Hagstofa Íslands starfar samkvæmt  lögum um Hagstofu Íslands og opinbera hagskýrslugerð. Starf Hagstofunnar er einnig  í samræmi við samþykktir Sameinuðu þjóðanna um grundvallarreglur um opinbera hagskýrslugerð og meginreglur í hagskýrslugerð. Starfsfólk Hagstofu Íslands gætir trúnaðar í samræmi við lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, ennfremur hefur Hagstofan sett sér eigin reglur um meðferð trúnaðargagna. Loks tekur Hagstofan þátt í samstarfi ríkja innan evrópska efnahagssvæðisins um hagskýrslugerð og fer þar eftir reglugerð ESB um evrópskar hagskýrslur.

Allar upplýsingar sem Hagstofa Íslands safnar til hagskýrslugerðar og snerta einstaklinga eða lögaðila er farið með sem trúnaðargögn. Við birtingu og miðlun hagskýrslna er komið í veg fyrir að rekja megi upplýsingar til einstaklinga eða lögaðila. Hagstofa Íslands er með vottað stjórnkerfi upplýsingaöryggis í samræmi við staðalinn ISO/IEC 27001, en sú vottun nær til allrar starfsemi stofnunarinnar. Aðeins þeir sérfræðingar sem vinna að viðkomandi rannsókn hafa aðgang að gögnunum og eru þeir bundnir þagnarskyldu og hafa undirritað trúnaðarheit.

Hagstofa Íslands leggur áherslu á að tryggja að öll meðferð persónuupplýsinga sé í samræmi við ákvæði laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

Hægt er að hafa samband við persónuverndarfulltrúa Hagstofu Íslands með því að senda tölvupóst á personuvernd@hagstofa.is eða í síma 528-1000.

Spurt og svarað um persónuvernd