Vísitala neysluverðs er mæling á verðlagi einkaneyslu og byggir á lögum nr. 12/1995 með síðari tíma breytingum. Vísitala neysluverðs er fastgrunnsvísitala en það þýðir að búin er til ákveðin karfa sem inniheldur vörur og þjónustu og verð hennar er mælt mánaðarlega. Breytingar á verði körfunnar eru svo notaðar til að uppfæra vísitöluna. Innihald körfunnar er uppfært einu sinni á ári og þá er stuðst við rannsókn Hagstofunnar á útgjöldum heimilanna ásamt öðrum heimildum. Endurnýjun körfunnar veldur sem slík ekki breytingum á vísitölunni á milli mánaða.

Grunnur vísitölunnar er byggður á útgjaldarannsóknum Hagstofunnar ásamt öðrum heimildum. Frá því árið 2000 hefur útgjaldarannsóknin verið samfelld, þ.e. hún er gerð ár hvert og stendur allt árið. Grunnur vísitölunnar er endurnýjaður einu sinni á ári. Grunnurinn tekur mið af neyslu fólks sem býr á Íslandi en ekki neyslu ferðamanna sem sækja landið heim.

Í lögum um vísitölu neysluverðs er kveðið á um að Hagstofan ákveði grunn vísitölunnar út frá útgjaldarannsókn og þeim gögnum sem tiltæk eru og ákveði þær aðferðir sem beitt er við útreikninginn. Tekið er mið af alþjóðlegum leiðbeiningum og reglugerðum Evrópusambandsins. Hagstofa Íslands hefur frá árinu 1992 tekið þátt í umfangsmiklu samstarfi um aðferðafræði með helstu vísitölusérfræðingum heims og útreikningur vísitölunnar miðast við þær aðferðir sem helst er mælt með.

Vísitala neysluverðs mælir ekki breytingu á magni í vörukörfunni heldur verðbreytingar á þeirri vöru og þjónustu sem í henni er. Samdráttur eða aukning í neyslu heimila hefur því ekki bein áhrif á niðurstöður vísitölumælinga. Hins vegar hefur langtímabreyting á neyslu áhrif á vogirnar þ.a. aukin neysla í einum lið umfram aðra leiðir til þess að verðbreytingar í þeim lið fá aukið vægi í vísitölunni.

Þegar verð á vörum og þjónustu hækkar heilt yfir nefnist það verðbólga. Verðbólga er skilgreind sem viðvarandi hækkun almenns verðlags og er mæld hér á landi sem breyting vísitölu neysluverðs síðustu 12 mánuði.

Kveðið er á um það í lögum um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 að heimilt sé að verðtryggja sparifé og lánsfé sé miðað við vísitölu neysluverðs með tveggja mánaða seinkun.

Þegar verðtrygging fjárskuldbindinga var tekin upp með lögum árið 1979 birti Seðlabanki Íslands samsetta lánskjaravísitölu sem byggð var á gildandi framfærsluvísitölu og byggingarvísitölu. Þessari aðferð var breytt árið 1989 er launavísitölu var bætt við. Árið 1995 voru sett lög um vísitölu neysluverðs nr. 12/1995 og leysti hún vísitölu framfærslukostnaðar af hólmi. Þá var jafnframt ákveðið með lögum um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 að nota einungis vísitölu neysluverðs til verðtryggingar.

Vísitala neysluverðs til verðtryggingar er vísitala neysluverðs með 2ja mánaða seinkun.

Ástæða þessarar 2ja mánaða seinkunar er sú að vísitala neysluverðs er alltaf gefin út í lok hvers mánaðar en oft er verið að nota hana til að verðtryggja greiðslur sem eiga að fara fram í byrjun mánaðarins. Til þess að gildi vísitölunnar sem á að nota sé þekkt með góðum fyrirvara er því notað 2ja mánaða gamalt gildi. Þannig er t.d. gildi vísitölunnar sem á að nota til verðtryggingar í maí í raun gildi vísitölunnar sem var reiknað og gefið út í lok mars.

Formúlan fyrir verðuppfærslu er

Formúla fyrir verðuppfærslu

þar sem upphæðgömul  og vísitalagömul  eru upphæðin og gildi vísitölunnar á þeim tíma sem samningurinn var gerður en vísitala er gildi vísitölunnar á þeim tíma sem ætlunin er að verðuppfæra til.

Dæmi:

Pétur er með samning frá janúar 2022 þar sem 100.000 kr. upphæð er tengd við vísitölu neysluverðs til verðtryggingar. Hversu há er upphæðin í mars 2023?

Með því að fletta upp í töflu um vísitöluna fæst að gildi hennar í janúar 2022 var 513,0 og gildið í mars 2023 var 569,4.

Því fæst að uppfærð upphæð er (formúla).

Formúla fyrir verðuppfærslu

Finna má verðlagsreiknivél á vef Hagstofunnar þar sem byggð er á birtum gildum vísitölu framfærslukostnaðar og vísitölu neysluverðs.

Hagstofan veitir ekki ráðgjöf við samningagerð og sér ekki um útreikning á upphæðum samninga. Hér á síðunni er hins vegar hægt að fá upplýsingar um lög um verðtryggingu, hvaða vísitölur Hagstofan reiknar og hvernig á að verðuppfæra vísitölutengdar upphæðir.

Mæling á HICP nær til allrar neyslu á Íslandi, þ.e.a.s. hún tekur líka tillit til neyslu erlendra ferðamanna hér á landi en takmarkast ekki við neyslu þeirra sem búa á Íslandi eins og í VNV. Auk þess eru nokkrir liðir í VNV sem eru ekki inni í HICP en þeirra stærstur er „042 Reiknuð húsaleiga“. Þetta hefur þau áhrif að þó svo VNV og HICP byggi á sömu verðmælingum þá er vægi einstakra liða í vísitölunum ekki það sama.

Áhrifin koma fram í öllum neysluflokkum en eru sýnilegust í flokki „042 Reiknuð húsaleiga“ og í flokkum þar sem ferðamenn hafa mikið vægi, s.s. í flokki „11 hótel og veitingastaðir“.

Talan fyrir framan nafn undirflokksins vísar í stöðu hans í neysluflokkunarkerfinu COICOP. Í vísitölu neysluverðs eru notaðir tólf aðalflokkar úr kerfinu, fyrsti flokkurinn er „01 Matur og drykkur“, annar flokkurinn er „02 Áfengi og tóbak“, sá þriðji „03 Föt og skór“ o.s.frv. Þessi flokkar hafa númer frá 01 upp í 12 og þau eru fremst í tölunni fyrir framan nafn flokksins.

Hverjum þessara tólf flokka er svo skipt upp í undirflokka sem fá númerin 1,2,3, …, 9 og það númer kemur næst á eftir fyrstu tveimur tölunum. Þannig skiptist t.d. „01 Matur og drykkur“ í tvo undirflokka „011 Matur“ og „012 Drykkur“. Hver þessara undirflokka skiptist svo í undir-undirflokka o.s.frv.

Þannig getur maður t.d. lesið úr númerinu „01124 Lambakjöt, nýtt eða frosið“ að hann sé einn af undirflokkunum í „0112 Kjöt“ og sá flokkur sé einn af undirflokkunum í „011 Matur“.

Mynd sem sýnidr undirflokka vísitölu neysluverðs

Yfirlit yfir efstu flokkana í flokkunarkerfinu.

Orðið húsnæðisliður hefur verið notað í mismunandi merkingu í umræðunni þ.a. oft þarf að lesa í samhengi til að vita hvað er átt við. Hér eru helstu dæmin um þessa notkun.

Gögnum í vísitölu neysluverðs er skipt í tólf flokka, fjórði flokkurinn nefnist „04 Húsnæði, hiti og rafmagn“ og er stundum kallaður húsnæðisliðurinn.

Þessi flokkur skiptist svo í undirflokka eins og sést í eftirfarandi töflu:

Tafla um 04 Húsnæði, hiti og rafmagn

Liður „042 Reiknuð húsaleiga“ hefur mikið verið í umræðunni og stundum er átt við hann þegar talað er um húsnæðisliðinn.

Hagstofan gefur út vísitölu sem nefnist vísitala neysluverðs án húsnæðis og þá er öllum undirliðum 04 sleppt nema „045 Hiti og rafmagn“. Þ.a. „án húsnæðis“ þýðir í þessu samhengi án liða 041, 042, 043 og 044.

Vísitalan án húsnæðis er án greiddrar og reiknaðrar leigu (liða 041 og 042), viðhalds og viðgerða á húsnæði (043) og án annarra gjalda v/húsnæðis (044).

Greidd húsaleiga er það sem við í daglegu tali köllum leigu, reiknuð leiga er hins vegar ekki upphæð sem skiptir um hendur heldur mat á fórnarkostnaðinum sem fylgir því að búa í eigin húsnæði. Þannig mætti á óformlegan hátt segja að greidd húsaleiga tilheyri þeim sem eru á leigumarkaði en reiknuð húsaleiga þeim sem búa í eigin húsnæði.

Greidd húsaleiga er reiknuð samkvæmt lagskiptu líkani. Það er skipting í landfræðileg svæði (tvö), tegund leigusala og stærð íbúða (fjöldi herbergja).

Reikningar eru byggðir á mánaðarlegum húsaleigugögnum frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) vegna húsnæðisbóta. Í hverjum mánuði byggja reikningarnir yfirleitt á um 14 þúsund samningum.

Reiknuð húsaleiga er liður 042 í neysluflokkunarkerfinu sem er notað í vísitölu neysluverðs. Litið er svo á að fólk sem býr í eigin húsnæði njóti sambærilegrar þjónustu af húsnæðinu og fólk sem býr í leiguhúsnæði. Við búsetu í eigin húsnæði er búsetukostnaðurinn óbeinn þar sem ekki fara fram eiginlegar greiðslur. Þess vegna er búsetukostnaðurinn metinn. Aðferðin sem notuð er frá júní 2024 nefnist húsaleiguígildi en hún er önnur tveggja aðferða sem samræmast kröfum þjóðhagsreikninga til mælinga á einkaneyslu. Hin aðferðin nefnist notendakostnaður og var hún notuð þar til í maí 2024.

Í hverjum mánuði er húsaleiga metin fyrir sérhvert íbúðarhúsnæði sem er ekki í útleigu (eigið húsnæði) út frá öllum markaðsleigusamningum sem upplýsingar eru til um og eru í gildi á þeim tíma. Leigusamningarnir eru fengnir úr leigugrunni HMS. Til að meta reiknuðu húsaleiguna er notuð aðferð sem nefnist „næsti nágranni“. Aðferðin virkar þannig að fyrir sérhvert eigið húsnæði eru fundnir leigusamningar fyrir 30 eignir sem eru líkastar eigninni sem meta á leiguna fyrir. Meðalfermetraverðið í þeim samningum er svo notað sem fermetraverð fyrir reiknuðu leiguna í því húsnæði sem verið er að meta. Breytur sem tekið er tillit til þegar metið er hvaða eignir teljast líkar eru eftirfarandi: fermetrar, staðsetning (lengdar- og breiddargráða), verðsvæði, fasteignamat, byggingarár.

Svæðin eru þrjú, höfuðborgarsvæðið, sveitarfélög í nálægð við höfuðborgarsvæðið ásamt Akureyri og önnur sveitarfélög. Fermetrar hafa mest vægi.

Heildarleigan fyrir eigið húsnæði er svo borin saman við heildarleiguna fyrir sama húsnæði í mánuðinum á undan og breytingin þar á milli er þá breytingin á liðnum reiknuð leiga.

Markaðsverð fæst úr kaupsamningum sem HMS safnar saman frá sýslumannsembættunum. Í hverjum mánuði eru notaðir kaupsamningar þriggja síðustu mánaða þ.e. t.d. í júní eru notaðir samningar frá mars, apríl og maí. Einungis eru teknir kaupsamningar þar sem kaupendur eru einstaklingar. Kaupsamningum er skipt í flokka eftir eftirfarandi skilyrðum:

Staðsetning (tveir flokkar á höfuðborgarsvæðinu og einn á landsbyggðinni).

Tegund húsnæðis (sérbýli eða fjölbýli).

Stærð (4-5 flokkar, eftir tegund og staðsetningu).

Í heild eru þetta 26 flokkar þar sem einn þeirra er t.d. ‚sérbýli á landsbyggðinni í stærðarflokknum 110-149 fermetrar‘. Reiknuð er verðbreyting fyrir flokka húsnæðis innbyrðis en ekki á milli tegunda eigna, stærða eða landshluta. Niðurstöður fyrir hvern flokk eru svo vegnar saman í eina vísitölu með vogum sem byggja á verðmæti kaupsamninga síðustu 3ja ára.

Verð á flugmiðum er mælt hjá ýmsum flugfélögum sem fljúga allt árið til vinsælustu áfangastaða í Evrópu og N-Ameríku. Verðið er mælt í vikutíma, með 2ja, 4ra og 8 vikna fyrirvara og mælingarnar eru notaðar til útreikninga í þeim mánuði sem ferðin á sér stað. Miðað er við ódýrasta flugið sem er í boði hjá hverju flugfélagi á hverjum degi en ýmis aukaþjónusta sem hægt er að kaupa á seinni stigum kaupferils eins og t.d. að kaupa sérstök sæti eða máltíð er ekki mæld.

Verð á hótelgistingu er mælt hjá hótelum víðs vegar um Ísland. Mælt er verð fyrir gistingu í eina nótt í tveggja manna standard herbergi með eins, tveggja og fjögurra mánaða fyrirvara og mælingarnar eru notaðar til útreikninga í þeim mánuði sem gist er.