Tilraunatölfræði


Gistinætur

Samantekt

Hagstofa Íslands gefur út tölur um gistinætur ferðamanna á hótelum í hverjum mánuði og birtast þær að jafnaði 30 dögum eftir að mánuði lýkur, en þá eru skil frá hótelum vanalega um 90%. Vegna áhuga notenda á að fá gögn tímanlegar var ákveðið að athuga hvort mögulegt væri að nota gögn frá þeim aðilum sem skila strax eftir að tímabili lýkur til að fá mat á það tímanlega hverjar endanlegar tölur hvers mánaðar yrðu fyrir nýtingu rúma og fjölda gistinátta á hótelum.

Lýsing

Um 20% hótela skila inn gögnum fyrstu 5 dagana eftir lok hvers mánaðar. Þar sem þessi hótel eru ekki valin af handahófi er þeim skipt upp eftir landsvæðum og gögnin vigtuð til að leiðrétta fyrir því. Hægt er að nota tölur um rúmanýtingu og fjölda gistinátta í þessum undirhópi hótela til að skoða aftur í tímann hvernig gögn þessara hótela haga sér samanborið við lokaniðurstöður fyrir hvern mánuð. Athuganir leiddu í ljós að fylgni var þarna á milli og reyndist hægt að áætla rúmanýtingu og fjölda gistinátta á hótelum í hverjum mánuði, með vikmörkum. Hægt er að skoða lýsigögn fyrir gistináttatölfræði á ferðaþjónustuvef Hagstofunnar.

Markmið

Vonast er til að birting á tímanlegum gögnum um rúmanýtingu og fjölda gistinátta á hótelum gefi góða vísbendingu um þróun nær rauntíma í þessari grein.

Gistinætur á hótelum drógust saman um 97% í apríl

Síðast uppfært: 8. maí 2020

Gistinætur á hótelum í apríl voru 7.900 samkvæmt bráðabirgðatölum samanborið við 272.600 gistinætur í apríl 2019. Rúmanýting var um 1,8% samanborið við 41,6% í sama mánuði í fyrra. Augljóst er að miklar sviptingar hafa átt sér stað í hótelgeiranum og af 167 hótelum sem skráð eru hjá Hagstofunni hafa 69 tilkynnt lokun fyrir apríl.

Fyrsta mat á rúmanýtingu og fjölda gistinátta á hótelum í apríl

Hagstofa Íslands gefur út mánaðarlegar tölur um gistinætur ferðamanna á hótelum að jafnaði 30 dögum eftir að mánuði lýkur. Þá eru skil frá hótelum vanalega um 90%. Athugað var hvort gögn sem skilað er strax eftir að mánuði lýkur væru nothæf fyrir fyrsta mat á nýtingu rúma og fjölda gistinátta á hótelum.

Um 20% hótela skila gögnum fyrstu dagana eftir lok hvers mánaðar. Þar sem ekki er um að ræða val af handahófi er þeim skipt upp eftir landsvæðum og gögnin vigtuð eftir þeim. Tölur um rúmanýtingu og fjölda gistinátta í þessum undirhópi hótela sem skila að jafnaði snemma er hægt að nota til þess að áætla lokaniðurstöður um rúmanýtingu og fjölda gistinátta á hótelum með vikmörkum.

Þessi aðferð gerir mögulegt að áætla fjölda og vikmörk gistinátta stuttu eftir lok mánaðar. Miðað við fyrstu skil fyrir aprílmánuð má ætla að rúmanýting hafi verið um 1,8% (95% öryggismörk: 1,2%-2,4%) og að fjöldi gistinátta á hótelum í apríl hafi verið um 7.900 (95% öryggismörk: 5.500-10.300). Með hliðsjón af því má ætla að orðið hafi um 97% samdráttur á fjölda gistinátta frá apríl 2019.

Miklar breytingar hafa átt sér stað í ferðamannaiðnaðinum. Svo örar breytingar ýta undir þörfina fyrir tímanlegar hagtölur en skapa einnig ný vandkvæði við tölfræðilega vinnslu og þarf fyrir vikið að taka spánni með þeim fyrirvara.


Lýsigögn

Fast estimates of proportions and occupancynumbers of hotels (pdf)