2004-2005, þegar 292 luku þessu námi.

Alls luku 10 doktorsprófi á skólaárinu, 4 karlar og 6 konur. Það eru 5 færri en árið á undan.

Flestar brautskráningar á háskólastigi eru vegna nemenda sem ljúka fyrstu háskólagráðu. Þær voru 2.505 talsins skólaárið 2006-2007, og hafa ekki áður útskrifast svo margir með fyrstu háskólagráðu á Íslandi. Brautskráningum með fyrstu háskólagráðu fjölgaði um 64 frá fyrra ári (2,6%), sem er talsvert minni fjölgun en undanfarin ár. Nú fjölgar útskrifuðum háskólanemendum aðallega vegna fjölgunar nemenda sem ljúka meistaragráðu.

Brautskráðir nemendur af framhaldsskólastigi hafa aldrei verið fleiri
Alls brautskráðust 5.060 nemendur af framhaldsskólastigi með 5.621 próf skólaárið 2006-2007. Þetta er fjölgun um 242 nemendur frá fyrra ári, eða 5,0%. Aldrei áður hafa svo margir nemendur útskrifast af framhaldsskólastigi á einu skólaári. Konur voru nokkru fleiri en karlar meðal brautskráðra eða 54,4% nemenda.

Rúmlega 3.000 brautskráningar úr starfsnámi á framhaldsskólastigi, aldrei fleiri
Brautskráningar úr ýmiss konar starfsnámi á framhaldsskólastigi voru 3.038 og hafa ekki áður verið fleiri. Brautskráðir nemendur með sveinspróf voru 664 og hafa ekki útskrifast fleiri sveinar á einu skólaári síðan 1998-1999. Sveinum fjölgaði um 55 frá fyrra ári (9,0%) og eru karlar fjórir af hverjum fimm sem ljúka sveinsprófi (80,4%).

Stúdentum fjölgaði um 109 frá fyrra ári
Alls útskrifuðust 2.561 stúdentar úr 31 skólum skólaárið 2006-2007; 109 fleiri en skólaárið áður (4,4% fjölgun). Körlum meðal nýstúdenta fækkaði um 12 en konum fjölgaði um 121 frá fyrra skólaári. Miklu fleiri konur en karlar ljúka stúdentsprófi. Skólaárið 2006-2007 lauk 1.571 kona stúdentsprófi, 77,4% af fjölda tvítugra það ár en 990 karlar, 43,7% af fjölda tvítugra.

Talnaefni
   Framhaldsskólar
   Háskólar

 

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.