Tilraunatölfræði


Dánir

Samantekt

Hér eru birt nýjustu gögn um dána fyrir árið 2020 og 2021 en þau byggja á upplýsingum úr dánartilkynningum sem skráðar eru hjá Þjóðskrá Íslands. Gögnin gefa góðar vísbendingar um þróun á tíðni andláta þó gera verði ráð fyrir einhverju vanmati í nýjustu tölunum um fjölda látinna, þá aðallega vegna dánarvottorða sem berast seint til Þjóðskrár Íslands. Áætlað er að birta tölur um dána eftir vikum ársfjórðungslega árið 2021.

Lýsing

Birtar eru upplýsingar um dána með lögheimili á Íslandi við andlát. Gögnin eru sundurliðuð eftir kyni, aldri og viku.

Markmið

Vegna mikillar eftirspurnar, bæði alþjóðlega og innanlands, gefur Hagstofa Íslands út tölur um fjölda andláta fyrir árið 2020 og 2021 brotið niður á einstakar vikur. Með þeim hætti er hægt að kanna áhrif kórónuveirunnar (Covid-19) með skjótari hætti og gera notendum kleift að bera saman dauðsföll á milli landa.

Dánir eftir vikum 2017-2021

Síðast uppfært: 15. apríl 2021

Fyrstu 13 vikur ársins 2021 dóu að meðaltali 44,2 í hverri viku eða aðeins færri en fyrstu 13 vikur áranna 2017-2020 þegar 46,1 dóu að meðaltali. Að jafnaði dóu flestir í aldursflokknum 85 ára og eldri yfir tímabilið 2017-2021. Tíðasti aldur látinna fyrstu 13 vikur 2021 var 85 en 87 ára fyrir sömu vikur áranna 2017-2020.

Á myndinni hér að neðan má sjá línurit yfir þróun á vikulegri dánartíðni árin 2017-2021. Til að sýna betur þróun vikulegrar dánartíðni eru línurnar í myndritinu tregbreytilegar og er miðað við 10 vikna hlaupandi meðaltal í stað þess að sýna hráar talningar gagnanna. Með þessu móti er auðveldara að bera saman og skoða þróun yfir árin sem liggja til grundvallar enda er vikuleg dánartíðni yfirleitt mjög lág á Íslandi og tölurnar talsvert flöktandi frá einni viku til annarrar.


Dánir


Talnaefni

Dánir - vikugögn 150421 (xlsx)


Lýsigögn

Rétt er að benda á að talningar á dánum fyrir árið 2020 og 2021 eru bráðabirgðatölur og eru líklegar til að vera vanmat á fjölda dáinna, aðallega vegna síðbúinna dánartilkynninga. Til að gæta samræmis við heildarfjölda látinna milli áranna 2020 og 2021 var ákveðið að telja þá sem dóu 1-3. janúar 2021 með fyrstu viku 2021 þótt þeir samkvæmt vikuskilgreiningu tilheyrðu 53. viku 2020.

Nánari lýsigögn um dána má finna hér: Lýsigögn um dána


Öllum eru heimil afnot af tilraunatölfræði Hagstofu Íslands. Vinsamlegast getið heimildar.
Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1030. Netfang: mannfjoldi@hagstofa.is