Gagnasöfnun

Upplýsingar um utanríkisverslun vöru byggjast að mestu leyti á aðflutningsskýrslum innflytjenda og útflutningsskýrslum útflytjenda. Skýrslurnar eru tölvuskráðar hjá tollstjórum og hefur Hagstofan aðgang að gagnaskrám tollyfirvalda og sækir þangað upplýsingar með vélrænum hætti. Þessar upplýsingar eru yfirfarnar og leiðréttar eins og kostur er. Oft er haft samband við viðkomandi innflytjendur og útflytjendur til nánari útskýringa eða til leiðréttingar.
Víðar er leitað upplýsinga um utanríkisverslun vöru en af tollskýrslum. Má þar nefna að Siglingastofnun Íslands  (Skipaskrá) og Flugmálastjórn, Loftferðaeftirlit, gefa upplýsingar um kaup og sölu á flugvélum og skipum og er haft samband við hlutaðeigandi kaupendur og seljendur til nánari upplýsinga. Hagstofan sendir einnig út könnun til að afla upplýsinga um kaup og sölur á skipum og flugvélum sem koma ekki til landsins, ársfjórðungslega til stærri aðila og árlega til minni aðila. Siglingastofnun gefur upplýsingar um hvaða skip fara utan til breytinga. Í framhaldi af því er haft samband við fyrirtæki sem hlut eiga að máli til nánari upplýsinga. Sendar eru fyrirspurnir til fyrirtækja í viðkomandi atvinnugrein um endurbætur framkvæmdar af íslenskum fyrirtækjum á erlendum skipum.  
 

Um­fang

Hagstofan fylgir að mestu leiðbeiningum Sameinuðu þjóðanna um skilgreiningu og meðferð talnaefnis um utanríkisverslun vöru (United Nations: International Trade Statistics, Concepts and Definitions), þ.e. hvað er tekið með, hvernig og hvenær. Um er að ræða vöruviðskipti og er almenna skilgreiningin sú að allur innflutningur og útflutningur sem eykur eða skerðir efnislegar auðlindir lands á að teljast með í utanríkisverslunartölum. Venja er að greina á milli tvenns konar grundvallarreglna um skýrslur varðandi utanríkisverslun, almennra verslunarreglna (general trade system) og sértækra verslunarreglna (special trade system). Munur á þessum reglum felst aðallega í skráningu á vöru sem flutt er í tollvörugeymslu og á frísvæði. Samkvæmt almennu verslunarreglunum er vara skráð í utanríkisverslun sem innflutt þegar hún kemur inn í tollvörugeymslu/frísvæði, en samkvæmt sértæku verslunarreglunum er varan skráð þegar hún fer úr tollvörugeymslu/frísvæði inn í landið. Hérlendis er fylgt sértæku verslunarreglunum frá miðju ári 1998.
Dæmi um liði sem eru meðtaldir í íslenskum skýrslum um utanríkisverslun vöru:
-  Gull sem söluvara
-  Vörur sendar í pósti
-  Vörur sem fluttar eru inn í landið eða út úr landinu til frekari vinnslu
-  Ýmsar vörur með hátt hlutfall þjónustu (t.d. skipulagsteikningar, spólur, hugbúnaður o.s.frv.)
-  Skip og flugvélar í förum milli landa
-  Landanir erlendra fiskiskipa í innlendum höfnum
-  Landanir íslenskra fiskiskipa erlendis og einnig landanir hentifánaskipa erlendis, skipa í eigu Íslendinga
-  Vörur í eignaleigu (eitt ár eða lengur)
-  Endursendar vörur
-  Meiriháttar viðgerðir og endurbætur
 
Dæmi um liði sem ekki eru meðtaldir í íslenskum skýrslum um utanríkisverslun vöru:
-  Vörur sem koma til landsins en flytja á áfram (transit)
-  Tímabundinn innflutningur og útflutningur (t.d. fyrir ýmiss konar sýningar)
-  Eldsneyti, vistir og önnur aðföng keypt erlendis fyrir íslensk skip eða flugvélar
-  Ólögleg verslun
-  Vörur frá ríkisstjórn til sendiráða og fulltrúa ríkisins erlendis og aðsendar vörur til sendiráða og fulltrúa erlendra ríkja innanlands
-  Gull til myntsláttu
-  Vörur í afnotaleigu (innan við eitt ár)
-  Vörur til viðgerða
-  Verðlítil sýnishorn
-  Afli sem skip í eigu Íslendinga landar í íslenskri höfn

 

Flokkun

Tollskrárnúmer

Flokkun vörutegunda í utanríkisverslun vöru byggist á tollskrá. Núgildandi tollskrá tók gildi hinn 1. janúar 1988 skv. lögum nr. 96/1987 um breyting á tollalögum nr. 55/1987. Tollskráin byggist á hinni alþjóðlegu vöruflokkunarskrá Tollasamvinnuráðsins í Brussel. Alþjóðlega skráin er nefnd Hið samræmda flokkunarkerfi og er þekkt undir skammstöfuninni HS eftir hinu enska heiti sínu (the Harmonized Commodity Description and Coding System). HS-skráin var viðtekin með samningi Tollasamvinnuráðsins í Brussel í júní 1983 og gefin út árið 1985. Íslendingar voru aðilar að þessum samningi og var hann fullgiltur af Íslands hálfu í júní 1986. HS-skráin tók gildi í flestum aðildarríkjum Tollasamvinnuráðsins frá og með 1. janúar 1988. Samkvæmt gildandi tollalögum er heimilt að breyta einstökum tollskrárnúmerum með auglýsingu um breytingu á viðauka I við lögin. Slíkar breytingar, misjafnlega umfangsmiklar, hafa verið gerðar á hverju ári, m.a. til samræmis við breytingar á HS-skránni.
 
HS-skráin er sex stafa flokkunarkerfi þar sem tveir fyrstu stafirnir mynda kafla frá 01–97 og eru vörur flokkaðar innan þessa flokkunarkerfis eftir efni þeirra. Þau ríki sem hafa undirritað samninginn um upptöku þessa samræmda kerfis hafa skuldbundið sig til þess að fylgja þessu sex stafa kerfi, en þeim er frjálst að beita nákvæmari flokkun með fleiri stöfum. Flest ríki sem tekið hafa HS-skrána í notkun, nota fleiri stafi en sex og sum allt að tíu.  Íslenska tollskráin er átta stafa skrá þar sem HS-skránni er fylgt á sex stafi en í ýmsum tilvikum eru síðustu tveir stafirnir notaðir til nákvæmari flokkunar miðað við íslenskar þarfir. HS-skráin telur alls rösklega 5.000 vörunúmer en í íslensku tollskránni eru um 8.000 tollskrárnúmer. Ítarleg sundurliðun útflutnings og innflutnings eftir tollskrárnúmerum er birt í á vef Hagstofunnar.
 

SITC vöruflokkar (Standard International Trade Classification)

Alþjóðleg vöruskrá Hagstofu Sameinuðu þjóðanna (Standard International Trade Classification, SITC) er sundurliðun eftir vörudeildum og vöruflokkum. Þessi skrá er ætluð til hagskýrslugerðar og miðast við það að unnt sé að skipa skyldum vörum saman í flokka og deildir. Í tengslum við samningu HS-skrárinnar var SITC-skráin endurskoðuð í þriðja sinn. Sjálf vöruskráin hélst að mestu óbreytt og endurskoðunin fólst aðallega í samningu einhlíts lykils milli HS-skrárinnar og SITC-skrárinnar. Hagstofan tók upp þriðju endurskoðun SITC-skrárinnar í ársbyrjun 1988 um leið og ný tollskrá tók gildi og tók upp fjórðu endurskoðun í ársbyrjun 2008. Flokkun SITC-skrárinnar er eftirfarandi:
                         10    eins stafs vörubálkar    
                         67    tveggja stafa vörudeildir           
                        261   þriggja stafa vöruflokkar
                     1.033   fjögurra stafa undirflokkar
                     3.118   fimm stafa vöruliðir       
Ítarleg sundurliðun útflutnings og innflutnings eftir SITC-númerum er birt á vef Hagstofunnar.

 

Vörutegundir

Á árinu 2001 var hin séríslenska svokallaða Hagstofuflokkun felld niður en í staðinn tekin upp flokkun eftir vörutegundum. Hin nýja flokkun Hagstofunnar eftir vörutegundum sýnir sundurliðun útflutnings eftir sjávarafurðum, landbúnaðarvörum, iðnaðarvörum og öðrum vörum eins og Hagstofuflokkunin gerði. Nýja flokkunin er hrein vörutegundaflokkun eftir því sem við verður komið, en Hagstofuflokkunin var sambland af flokkun vörutegunda og vinnslugreina. Sem dæmi um nýju flokkunina má nefna að sjávarafurðum er nú skipt eftir fisktegundum þannig að hún gefur nú upplýsingar um útflutning hverrar tegundar án tillits til þess hvernig hún var unnin. Eftir þessar breytingar er flokkun eftir vörutegundum byggð upp á þann hátt að hana má tengja við flokkun útflutnings eftir vinnslugreinum. Ítarleg sundurliðun útflutnings eftir Hagstofuflokkun er birt á vef Hagstofunnar. 

Vinnslugreinar


Á árinu 2001 var flokkun útflutnings eftir vinnslugreinum endurskoðuð og henni breytt talsvert, einkum þannig að hún er nú mun sundurgreindari en áður. Þessi flokkun er séríslensk. Eftir þessar breytingar er flokkun eftir vinnslugreinum byggð upp á þann hátt að hana má tengja við flokkun útflutnings eftir vörutegundum. Þessa framsetningu útflutnings má finna á vef Hagstofunnar.

 

Hagræn flokkun (BEC)

Í verslunarskýrslum áranna 1969-1987 var innflutningur flokkaður eftir svonefndum notkunarflokkum, þ.e. í neysluvöru, rekstrarvöru og fjárfestingarvöru. Þessi flokkun var séríslensk. Hún var felld niður árið 1988 en í stað hennar var tekin upp hagræn flokkun Hagstofu Sameinuðu þjóðanna (Classification by Broad Economic Categories, BEC). Þessi flokkun er mjög einföld í uppsetningu, þar sem hún skiptist alls í 19 flokka sem dregnir eru saman í 7 aðalflokka. Í útgáfu Hagstofunnar um utanríkisverslun er bætt við tveimur flokkum fyrir skip og flugvélar. Ítarleg sundurliðun útflutnings og innflutnings eftir hægrænni flokkun er birt á vef Hagstofunnar.

  

Lönd

Við skilgreiningu á löndum fylgir Hagstofan hinum alþjóðlega staðli ISO-3166.
 
Öll landaskipting miðast við neyslulönd hvað útflutning snertir og framleiðslulönd fyrir innflutning. Þannig er leitast við að greina endanlegan áfangastað útfluttrar vöru og upprunaland innfluttrar vöru en ekki kaup- eða söluland eða það land sem útflutningurinn fer til eða innflutningurinn kemur frá. Fyrir kemur að útflytjanda eða innflytjanda er ókunnugt um endanlegt móttökuland eða upprunaland vörunnar og verður þá að skrá á skýrslu það land sem útflutningurinn fer til eða innflutningurinn kemur frá í stað notkunarlands eða upprunalands.

 

Verð­reikningur

Verðmæti innfluttrar vöru er ýmist sýnt á cif-verði eða fob-verði en verðmæti útflutnings á fob-verði eingöngu. Með fob-verði (free on board) er átt við verð vörunnar komið um borð í flutningsfar í útflutningslandi. Í cif-verði (cost, insurance, freight) er einnig talinn sá kostnaður, sem fellur á vöruna þar til henni er skipað upp í innflutningslandi. Er hér aðallega um að ræða flutningsgjald og vátryggingu. Í hagskýrslum um utanríkisverslun vöru er venjan sú að innflutningur vöru er talinn á cif-verði en útflutningur vöru á fob-verði og er þeirri venju fylgt almennt. Hinsvegar, vegna þjóðhagsreikningagerðar svo og ýmiss konar tölfræðilegrar greiningar er innflutningur vöru birtur í fréttatilkynningum og í ýmsum töflum á fob-verði. Sem fyrr segir er verðmæti útflutnings vöru talið á fob-verði, þ.e. á söluverði vörunnar með umbúðum þegar hún er komin um borð í flutningsfar á þeim stað er hún fer fyrst frá. Eðli málsins samkvæmt á þó þessi regla ekki við um ferskan fisk sem seldur er í erlendum höfnum. Við verðákvörðun þessarar vöru eru frá brúttósöluverði eru dregnir tilteknir kostnaðarliðir, mismunandi eftir löndum. Hér er um að ræða löndunarkostnað og hafnargjöld, toll og sölukostnað samkvæmt upplýsingum frá Fiskistofu.


Tölur um verðmæti útflutnings og innflutnings vöru eru fengnar með því að umreikna verðmæti vörunnar í erlendum gjaldeyri til íslenskra króna miðað við daglegt miðgengi viðkomandi gjaldmiðils. Viðmiðunargengið er svokallað tollgengi sem er hið opinbera gengi skráð af Seðlabanka Íslands síðasta virka dag á undan tollafgreiðsludegi. Varðandi útflutning gildir einnig sú regla að ekki skal nota nýrra gengi en í gildi er á brottfarardegi flutningsfars ef tollskýrsla er gerð og tollafgreidd eftir brottfarardag.

 

Magn

Með magni innflutnings og útflutnings er átt við nettóþyngd (þ.e. þyngd án umbúða) hans í tonnum nema annað sé tilgreint sérstaklega. Í birtingu Hagstofunnar á utanríkisverslun eftir tollskrárnúmerum eru í nokkrum tilvikum magntölur tilgreindar í öðrum einingum, þ.e. rúmmetrum (timbur), stykkjum (hross, ýmis fatnaður, bílar, skip, flugvélar o.fl.), pörum (skófatnaður) eða lítrum (áfengi).

 

Sjá einnig lýsigögn um utanríkisverslun.