Tilraunatölfræði


Tilraunatölfræði um staðgreiðsluskyldar greiðslur breytt í hefðbundna útgáfu


Hagstofa Íslands hefur ákveðið að taka talnaefni um staðgreiðsluskyldar greiðslur í almenna birtingu. Talnaefni verður uppfært á tveggja mánaða fresti.

Frá og með 24. júní verður talnaefni uppfært undir efnisflokknum laun og tekjur „Mánaðarlegar staðgreisluskyldar greiðslur“. Sjá nánar í umfjöllun í frétt frá 24. júní 2022.

Staðgreiðsluskyldar greiðslur til einstaklinga

Samantekt

Staðgreiðsluskyldar greiðslur til einstaklinga fela í sér tvær tegundir af mánaðarlegu talnaefni. Í fyrsta lagi upplýsingar um staðgreiðsluskyldar launagreiðslur (launasumma) sem eru birtar eftir atvinnugreinum og sveitarfélögum ásamt talningum á launafólki sem fær greidd laun og launagreiðendum. Í öðru lagi tegundir staðgreiðsluskyldra greiðslna (heildarsumma) sem innihalda launagreiðslur en að auki flestar aðrar staðgreiðsluskyldar greiðslur á borð við greiðslur í fæðingarorlofi og bóta- og lífeyrisgreiðslur. Einstaka tegundir staðgreiðsluskyldra greiðslna eru birtar eftir kyni, aldri, búsetu og bakgrunni ásamt talningu á einstaklingum sem fá greiddar staðgreiðsluskyldar greiðslur. Einyrkjar með rekstur á eigin kennitölu, sem greiða sjálfum sér reiknað endurgjald og fjármagnstekjur, eru ekki hluti talnaefnis. Til samanburðar eru birtar samanlagðar árstekjur einstaklinga eftir sveitarfélögum, þar með talið niðurbrot á reiknuðu endurgjaldi og fjármagnstekjum byggt á árlegu uppgjöri skattframtala einstaklinga fyrir tímabilið 2008 til 2019.

Staðgreiðsluskyldar greiðslur til einstaklinga eru bráðabirgðatölur sem birtar eru mánaðarlega og ná aftur til janúar 2005 fyrir tegundir staðgreiðsluskyldra greiðslna en til janúar 2008 fyrir staðgreiðsluskyldar launagreiðslur eftir atvinnugreinum. Vakin er athygli á því að tölur geta breyst meðal annars vegna síðbúinna skila greiðenda. Það á einkum við um nýjustu mánuði talnaefnis þar sem tímanleiki birtinga er mikill eða um tveir mánuðir eftir að viðmiðunartíma lýkur.

Lýsing

Upplýsingar eru unnar á grundvelli staðgreiðslu- og mannfjöldagagna Hagstofunnar. Tímanlegar upplýsingar um mánaðarlega samtölu greiðslna (tekna) einstaklinga hafa ekki verið aðgengilegar fyrr. Árlega birtir Hagstofan upplýsingar um meðaltekjur einstaklinga samkvæmt skattframtölum auk samtölu launa á íslenskum vinnumarkaði í hagtölum um afkomu fyrirtækja (viðskiptahagkerfið) og í framleiðsluuppgjöri þjóðhagsreikninga um laun og launatengd gjöld atvinnugreina (allt hagkerfið).

Markmið

Markmið birtingar er að veita tímanlega vísbendingu um breytingar á samtölu staðgreiðsluskyldra greiðslna til einstaklinga. Miklar breytingar hafa orðið á samfélaginu á síðustu mánuðum vegna kórónuveirufaraldursins (Covid-19) og hefur þörf á tímanlegri tölfræði aukist í kjölfarið. Hagstofan stefnir að því að talnaefni um mánaðarlegar staðgreiðsluskyldar greiðslur til einstaklinga verði hluti af reglulegri hagskýrslugerð og því eru notendur hvattir til að hafa samband og gefa endurgjöf á talnaefnið (laun@hagstofa.is).

Launasumma hækkaði um 3,9% í febrúar

Síðast uppfært: 4. apríl 2022

Staðgreiðsluskyld launasumma hækkaði um 3,9% í febrúar 2022 frá fyrri mánuði en hækkaði um 14,3% frá febrúar 2021. Breyting á milli ára var mismikil eftir atvinnugreinum. Vakin er athygli á því að greiðslur eru ekki verðlagsleiðréttar. Talnaefni um staðgreiðsluskyldar greiðslur í febrúar 2022 hefur verið uppfært.


Talnaefni

Staðgreiðsluskyldar launagreiðslur (launasumma), bráðabirgðatölur 040422 (xlsx)

Tegundir staðgreiðsluskyldra greiðslna (heildarsumma), bráðabirgðatölur 040422 (xlsx)


Lýsigögn


Öllum eru heimil afnot af tilraunatölfræði Hagstofu Íslands. Vinsamlegast getið heimildar.
Nánari upplýsingar eru veittar í síma +354 528 1250. Netfang: laun@hagstofa.is