Tilraunatölfræði


Vöruviðskipti við útlönd

Samantekt

Upplýsingar um vöruviðskipti Íslands við útlönd eru að mestu fengnar úr tollskýrslum. Hagstofa Íslands hefur óskað eftir aukinni tíðni gagnasendinga frá Skattinum og getur því veitt tímanlegri gögn um þróun inn- og útflutnings til og frá landinu.

Lýsing

Hagstofa Íslands gefur út gögn um vöruviðskipti við útlönd tvisvar í mánuði. Í upphafi mánaðar eru gefnar út bráðabirgðatölur mánaðarins á undan þar sem leiðrétt hefur verið fyrir öfgagildum. Í lok mánaðar er svo sami mánuður gefinn út yfirfarinn. Gögnin byggja á tollskýrslum sem berast Hagstofu Íslands allajafna mánaðarlega. Engar breytingar verða á tíðni hefðbundinnar útgáfu.

Til að mæta þörf fyrir ítarlegri tölfræði um framvindu efnahagsmála við núverandi aðstæður hefur tíðni gagnasendinga verið aukin úr mánaðarskilum í vikuskil. Hagstofa Íslands getur því birt tímanlegri gögn en áður. Mikilvægt er að undirstrika að hér er um tilraunatölfræði að ræða og niðurstöður því háðar miklum fyrirvörum um breytingar þegar frekari talnavinnsla á sér stað.

Markmið

Með tímanlegri gögnum má gefa góða vísbendingum um breytt mynstur í vöruviðskiptum og fylgjast með þeirri þróun nær rauntíma.

Talnaefni um vöruviðskipti fyrstu 22 vikur 2020 hefur verið uppfært - birtingu vikutalna hætt

Síðast uppfært: 4. júní 2020

Samkvæmt uppfærðu talnaefni fyrir fyrstu 22 vikur ársins nam hallinn á vöruviðskiptum við útlönd 22,6 milljörðum króna samanborið við 23,31 milljarða halla á síðasta ári.

Hagstofan hóf birtingu vikutalna yfir vöruviðskipti við útlönd 17. apríl sl. og hefur uppfært þær tölur síðan sem hluta af tilraunatölfræði. Þessari vikulegu birtingu tilraunatölfræði verður nú hætt en áfram verða birtar mánaðarlegar tölur um vöruviðskipti sem fyrr.


Talnaefni

Vöruviðskipti við útlönd eftir vikum 2019-2020, bráðabirgðatölur (xlsx)


Lýsigögn

Vikuleg gögn núverandi mánaðar, sem og mánaðarins á undan, teljast bráðabirgðatölur. Leiðrétt hefur verið fyrir öfgagildum en tölur geta tekið breytingum við yfirferð. Til að auðvelda notendum umreikning yfir á fast gengi eru einnig birtar tölur um gengisþróun miðað við opinbera gengisvísitölu Seðlabanka Íslands.

Nánari lýsigögn um vöruviðskipti við útlönd má finna hér: Lýsigögn um vöruviðskipti við útlönd


1 Talnaefni fyrir árið 2019 hefur verið endurskoðað.