Hagstofa Íslands er miðstöð opinberrar hagskýrslugerðar í landinu og vinnur að söfnun gagna, úrvinnslu og birtingu tölfræðilegra upplýsinga um landshagi Íslands og þjóðfélagsleg málefni. Hagstofan skiptist í fjögur svið, efnahagssvið, félagsmálasvið, fyrirtækjasvið og rekstrarsvið.

Á efnahagssviði vinnur utanríkisverslunardeild að úrvinnslu gagna um útflutning, innflutning og vöruskiptin við útlönd. Vísitöludeild vinnur vísitölu neysluverðs, vísitölu byggingarkostnaðar, vísitölu framleiðsluverðs og skyldar verðvísitölur. Deild um þjóðhagsreikninga og opinber fjármál vinnur að framleiðslu- og ráðstöfunaruppgjöri þjóðhagsreikninga, gerð ársfjórðungsreikninga, tekjuathugunum, gerð hagvísa og annast hagskýrslugerð um búskap hins opinbera og tekjuskiptingu. Björn Rúnar Guðmundsson er sviðsstjóri efnahagssviðs.

Um hagskýrslur gilda þær reglur almennt að ekki er veittur aðgangur að niðurstöðum  fyrir birtingu nema sérstakar aðstæður krefjist þess og eru viðkomandi aðilar bundnir trúnaði. Sérfræðingar Rannsóknardeildar fá fyrirfram aðgang að niðurstöðum fyrir ársfjórðungslega þjóðhagsreikninga áður en þær eru birtar í júní ár hvert vegna undirbúnings að þjóðhagsspá í þeim mánuði.

Á félagsmálasviði starfa tvær deildir að félagsmálatölfræði. Atvinna, lífskjör og mannfjöldi vinnur að hagskýrslugerð um vinnuaflið, lífskjör, félagsvernd, heilbrigðismál, kosningar, stöðu kynja, lýðfræði og mannfjölda. Laun, tekjur og menntun annast hagskýrslugerð um tekjur, laun, launakostnað, menntun, skólamál, menningarmál og fjölmiðla. Hrafnhildur Arnkelsdóttir er sviðsstjóri félagsmálasviðs.

Á fyrirtækjasviði starfar framleiðslu- og fyrirtækjadeild að hagskýrslugerð um fyrirtæki og fyrirtækjskrá til hagskýrslugerðar. Á sviðinu er einnig unnin tölfræði um afla, iðnaðarframleiðslu, gistinætur, umhverfismál og notkun upplýsingatækni. Böðvar Þórisson er sviðsstjóri fyrirtækjasviðs.
 
Rekstrarsvið fæst við ýmis verkefni sem tengjast allri starfsemi Hagstofunnar. Þrjár deildir heyra undir sviðið, rekstur og fjármál, upplýsingatækni og miðlun og gagnasöfnun. Gagnasöfnun vinnur að framkvæmd rannsókna og annarri gagnasöfnun. Upplýsingatækni og miðlun annast vefi Hagstofunnar, útgáfumál, upplýsingagjöf og fer með allt er snertir tölvukerfi og hugbúnað Hagstofunnar. Innan þessa sviðs er enn fremur unnið að ýmsum þróunarmálum sem varða meðal annars hugbúnað, staðla og flokkunarkerfi. Elsa Björk Knútsdóttir er sviðsstjóri rekstrarsviðs.

Rannsóknardeild.  Með breytingu á lögum um Hagstofu Íslands og opinbera hagskýrslugerð, sbr. 47. gr. l. nr. 98/2009,  var Hagstofunni falið að  starfrækja sjálfstæða rannsóknareiningu sem er aðskilin hagskýrslustarfseminni. Rannsóknadeild hefur sama aðgang að gögnum hagskýrslusviða og aðilar utan Hagstofunnar og fær aðgang samkvæmt sömu reglum og gildir um þá. Rannsóknareiningin skal fylgjast með afkomu þjóðarbúsins, semja þjóðhagsspár og áætlanir og birta opinberlega. Um birtingar á skýrslum rannsóknareiningarinnar gilda sömu reglur og um birtingu hagskýrslna. Aðrir fá ekki aðgang að efninu fyrir birtingu nema sérstakar aðstæður krefjist þess og eru viðkomandi bundnir trúnaði.  Ber að upplýsa um slíkar undantekningar opinberlega. Sérfræðingar fjármálaráðuneytis fá aðgang að drögum að þjóðhagsspá áður en hún er birt opinberlega vegna samspils opinberra fjármála og þjóðhagsspár við undirbúning fjárlagafrumvarps og fjárlaga. Eru þeir bundnir trúnaði um efni þjóðhagsspár. Ef rannsóknadeild fær aðgang að gögnum frá hagskýrslusviðum sem bíða birtingar fær fjármálaráðuneytið ekki aðgang að spánni fyrr en þau gögn hafa verið birt opinberlega. Rannsóknardeildin heyrir beint undir hagstofustjóra.  

Starfsmannahald og fræðslumál, auk gæðamála, heyra beint undir hagstofustjóra og er Ólafur Arnar Þórðarson starfsmannastjóri og Reynir Kristjánsson gæðastjóri.

Hagstofunni stýrir hagstofustjóri. Ólafur Hjálmarsson var skipaður hagstofustjóri frá og með 1. mars 2008. Hagstofustjóri og sviðsstjórar mynda yfirstjórn Hagstofunnar.
  
Hagstofa Íslands tók til starfa árið 1914. Til ársloka 2007 var hún eitt ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Hagstofan hefur lengst af starfað samkvæmt stofnlögum sínum frá 1913 og lögum og reglugerð um Stjórnarráð Íslands. Hinn 1. janúar 2008 var Hagstofa Íslands lögð niður sem ráðuneyti. Þá tóku gildi ný lög um Hagstofu Íslands og opinbera hagskýrslugerð og komu þau að mestu í stað eldri löggjafar um starf Hagstofunnar. Samkvæmt þeim er Hagstofan sjálfstæð stofnun sem heyrir undir forsætisráðherra. Í 1. gr. laganna segir að Hagstofan sé miðstöð opinberrar hagskýrslugerðar í landinu og hafi forystu um tilhögun, samræmingu og framkvæmd hennar svo og um samskipti við alþjóðastofnanir á þessu sviði.

Auk hinna nýju laga um Hagstofu Íslands og opinbera hagskýrslugerð og sérlaga um verð- og launavísitölur starfar Hagstofan í samræmi við samþykktir Sameinuðu þjóðanna um grundvallarreglur um opinbera hagskýrslugerðmeginreglur í hagskýrslugerð svo og við ákvæði laga um persónuvernd og meðferð persónupplýsinga. Ennfremur hefur Hagstofan sett sér eigin reglur um meðferð trúnaðargagna.