Markmið stefnu um samstarf í íslenskri hagskýrslugerð er að styðja við stefnu- og verkefni Hagstofu Íslands með árangursríkara samstarfi við hagsmunaðila íslenskrar hagskýrslugerðar.

Hlutverk Hagstofu Íslands

Hagstofan skal samkvæmt lögum um Hagstofu Íslands og opinbera hagskýrslugerð annast samræmingu opinberrar hagskýrslugerðar sem hún og aðrar ríkisstofnanir sinna. Samræming þessi tekur til verkefna og aðferða við hagskýrslugerðina, þar á meðal til notkunar staðla og flokkunarkerfa, skilyrða um gæði og birtingu svo og um meðferð gagna sem safnað er til tölfræðilegrar úrvinnslu.

Samstarf Hagstofu og annarra opinberra hagskýrsluframleiðenda

Aðrir opinberir hagskýrsluframleiðendur eru opinberir aðilar sem eru viðurkenndir af Hagstofu Íslands sem sá aðili sem framleiðir ákveðna tölfræði fyrir Ísland. Sömu kröfur gilda um hagskýrslugerð annarra opinberra aðila og um Hagstofu Íslands.

Hagstofan skal veita öðrum hagskýrsluframleiðendum bæði faglegan og stjórnsýslulegan stuðning til að tryggja að hagskýrsluframleiðsla þeirra standist meginreglur í evrópskri hagskýrslugerð (CoP). Hagstofan styður aðra framleiðendur í uppbyggingu á hagskýrslugerð þeirra, miðlar til þeirra upplýsingum og aðstoðar við styrkumsóknir. Aðrir framleiðendur skulu svara fyrir og taka ábyrgð á eigin framleiðslu og tryggja að hún uppfylli gæðakröfur. Ávallt skal hafa að leiðarljósi að aðilar hafi gagnkvæman hag af samstarfinu og skulu aðilar undirrita samstarfssamninga til að skilgreina nánar hvernig samstarfinu skuli háttað.

Samstarf Hagstofu og helstu gagnaveitenda

Helstu gagnaveitendur eru hér skilgreindir sem þeir opinberu aðilar sem veita aðgang að stjórnsýslugögnum til hagskýrslugerðar. Hagstofan hefur ríkar heimildir til að afla gagna auk þess sem löggjafinn ætlast til að tekið sé tillit til þarfa opinberrar hagskýrslugerðar við gerð stjórnsýsluskráa. Helstu gagnaveitendur eru því mikilvægir samstarfsaðilar hagskýrsluframleiðenda.

Hagstofan skal miðla upplýsingum til helstu gagnaveitenda sinna til að gefa skýrari mynd af gagnaþörfum sínum og auka skilning á mikilvægi gagnanna. Hagstofan skal eiga frumkvæði að skipulegu upplýsingaflæði gagnvart sínum helstu gagnaveitendum og skal allt samstarf miðast að því að báðir aðilar hafi hag af. Stofna skal til formlegs samráðsvettvangs með helstu gagnaveitendum.

Alþjóðlegt samstarf

Hagstofan tekur þátt í alþjóðlegu hagskýrslusamstarfi fyrir hönd Íslands. Hagstofan fer með alþjóðlegar skuldbindingar Íslands á sviði hagskýrslugerðar og gætir þess að þær fái rétta stjórnsýslulega meðferð. Hagstofan tekur þátt í tæknilegu samstarfi á alþjóðavettvangi með það að leiðarljósi að bæta íslenska hagskýrslugerð, tryggja alþjóðlega sambærilegar hagtölur fyrir Ísland og að tryggja notendum sínum að Íslensk hagskýrslugerð sé í samræmi við alþjóðlegar kröfur um gæði og aðferðafræði.