Þjóðhagsreikningar - árlegir og ársfjórðungslegir


0. Skráningaratriði fyrir viðfangsefni


0.1 Heiti

Þjóðhagsreikningar - árlegir og ársfjórðungslegir

0.2 Efnisflokkur

Þjóðhagsreikningar

0.3 Umsjón; stofnun, deild, sérfræðingur o.s.frv.

Jón Ævarr Sigurbjörnsson
Hagstofa Íslands
Þjóðhagsreikningar og opinber fjármál
netfang: jon.sigurbjornsson@hagstofa.is
sími: 528 1136

0.4 Tilgangur og aðdragandi

Tilgangur þjóðhagsreikninga er að setja fram tölulega og á kerfisbundinn hátt yfirlit yfir efnahagsstarfsemina í þjóðarbúskapnum í heild svo og einstaka þætti starfseminnar. Hér er þó ekki um að ræða bókhald í þeim skilningi að öll viðskipti séu skráð heldur er athyglinni beint að ákveðnum megin hugtökum. Má þar nefna, landsframleiðslu, einkaneyslu, samneyslu, fjármunamyndun, viðskiptajöfnuð, launagreiðslur og rekstrarafgang fyrirtækja. Opinberar tölur um árlega þjóðhagsreikninga ná aftur til ársins 1945 en nokkrir háskólamenn hafa komið að gerð sögulegra þjóðhagsreikninga og ná þær tímaraðir aftur til 1870. Á árinu 2000 hófst gerð ársfjórðungslegra þjóðhagsreikninga og frá 1. ársfjórðungi 2006 hefur árstíðaleiðréttingu einnig verið beitt við gerð þeirra. Í báðum tilvikum ná þessir reikningar aftur til ársins 1997.

Frá og með árinu 2014 hafa þjóðhagsreikningar verið gerðir skv. þjóðhagsreikningakerfi Evrópusambandsins, ESA 2010. Samfelldar tímaraðir samkvæmt því kerfi ná nú aftur til ársins 1997. Frá 1990 til 1997 eru þjóðhagsreikningar færðir samkvæmt ESA95. Fyrir þann tíma voru íslenskir þjóðhagsreikningar færðir samkvæmt þjóðhagsreikningakerfi Sameinuðu þjóðanna, SNA 68.

0.5 Notendur og notkunarsvið

Þjóðhagsreikningar eru notaðir við hvers konar mat á hagþróun til skamms eða langs tíma. Líkt og bókhald fyrirtækja greina þjóðhagsreikningar frá því hvernig til hefur tekist í rekstri þjóðarbúsins undanfarin ár, áratugi eða ársfjórðunga. Þeir eru grunnurinn sem þjóðhagsspár byggja á og gegna veigamiklu hlutverki við margs konar líkansmíði fyrir þjóðarbúskapinn í heild eða afmarkaða þætti hans. Fjármálaráðuneytið, forsætisráðuneytið og Seðlabankinn nota þjóðhagsreikningana við þjóðhagspár, fjárlagagerð o.fl. Bankar, launþega- og atvinnurekendasamtök og fyrirtæki nota þjóðhagsreikninga við mat á stöðu efnahagsmála. Alþjóðasamtök eins og Sameinuðu þjóðirnar, OECD og Evrópusambandið nota þjóðhagsreikninga við samanburð á efnahagsþróuninni milli landa og ákveðnar niðurstöðutölur úr þessum reikningum eru einnig notaðar við útreikning á fjárframlögum einstakra landa til þessara samtaka.

0.6 Heimildir

Víða er leitað fanga við gerð þjóðhagsreikninga og koma hagtölur af ýmsu tagi að gagni. Nefna má:
 • Utanríkisverslun
 • Greiðslujöfnuð við útlönd
 • Ársreikninga fyrirtækja og stofnana
 • Staðgreiðslugögn
 • Skattframtöl einstaklinga
 • Ríkisreikning og ársreikninga sveitarfélaga
 • Innlenda framleiðslu
 • Virðisaukaskattsveltu fyrirtækja
 • Skýrslur frá Þjóðskrá Íslands ríkisins um endurstofnverð eigna
 • Neyslukannanir
 • Vísitölur neysluverðs og vísitölu byggingarkostnaðar
 • Launavísitölu

0.7 Lagalegur grundvöllur fyrir hagskýrslugerð

Sjá lög um Hagstofu Íslands og opinbera hagskýrslugerð nr. 163/2007.

0.8 Svarbyrði við innsöfnun

Í meginatriðum má segja að þjóðhagsreikningar nýti ýmsar stjórnsýsluskrár sem safnað er í öðrum tilgangi. Lítið er leitað beint til fyrirtækja eða stofnana við gagnasöfnun og alls ekki til einstaklinga en þegar leitað er til fyrirtækja þá er alla jafnan beðið um gögn sem þegar eru tiltæk. Svarbyrðin er því hverfandi.

0.9 Ákvæði vegna EES og ESB

Í reglugerð Evrópusambandsins nr. 2223/96 frá 25. júní 1996 er kveðið á um samræmdar aðferðir við gerð þjóðhagsreikninga í ríkjum ESB og EES. Í viðauka við þá reglugerð er að finna handbók með ítarlegum lýsingum á þeim aðferðum sem fylgja skal við gerð þjóðhagsreikninga. Þessi lýsing eða staðall, ESA95, fellur í aðalatriðum að staðli Sameinuðu þjóðanna, SNA 1993. Árið 2014 var tekinn upp nýr staðall Evrópusambandsins ESA 2010 á Íslandi í stað ESA95. ESA 2010 fylgir SNA í aðalatriðum.

Reglugerð Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins nr. 1889/2002 um framkvæmd reglugerðar ráðsins (EB) nr. 448/98 um viðbætur og breytingar á reglugerð (EB) nr. 2223/96 að því er varðar skiptingu óbeint mældrar fjármálaþjónustu (FISIM) innan evrópska þjóðhagsreikningakerfisins (ESA95) var tekin upp hérlendis í mars 2006 og tölur fyrri ára endurmetnar aftur til ársins 1980.

Birting og gagnasending fylgir reglugerð Evrópusambandsþingsins og -ráðsins um skil á þjóðhagsreikningagögnum, nr. 1392/2007 frá 13. nóvember 2007. Sjá nánar:
http://eur-lex.europa.eu/LexUriServ/LexUriServ.do?uri=OJ:L:2007:324:0001:0078:EN:PDF

1. Efni


1.1 Efnislýsing

Þjóðhagsreikningum er ætlað að gefa eins konar heildarmynd af efnahagsstarfseminni í þjóðarbúskapnum. Lykilstærðin er landsframleiðslan sem sýnir þau verðmæti sem verða til sem afrakstur af starfseminni og ætluð eru til endanlegra nota. Unnt er að meta þessi verðmæti með tvennum hætti, annars vegar þegar þeim er ráðstafað eða þar sem þau myndast. Er því ýmist talað um ráðstöfunaruppgjör eða framleiðsluuppgjör. Ráðstöfunaruppgjörið sýnir skiptingu landsframleiðslunnar í einkaneyslu, samneyslu, fjármunamyndun og utanríkisverslun. Framleiðsluuppgjörið sýnir aftur á móti í hvaða atvinnugreinum landsframleiðslan myndast.

Þjóðhagsreikningar eru gerðir upp bæði á verðlagi hvers árs og föstu verði. Með umreikningi til fasts verðs, eða staðvirðingar, er leitast við að greina verðmætisbreytinguna frá ári til árs í annars vegar verðbreytingu og hins vegar magnbreytingu. Tilgangur staðvirðingar getur verið margþættur en mikilvægast er matið á hagvexti, það er vexti landsframleiðslunnar að raunverulegu verðgildi.

Ótal álitaefni koma upp við mat á því hvaða verðmæti eigi að telja með og hver ekki og með hvaða hætti eigi að haga þessu mati. Samanburður frá einum tíma til annars og milli þjóða er mikilvægur í þessu sambandi og hafa því þróast á alþjóðavettvangi vinnuaðferðir við þetta mat. Flestar ef ekki allar þjóðir heims fylgja nú þjóðhagsreikningakerfi Sameinuðu þjóðanna (SNA 2008) en Evrópusambandið og EES-ríkin fylgja evrópskri útgáfu þess kerfis (ESA 2010).

1.2 Tölfræðileg hugtök

Þau hugtök sem notuð eru í þjóðhagsreikningum byggja öll á Hinu evrópska þjóðhagsreikningakerfi (European system of accounts, ESA 2010). Nokkrum lykilhugtökum og samhengi þeirra er lýst hér á eftir, annars vegar þeim sem mynda ráðstöfunaruppgjörið og hins vegar þeim sem mynda framleiðsluppgjörið.

Ráðstöfunaruppgjör:
 • Einkaneysla: Einkaneysla er skilgreind sem raunveruleg eða reiknuð útgjöld heimilanna vegna kaupa eða nota á varanlegum eða óvaranlegum vörum og þjónustu. Íbúðakaup heimilanna eru einu kaup þeirra sem litið er á sem fjárfestingu en af því leiðir síðan að heimilunum eru reiknuð afnot eða leiguígildi af íbúðunum, jafnvel þótt eigandinn búi í eigin íbúð.
 • Samneysla: Til samneyslu telst sá hluti af framleiðsluvirði hins opinbera sem það framleiðir til eigin nota. Framleiðsluvirðið ákvarðast ekki á markaðnum eins og um markaðsvöru væri að ræða heldur er það talið samtala þeirra aðfanga og vinnsluvirðisþátta sem notaðir eru við framleiðsluna. Sala hins opinbera á vöru og þjónustu dregst frá framleiðsluvirðinu við mat á eigin notum.
 • Fjármunamyndun: Fjármunamyndun nær til útgjalda atvinnugreina og hins opinbera til kaupa eða framleiðslu á fjármunum sem ætlaðir eru til nota við framleiðsluna.
 • Þjóðarútgjöld: Er samtala einkaneyslu, samneyslu og fjármunamyndunar að meðtöldum birgðabreytingum.
 • Landsframleiðsla: Er þjóðarútgjöld að viðbættum útflutningi vöru og þjónustu en að frádregnum innfluttri vöru og þjónustu. Landsframleiðslan er ein af lykilstærðunum í þjóðhagsreikningum og þegar rætt er um hagvöxt er átt við magnbreytingu landsframleiðslunnar.

Framleiðsluuppgjör
 • Laun og launatengd gjöld: Með launum og tengdum gjöldum er átt við greiðslur í peningum eða fríðindum frá atvinnurekstrinum til launþega fyrir vinnuframlag. Hér á einnig að telja með greiðslur vinnuveitandans til lífeyristrygginga vegna starfsmanna hvort sem um er að ræða formlega sjóði eða reiknaðar skuldbindingar vinnuveitandans.
 • Rekstrarafgangur: Hagnaðar fyrir vaxtagreiðslur.
 • Vinnsluvirði: Er samtala launa og launatengdra gjalda, rekstrarafgangs og afskrifta.
 • Landsframleiðsla: Er vinnsluvirði að viðbættum sköttum á framleiðslu og innflutning en að frádregnum framleiðslustyrkjum.

2. Tími


2.1 Viðmiðunartími talnaefnis

Árstölur vísa til almanaksárs og ársfjórðungslegar tölur vísa til viðkomandi ársfjórðungs. Í báðum tilvikum er þeim, eftir því sem kostur er, ætlað að lýsa verðmætastraumum á rekstrargrunni, ekki greiðslugrunni.

2.2 Vinnslutími

Fyrstu tölur um liðið ár, samkvæmt ráðstöfunaruppgjöri, eru birtar um miðjan mars árið eftir, þ.e. í 3. mánuði eða um 75 dögum eftir að árinu lýkur. Þær tölur eru nefndar áætlanir. Næstu tölur eru birtar í um miðjan september eða um 240 dögum eftir að árinu lýkur og eru það bráðabirgðatölur. Talað er um bráðabirgðatölur þar til í mars 27 mánuðum eftir að árið líkur en engu að síður geta þær tekið breytingum eftir því sem tilefni gefst.

Vinnslutími talna samkvæmt framleiðsluuppgjöri er nokkuð annar en fyrstu tölur samkvæmt því eru birtar í 15. mánuði eftir að árinu lýkur en fram til þess tíma eru gerðar áætlanir um atvinnuvegi en sundurliðun þeirra áætlana er lítil.
Ársfjórðungslegir þjóðhagsreikningar eru birtir 75 dögum eftir að ársfjórðungnum lýkur. Fyrri ársfjórðungar eru þá jafnframt endurskoðaðir. Ársfjórðungar taka einnig breytingum eftir því sem árstölur breytast.

2.3 Stundvísi birtingar

Niðurstöður eru birtar samkvæmt birtingaráætlun Hagstofunnar. Til þessa hafa ekki orðið tafir frá áður tilkynntum dagsetningum.

2.4 Tíðni birtinga

Sjá grein 2.2 hér að framan.

3. Áreiðanleiki og öryggismörk


3.1 Nákvæmni gagna og áreiðanleiki

Á árinu 2014 var hið nýja þjóðhagsreikningakerfi Evrópusambandsins, ESA 2010, tekið í notkun. Við undirbúning þess voru ýmsar áætlunaraðferðir teknar til endurskoðunar og matsfjárhæðum breytt eftir því sem ástæða var talin til.

3.2 Skekkjuvaldar í gögnum

Skekkjur eða ónákvæmni í gögnum setja vissulega mark sitt á tölur um þjóðhagsreikninga. Þó má segja að með samræmdri meðhöndlun gagnanna frá ári til árs og kerfisbundinni afstemmingu framleiðslu- og ráðstöfunar megi draga verulega úr skekkju í frumheimildum. Í sumum tilvikum kunna t.d. tölur frá framleiðsluhlið að benda til vanmats. Ef aðrar og að líkindum traustari heimildir um neyslu styrkja grunsemdir um vanmat er byggt á þeim.

3.3 Tölur um öryggismörk/skekkjumælingar

Engar sérstakar rannsóknir hafa verið gerðar á skekkju eða öryggismörkum í íslenskum þjóðhagsreikningum.

4. Samanburður


4.1 Samanburðarhæfi milli tímabila

Ein af grunnhugmyndunum með þjóðhagsreikningum er að fylgt skal samræmdum aðferðum frá ári til árs í því skyni að tímaraðir verði eins sambærilegar og kostur er. Með tilkomu nýrra og betri heimilda eða aðferða eitthvert ár getur sambærileikinn þó raskast og er þá leitast við að leysa þann vanda með því að reikna breytingaárið samkvæmt bæði gömlu og nýju aðferðinni og nota breytingaárið sem tengiár, keðjutenging. Sem dæmi um slíka breytingu má nefna upptöku nýs atvinnugreinaflokkunarkerfis (ÍSAT 95) árið 1997.

4.2 Samanburður við aðrar hagtölur

Samanburður við innlendar hagtölur er ýmsum takmörkunum háður því oftar en ekki byggja tölur um þjóðhagsreikninga á slíkum hagtölum og samanburðurinn er þá fremur á vinnslustigi en lokastigi. Það á til að mynda við um heildartölur um ársreikninga í einstökum atvinnugreinum í dýpstu sundurliðun. Samanburður við ársverk eða fjármunaeign í atvinnugreinum er marktækari og iðulega gerður.

Samanburður við erlendar hagtölur er afar algengur og ætti að vera marktækur fyrir þau lönd sem fylgja sama staðli við gerð þjóðhagsreikninga.

4.3 Samband milli bráðabirgðatalna og lokatalna

Litið er svo á að engar þjóðhagsreikningatölur séu lokatölur en 27 mánuðum eftir að árinu lýkur eru tölur ekki lengur kallaðar bráðabirgðatölur, sbr. grein 2.2 hér að framan.

5. Aðgangur að upplýsingum


5.1 Miðlunarleiðir

Vefur Hagstofu Íslands
Hagtíðindi
Gagnabankar OECD og Eurostat sem eru aðgengilegir á heimasíðum þessara stofnanna.
Árbók OECD um þjóðhagsreikninga: OECD: National Accounts of OECD countries, Volume I og II
Norræna tölfræðiárbókin: Nordic Statistical Yearbook

5.2 Grunngögn; varðveisla og notkunarmöguleikar

Grunngögn eru varðveitt á Hagstofunni. Afstaða er tekin til þess hverju sinni hvort utanaðkomandi aðilar fá aðgang að ítarlegri sundurliðun gagna en birt eru. Í því sambandi er verndun trúnaðarupplýsinga höfð í fyrirrúmi og fylgt verklagsreglum Hagstofu Íslands um meðferð trúnaðargagna, sem eru aðgengilegar á heimasíðu Hagstofunnar.

5.3 Skýrslur

Helstu skýrslur um aðferðafræði þjóðhagsreikninga á Íslandi eru:
 • Gross National Income Inventory (ESA95) Iceland; Statistics Iceland, March 2004; birt á heimasíðu Hagstofunnar. Hér er um að ræða ítarlega lýsingu á aðferðum við gerð þjóðhagsreikninga á verðlagi hvers árs. Skýrslan er tekin saman að kröfu Eurostat sem hefur ákveðið kaflaskiptingu og umfjöllunarefni innan hvers kafla. Sambærilegar lýsingar eru til fyrir öll löndin á Evrópska efnahagssvæðinu.
 • Þjóðhagsreikningar 1945-1992; Þjóðhagsstofnun, Reykjavík Ágúst 1994
 • Lýsing á aðferðum við útreikning á magnbreytingum (keðjutengingu), Hagtíðindi: Landsframleiðslan - bráðabirgðatölur 2004, endurskoðun 1990-2003, 13. september 2005.
 • Lýsing á aðferðum við mat á reiknaðri bankaþjónustu, Hagtíðindi: Landsframleiðslan 2005 - áætlun, 14. mars 2006.
 • Innleiðing nýs þjóðhagsreikningastaðals ESA 2010, Hagtíðindi: Landsframleiðslan 2013 - endurskoðun, 19. september 2014.

5.4 Aðrar upplýsingar

Nánari upplýsingar um einstaka þætti þjóðhagsreikninga veita einstakir starfsmenn Þjóðhagsreikningadeildar, sjá Netfangaskrá.

© Hagstofa �slands, �ann 2-11-2017