Tilraunatölfræði


Einkaneysla erlendra ferðamanna

Samantekt

Hér eru birtar upplýsingar um neyslu og hlutdeild erlendra ferðamanna í einkaneyslu hér á landi árið 2019 samkvæmt skilgreiningu þjóðhagsreikninga. Neysluflokkunin byggir að stærstu leyti á upplýsingum sem fengnar eru úr gögnum um greiðslukortaveltu og atvinnugreinaflokkun innlendra söluaðila. Með henni hefur hlutdeild erlendra ferðamanna í einkaneyslu hérlendis, eins og hún er mæld í utanríkisviðskiptum, verið áætluð niður á COICOP-neysluflokka.

Lýsing

Með þessari skiptingu er einnig og ekki síður markmiðið að sýna skiptingu einkaneyslu Íslendinga með greinarbetri hætti en áður hefur verið gert en með því að aðgreina útgjöld ferðamanna fæst skýrari mynd af því hvernig þeirri skiptingu er háttað og hvernig hún þróast yfir tíma. Er þetta sérstaklega mikilvægt í ljósi mikils umfangs ferðaþjónustunnar, eins og raunin hefur verið hér á landi síðustu ár, þar sem dreifing neyslu ferðamanna eftir neysluflokkum er öllu jöfnu frábrugðin almennri innlendri neyslu þeirra sem hér búa að staðaldri.

Markmið

Birting þessarar tilraunatölfræði er liður í umbótaverkefni sem miðar að því að auka niðurbrot talnaefnis um einkaneyslu með áherslu á útgjöld erlendra ferðamanna hér á landi eftir neysluflokkum. Í þetta sinn eru birtar tölur fyrir árið 2019 en þegar vinnu við endurskoðun tímaraða verður lokið er stefnt að því að slíkt niðurbrot verði hluti af reglulegri miðlun talnefnis um einkaneyslu. Vegna þeirra aðstæðna sem hafa skapast í kjölfar Covid-19, sérstaklega í ferðaþjónustutengdri starfsemi, var ákveðið að birta hluta af bráðabirgðaniðurstöðum undir efnisflokki tilraunatölfræði en með því er leitast við að mæta auknum þörfum notenda þessara upplýsinga, m.a. stjórnvalda, fyrir ítarlegri og tímalegri upplýsingar um vægi ferðaþjónustunnar í íslensku efnahagslífi.

Þegar regluleg miðlun þessara upplýsinga hefst samhliða birtingu mælinga á einkaneyslu liðins árs er ætlunin að birta sambærilegt niðurbrot fyrir einkaneyslu Íslendinga og hlutdeild erlendra ferðamanna í einkaneyslu hér á landi. Ein af ástæðum þess að það er ekki gert nú er sú að til þess að það sé hægt þarf að afla frekari upplýsinga um þau neysluútgjöld erlendra ferðamanna sem ekki eru að jafnaði greidd með greiðslukortum, t.d. kaup á ólöglegum vörum og þjónustu líkt og eiturlyfjum og vændi.

Með þeirri framsetningu sem hér er kynnt hefur einkaneyslu sem mælst hefur innan íslenskra landamæra verið skipt niður á neysluflokka og eftir því hvort um sé að ræða neyslu íbúa hér á landi eða ferðamanna. Til framtíðar litið er stefnt að því að afla frekari gagna um samsetningu neyslu Íslendinga erlendis en með því móti mætti veita enn ítarlegri upplýsingar um skiptingu einkaneyslu Íslendinga eftir neysluflokkum óháð því hvort um er að ræða neyslu hér á landi eða á ferðalögum.

Einkaneysluútgjöld erlendra ferðamanna á Íslandi 2019

Síðast uppfært: 18. maí 2020

Einkaneysluútgjöld erlendra ferðamanna hér á landi námu samtals um 284 milljörðum króna á árinu 2019. Það samsvarar um 21,4% af mældri einkaneyslu hér á landi á síðasta ári (heildareinkaneysla að frádregnum einkaneysluútgjöldum Íslendinga erlendis).

Eins og við má búast voru kaup á veitinga- og gistiþjónustu fyrirferðamestu útgjaldaliðirnir í tilviki erlendra ferðamanna en þau vógu um 38,4% af heildareinkaneysluútgjöldum þeirra hér á landi á síðasta ári eða rúmlega 109 milljörðum króna á verðlagi ársins. Þar undir fellur bæði gistiþjónusta og kaup á mat og drykk á veitingahúsum.

Tómstundir og menning er næst stærsti neysluflokkur erlendra ferðamanna en hann inniheldur m.a. kaup á ýmis konar afþreyingu sem að öllu jöfnu er veigamikill þáttur í útgjöldum ferðamanna, s.s. aðgangseyrir inn á bað- og sundstaði, skoðunarferðir og kaup á skipulögðum pakkaferðum.

Undir liðnum ferðir og flutningar eru útgjöld tengd samgöngum og þar falla m.a. undir útgjöld vegna leigu á bifreiðum og aðrar greiðslur fyrir samgöngutengda þjónustu, s.s. rútuferðir og kaup á eldsneyti. Alls námu útgjöld erlendra ferðamanna tengd slíkri þjónustu um 45 milljörðum á síðasta ári eða sem nemur um 15,8% af heildareinkaneyslu erlendra ferðamanna hér á landi.

Vegna þeirra aðstæðna sem hafa skapast í kjölfar COVID faraldursins, sérstaklega í ferðaþjónustutengdri starfsemi, var ákveðið að birta hluta af bráðabirgðaniðurstöðum undir efnisflokki tilraunatölfræði en með því er leitast við að mæta auknum þörfum notenda þessara upplýsinga, m.a. stjórnvalda, fyrir ítarlegri og tímanlegri upplýsingar um vægi ferðaþjónustunnar í íslensku efnahagslífi.


Einkaneysla erlandra ferðamanna 2019


Talnaefni

Hlutdeild erlendra manna í einkaneyslu á Íslandi 2019 (xlsx)


Lýsigögn

Um flokkun neysluútgjalda

Neysluflokkunin byggir að stærstu leyti á upplýsingum sem fengnar eru úr gögnum um greiðslukortaveltu og atvinnugreinaflokkun innlendra söluaðila. Með henni hefur hlutdeild erlendra ferðamanna í einkaneyslu hérlendis, eins og hún er mæld í utanríkisviðskiptum, verið áætluð niður á COICOP-neysluflokka. COICOP-neysluflokkakerfið er alþjóðlegt flokkunarkerfi fyrir einkaneyslu, vöru og þjónustu, útgefið af Sameinuðu þjóðunum. Kerfið er margþrepa kerfi sem býður upp á mjög ítarlega flokkun neysluútgjalda. Í þeirri framsetningu sem hér er kynnt er einkaneysla flokkuð niður á 2. þrep, sem þýðir að neysla er flokkuð niður á bálka og undirbálka.

Skilgreining á einkaneyslu

Einkaneysla er skilgreind sem öll neysluútgjöld heimila viðkomandi ríkis (e. national concept), hvort sem neyslan fer fram innan landamæra þess ríkis eða ekki. Það þýðir að neysla Íslendinga á ferðalögum erlendis telst til einkaneyslu í íslenskum þjóðhagsreikningum en neysla erlendra ferðamanna hér á landi er undanskilin.

Einkaneysla er einnig mæld út frá landfræðilegum mörkum (e. domestic concept), þ.e. með vísan til þess hvar sala vöru og þjónustu fer fram óháð því hvort það eru íbúar viðkomandi svæðis sem standa að baki henni eða ferðamenn frá öðrum svæðum. Í þeirri framsetningu eru einkaneysluútgjöld íbúa viðkomandi lands, sem rekja má til ferðalaga erlendis, dregin frá.

Í framsetningu talnaefnis um einkaneyslu hér á landi hefur niðurbrot einkaneyslu samkvæmt neysluflokkum miðast við síðarnefndu skilgreininguna en útgjöldum Íslendinga erlendis, eins og þau eru mæld í utanríkisviðskiptum, verið bætt við mælda samtölu innlendrar neyslu og útgjöld erlendra einstaklinga dregin frá með sama hætti.

Samanburður við aðra tölfræði um ferðaþjónustu og neyslu ferðamanna

Neysla erlendra ferðamanna eins og hún er mæld í ráðstöfunaruppgjöri þjóðhagsreikninga er frábrugðin mælingum á heildarneyslu ferðamanna samkvæmt uppgjöri ferðaþjónustureikninga m.a. að því leyti að hún inniheldur ekki bein útgjöld einkafyrirtækja, félagasamtaka og opinberra aðila vegna atvinnutengdra ferða, sem í hefðbundnu uppgjöri þjóðhagsreikninga teljast til aðfanga framleiðenda en ekki til einkaneyslu heimila. Það þýðir að útgjöld þeirra sem hingað koma í viðskiptaerindum (oftast kostnaður vegna ferða og gistingar), eru skilgreind sem kostnaður í rekstri þessara aðila en ekki til einkaneyslu þeirra sem ferðast í þeirra umboði. Önnur útgjöld slíkra ferðamanna, t.d. kaup þeirra á vörum til einkanota og önnur útgjöld sem ekki eru greidd beint af þeirra atvinnurekendum, eru talin til einkaneyslu óháð því hvort atvinnurekandi greiðir fyrir þau útgjöld með óbeinum hætti, t.d. með greiðslu fastra dagpeninga. Slíkar greiðslur eru skilgreindar sem hluti af útlögðum launakostnaði atvinnurekenda og þar með talin með í einkaneyslu í þjóðhagsreikningum. Þá er neysla ferðamanna samkvæmt ferðaþjónustureikningum birt eftir atvinnugreinaflokkun en einkaneysla samkvæmt neysluflokkum. Sá hluti neyslu ferðamanna sem heimsækir Ísland og tengist kaupum þeirra á flugferðum til landsins með íslenskum flugfélögum er ekki skilgreindur sem hluti af einkaneyslu hér á landi heldur í heimaríki viðkomandi ferðamanna en telst engu að síður hluti af heildarneyslu erlendra ferðamanna hér á landi samkvæmt aðferðafræði ferðaþjónustureikninga.

Um COICOP flokkunarkerfið
COICOP flokkunarkerfi fyrir einkaneyslu vöru og þjónustu
Eurostat: Classification of individual consumption by purpose (COICOP)
Þjóðhagsreikningar
Lýsigögn