FRÉTT UTANRÍKISVERSLUN 22. APRÍL 2009

Út er komið heftið Utanríkisverslun með vörur 2008. Í ritinu kemur m.a. fram að fluttar voru út vörur fyrir 466,9 milljarða króna en inn fyrir 473,5 milljarða króna fob, 514,7 milljarða króna cif. Halli var því á vöruskiptunum við útlönd sem nam 6,7 milljörðum króna. Útflutningur jókst um 53,0% frá fyrra ári á verðlagi hvors árs en innflutningur jókst um 19,9%. Hlutur sjávarafurða í útflutningi var 36,7% og iðnaðarvöru 52,1% en í innflutningi voru stærstu vöruflokkarnir hrá- og rekstrarvörur, fjárfestingarvörur og neysluvörur aðrar en mat- og drykkjarvörur. Stærstu viðskiptalönd voru Holland í útflutningi og Noregur í innflutningi og var EES þýðingamesta markaðssvæðið, jafnt í útflutningi sem í innflutningi.

Samhliða útgáfu heftisins eru birtar sundurliðaðar töflur með endanlegum tölum fyrir árið 2008 á vef Hagstofunnar. Auk þess hafa tölur fyrir innflutning árið 2007 verið leiðréttar og eru þær einnig birtar á vefnum. Athygli skal vakin á því að Hagstofan hefur tekið upp fjórðu endurskoðun SITC flokkunarinnar fyrir utanríkisverslun og eru tímaraðir aftur til ársins 1999 birtar samkvæmt henni.

Utanríkisverslun með vörur 2008 - Hagtíðindi

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.