Tilraunatölfræði


Sala eldsneytis frá eldsneytisstöðvum

Samantekt

Tölfræðin sem birt er hér sýnir áætlað rúmmál eldsneytis sem tekið er af söludælum og notað í vegasamgöngur á Íslandi eftir árum og mánuðum. Rúmmál eldsneytis er greint niður eftir því hvort um er að ræða bensín eða dísilolíu. Ekki er gerð áætlun fyrir sölu metans, vetnis eða steinolíu. Einnig er gerður greinarmunur á því hvort greitt var fyrir eldsneytið með greiðslukorti eða hvort viðskiptin voru með beingreiðslu, peningum eða öðru fyrirkomulagi. Kortaveltu er skipt niður eftir því hvort útgáfuland korts var Ísland eða annað land.

Lýsing

Upplýsingar eru birtar um greiningu á gögnum sem berast frá íslenskum færsluhirðum. Eldsneytisverð hverju sinni byggir á upplýsingum vísitöludeildar og upplýsingum sem birtar eru á vef eldsneytissala. Heildarrúmmál eldsneytis sem selt er til vegasamgangna er reiknað út frá eldsneytisskatti sem ríkið innheimtir og magni sem Orkustofnun gefur út varðandi eldsneytismagn af dælu. Samanlagt magn fyrir þau ár sem vantar í ríkisreikning (nýjustu ár) er metið út frá innflutningi eldsneytis og samhengi innflutnings og dreifingar fyrir undangengin ár.

Umreikningur á veltu á bensínstöðvum yfir í rúmmál eldsneytis gerir ráð fyrir að eldsneyti sé selt án afsláttar. Mismunur á rúmmáli sem nemur afslætti reiknast inn í flokkinn „utan kortaveltu“. Gert er ráð fyrir að velta bensínstöðva sé fyrst og fremst vegna sölu eldsneytis og að hverfandi hluta vegna sölu annarra vara (greining bendir til þess að þessi hlutur sé undir 2% að meðaltali hjá bensínstöðvum sem eru ekki eingöngu sjálfsalar).

Allt eldsneyti sem reiknast vegna kortaveltu er dregið frá heildarmagni eldsneytis sem skráð er í ríkisreikningi. Eldsneyti sem eftir stendur er merkt sem „utan kortaveltu“. Þar er gert ráð fyrir að greitt hafi verið með reiðufé, með beinum reikningsviðskiptum (t.d. fyrirtækjadælu) eða á annan máta sem fer ekki í gegnum íslenska færsluhirða.

Markmið

Birting á tímanlegum gögnum um eldsneytissölu gefur betri mynd af því hvernig akstur og samgöngur eru að þróast. Gert er ráð fyrir að gögnin verði uppfærð ársfjórðungslega. Gögnunum er ætlað að svara spurningum á borð við:

  1. Hversu stór hluti af eldsneyti er líklegt að sé keyptur af erlendum ferðamönnum?
  2. Hvernig breytist hlutfall bensíns og dísilolíu á tímum þegar bílaflotinn er að breytast?

Sala á eldsneyti í september um 13% minni en í fyrra

Síðast uppfært: 13. nóvember 2020

Eldsneytissala í september 2020 var um 28,2 þúsund rúmmetrar samkvæmt bráðabirgðatölum. Þessi sala er umtalsvert minni (13,6%) en salan í september 2019 sem var 32,6 þúsund rúmmetrar. Stór hluti eldsneytissölu í fyrra var á erlend greiðslukort, eða um 18%, á meðan að aðeins um 2% af sölu þessa árs hefur verið með þeim greiðslumáta. Samanlögð sala fyrir utan erlend greiðslukort var því 27,7 þúsund rúmmetrar í september í ár sem er 3,5% meiri sala en í september í fyrra (26,7 þúsund rúmmetrar).

Mikill samdráttur varð í eldsneytissölu á erlend kort í tengslum við ástandið sem skapast hefur vegna kórónuveirufaraldursins (Covid-19). Til samanburðar var hlutfall af rúmmáli eldsneytis sem selt var á erlend kort á bilinu 15-20% yfir sumarmánuðina í fyrra en var á bilinu 0,5-7,7% í sumar. Íslendingar ferðuðust hins vegar mikið innanlands þannig að samanlögð sala fyrir utan erlend greiðslukort í sumar (maí-ágúst) var 140,9 þúsund rúmmetrar sem er 17,6% meiri sala en hún var fyrir sama tímabil í fyrra (119,8 þúsund rúmmetrar). Heildarsala það sem af er árinu 2020 er um 1,9% minni en fyrir sama tímabil í fyrra.


Talnaefni

Eldsneytissala af söludælum eftir mánuðum 131120 (xlsx)


Lýsigögn

Við mat á heildarmagni eldsneytis var litið til eldsneytisgjalds sem innheimt var samkvæmt ríkisreikningi, tölum Orkustofnunnar um eldsneytisdreifingu og innflutningi eldsneytis. Rúmmál eldsneytis sem selt er á greiðslukort notar áætlað verð á bensínstöðvum fyrir hvern dag fyrir sig en notað er eitt verð fyrir bensín og eitt fyrir dísilolíu. Ekki er gerð áætlun fyrir sölu metans, vetnis eða steinolíu. Mánaðarsala utan kortaveltu er metin út frá veltutölum fyrirtækja sem byggja á rekstri ökutækja og veltu á greiðslukortum.

Nánari lýsigögn


Öllum eru heimil afnot af tilraunatölfræði Hagstofu Íslands. Vinsamlegast getið heimildar.
Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1278. Netfang: Thorsteinn.Adalsteinsson@hagstofa.is