Tilraunatölfræði


Tilraunatölfræði er undirflokkur opinberrar hagskýrslugerðar sem felur í sér nýmæli í framleiðslu hagtalna og er ætlað að styðja við opinberar hagtölur. Þessi síða inniheldur lýsingu á þeim verkefnum sem falla undir tilraunatölfræði sem er í þróun hjá Hagstofunni.

Hagstofan gefur út tilraunatölfræði

Tilraunatölfræði er ætlað að styðja við opinberar hagtölur og auka gæði þeirra með því að hvetja til nýsköpunar í framleiðslu hagtalna og miðla áhugaverðum tölum hraðar til notenda.

Tilraunatölfræði er ætlað að vera tímabundin en getur einnig verið stök birting, upphaf að reglulegri birtingu á nýjum hagtölum eða hluti af umbótaferli hagtalna sem þegar eru í reglulegri birtingu.

Með útgáfu tilraunatölfræði gefst mikilvægt tækifæri til nýbreytni í hagtölugerð sem hefur mikið notagildi fyrir notendur. Til dæmis gefst með útgáfu tilraunatölfræði tækifæri til þess að birta tölfræði sem byggir á nýjum gögnum eða tiltækum gögnum sem veita nýjar upplýsingar um málefni líðandi stundar. Auk þess veitir tilraunatölfræði tækifæri til að birta hagtölur sem unnar eru með nýjum aðferðum sem ennþá eru í þróun.

Þar sem tilraunatölfræði felur í sér nýjungar í hagtölugerð getur verið til staðar nokkur óvissa um gæði og áreiðanleika þeirra gagna og aðferða sem hún byggir á. Þess vegna eru öll verkefni sem falla undir tilraunatölfræði vel merkt með sérstökum merkimiða (lógói).

Notendur eru sérstaklega hvattir til þess að koma athugasemdum og rýni á tilraunatölfræði til skila á netfangið tilraunir@hagstofa.is.