Hagstofa Íslands er miðstöð opinberrar hagskýrslugerðar í landinu og gegnir forystuhlutverki í framleiðslu á traustum hagtölum með áherslu á öryggi í meðferð trúnaðarupplýsinga. Áhersla er jafnframt lögð á að ná til notenda og uppfylla þarfir þeirra fyrir upplýsingar.

Helsta markmiðið er að auðvelt sé að nálgast upplýsingar og að þær séu auðskiljanlegar.

Hagstofan leggur áherslu á gæði samkvæmt meginreglum evrópskar hagskýrslugerðar og setur upplýsingar í samhengi til að auka virði þeirra fyrir notendur.

Aðgengi og notkun upplýsinga

Hagstofan leggur áherslu á að notendur geti aflað sér upplýsinga á einfaldan hátt með þeim tækjum og miðlum sem best henta hverju sinni. Vefur Hagstofu Íslands https://hagstofa.is er helsti samskiptamiðill stofnunarinnar. Útgáfur Hagstofu Íslands eru aðgengilegar notendum að kostnaðarlausu, nema um sé að ræða sérvinnslur samkvæmt gjaldskrá Hagstofunnar, og prentað efni. Öllum er heimild afnot af efni Hagstofunnar en geta skal heimildar.

Aðgangur rannsóknaraðila

Gerður er greinarmunur á samskiptum við notendur upplýsinga og aðgangi rannsóknaraðila, þ.e. háskóla og annarra greiningaraðila að örgögnum. Rannsóknarþjónusta Hagstofunnar veitir viðurkenndum rannsóknaraðilum aðgang að örgögnum með öruggum hætti í gegnum rafrænt rannsóknarumhverfi Hagstofunnar. Um allan slíkan aðgang gilda strangar öryggis- og trúnaðarreglur.

Fjölbreyttar útgáfur

Hagstofan útbýr birtingaráætlun til eins árs í senn. Áætlunin nær yfir allar helstu útgáfur Hagstofunnar. Auk þess birtir Hagstofan fréttir um málefni líðandi stundar, og birtar rannsóknir til að bregðast við auknum þörfum notenda. Útgáfur eru birtar öllum notendum samtímis. Lögð er áhersla á hnitmiðaða og myndræna framsetningu gagna

Skýr samskipti

Starfsfólk Hagstofunnar viðhefur fagmennsku, trúnað og þjónustulund í samskiptum. Formleg samskipti við fjölmiðla skulu ávallt vera í samráði við sviðsstjóra eða hagstofustjóra. Hagstofustjóri tekur ákvörðun um hver kemur fram opinberlega fyrir hönd Hagstofu Íslands.

Samskiptastefnan tekur mið af gildum og stefnu Hagstofu Íslands.

Samskiptastefna Hagstofu Íslands (PDF)