FRÉTT ÞJÓÐHAGSREIKNINGAR 29. FEBRÚAR 2024

Niðurstöður þjóðhagsreikninga fyrir síðasta ár benda til þess að hagvöxtur, þ.e. breyting á landsframleiðslu á föstu verðlagi, hafi numið 4,1% og er áætlað nafnvirði vergrar landsframleiðslu 4.279 ma.kr. Á fjórða ársfjórðungi hægði á vexti hagkerfisins en aukning landsframleiðslunnar mældist 0,6% samanborið við sama ársfjórðung fyrra árs. Árstíðaleiðrétt breyting landsframleiðslunnar á milli þriðja og fjórða ársfjórðungs mælist 0,9% að raungildi.

Þjóðhagsreikningar fyrir 2023
Megindrifkraftur hagvaxtar á síðasta ári var raunaukning þjónustuútflutnings um 9,8% en jafnframt skiluðu hagstæðari vöruviðskipti og aukin sam- og einkaneysla jákvæðu framlagi. Þjóðarútgjöld, þ.e. samtala neyslu, fjármunamyndunar og birgðabreytinga, jukust um 1,2% að raungildi samanborið við 8,4% aukningu á milli 2021 og 2022.


Endurskoðun áður birtra hagtalna fyrir árin 2020-2022
Samhliða útgáfu landsframleiðslunnar fyrir árið 2023 hafa áður útgefnar tölur fyrir árin 2020-2022 verið endurskoðaðar. Hagvöxtur árið 2022 var þannig 8,9% í stað 7,2% í áður birtum tölum. Árið 2021 var vöxtur landsframleiðslunnar 5,1% (4,5%) og árið 2020 er nú áætlað að landsframleiðslan hafi dregist saman um 6,9% að raungildi frá fyrra ári samanborið við samdrátt upp á 7,2% í áður birtum tölum. Hér hefur mest áhrif endurskoðun á fjármunamyndun atvinnuveganna sem var töluvert vanmetin í fyrri útgáfum. Endurskoðun hagtalna byggir á uppfærðum og nákvæmari gögnum um fjármunamyndun aðgengilegum undir lok árs 2023. Einnig hafði endurskoðun á einkaneyslu og útflutningi minniháttar áhrif á áður útgefnar tölur.

Umskipti í utanríkisviðskiptum á fjórða ársfjórðungi
Þjónustuútflutningur var sem fyrr segir megindrifkraftur hagvaxtar á síðasta ári. Þó var skýr viðsnúningur á fjórða ársfjórðungi sem rekja má til eldsumbrota á Reykjanesi. Þjónustuútflutningur á fjórða ársfjórðungi dróst þannig saman um 5,5% að raunvirði eftir mikinn vöxt á fyrstu þremur ársfjórðungum. Á fjórða ársfjórðungi var einnig mikill samdráttur í vöruinnflutningi sem varð til þess að framlag vöru- og þjónustuviðskipta til landsframleiðslunnar var jákvætt á fjórðungnum.

Fyrir árið í heild var vöru- þjónustujöfnuður neikvæður um 2,2 ma.kr samanborið við 6,3 ma.kr halla árið 2022 sem skýrir jákvætt framlag utanríkisviðskipta til landsframleiðslunnar þrátt fyrir halla.


Verulegur samdráttur í einkaneyslu á fjórða ársfjórðungi
Einkaneysla dróst saman um 2,3% á fjórða ársfjórðungi að raunvirði frá sama tímabili árið áður og fyrir árið í heild er vöxturinn 0,5% samanborið við 8,3% vöxt árið þar á undan. Það er minnsti vöxtur einkaneyslunnar frá árinu 2010 að undanskildu árinu 2020 þegar kórónuveirufaraldurinn skall á. Þeir liðir einkaneyslunnar sem drógust hvað mest saman á fjórða ársfjórðungi tengjast kaupum á ökutækjum, matvöru, fatnaði og skóm og áfengi auk þess sem einkaneysluútgjöld vegna ferðalaga erlendis sýna áframhaldandi samdrátt. Innlend neysla dróst almennt saman og væntingar heimilanna voru svartsýnni.

Samneysla jókst um 2,9% á fjórða ársfjórðungi
Áætlað er að samneyslan hafi aukist um 2,2% að raungildi á liðnu ári samanborið við 2,3% vöxt árið 2022. Magnaukning samneyslunnar á fjórða ársfjórðungi 2023 mældist 2,9%. Nánar verður fjallað um fjármál hins opinbera í fréttatilkynningu sem Hagstofa Íslands birtir 14. mars næstkomandi.

Fjármunamyndun dregst saman
Fjármunamyndunin dróst saman um 0,6% að magni á milli ára samanborið við rúmlega 15% aukningu á árinu þar á undan. Sé litið til fjórða ársfjórðungs eingöngu nam samdráttur frá sama tímabili árið áður 7,6%. Hlutfall fjármunamyndunar í vergri landsframleiðslu er áfram hátt í sögulegu samhengi, um 23,7%. Eftir mikinn kraft í fjármunamyndun atvinnuvega árin 2021 og 2022 mælist aðeins 0,9% magnbreyting á síðasta ári. Fjármunamyndun árin 2021 og 2022 hækkar nokkuð frá fyrra mati, mest í fjárfestingu mannvirkja og bílaleigubílum. Fjármunamyndun í íbúðarhúsnæði er áætluð rúmir 195 ma.kr. á síðasta ári og mældist örlítill samdráttur í magni á milli ára upp á 0,3%. Þegar litið er til ársfjórðungsgagna kemur í ljós viðsnúningur á fjórða ársfjórðungi í fjármunamyndun íbúðarhúsnæðis eftir samfelldan samdrátt á ársfjórðungum þar á undan. Fullgerðum íbúðum í landinu fjölgaði um samtals 3.065 íbúðir á árinu 2023 samkvæmt gögnum frá HMS. Áætlað er að fjármunamyndun hins opinbera á síðasta ári hafi dregist saman um 6,1% að raunvirði borið saman við árið 2022.

Birgðaaukning í sjávarafurðum árið 2023
Árið 2023 hækkaði heildarverðmæti birgða um 29,6 milljarða króna á verðlagi ársins. Þar vegur mest birgðaaukning í sjávarafurðum. Þá mælist samdráttur í birgðastöðu olíu en álbirgðir, kísiljárn og aðrar rekstrarvörur jukust. Á fjórða ársfjórðungi minnkaði heildarverðmæti birgða um 4,7 milljarða króna á verðlagi ársins á milli samliggjandi ársfjórðunga sem að mestu má rekja til minni birgðastöðu sjávarafurða. Birgðastaða olíu dróst einnig saman en aukning á álbirgðum, kísiljárni og öðrum rekstrarvörum vó á móti.

Fjölgun vinnustunda 4,1% og starfandi einstaklinga 4,9% á milli ára
Áætlað er að heildarfjöldi unninna stunda á síðasta ári hafi aukist um 4,1% á milli ára og að starfandi einstaklingum hafi fjölgað um 4,9% á sama tímabili. Samanborið við fyrra ár er aukning vinnustunda meiri á fyrri hluta ársins, 5,2% samanborið við rúmlega 3,1% aukningu á seinni hluta ársins. Svipaða sögu er að segja um fjölda starfandi. Á fjórða ársfjórðungi er áætlað að heildarfjöldi unnina stunda hafi aukist um 2,1% miðað við sama ársfjórðung síðasta árs. Á sama tíma fjölgaði starfandi einstaklingum um 3,9%.

Endurskoðun áður birtra niðurstaðna
Almenna reglan við endurskoðun þjóðhagsreikninga er að við útgáfu árstalna, í febrúar og ágúst, séu niðurstöður þriggja ára opnar til endurskoðunar auk liðandi árs.

Framleiðsluuppgjörið
Talnaefni fyrir framleiðsluuppgjörið verður birt 14. mars næstkomandi.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang thjodhagsreikningar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.