Gæðastefna Hagstofu Íslands
Hagstofa Íslands er sjálfstæð og óháð stofnun sem sinnir rannsóknum og safnar, vinnur og miðlar hagtölum sem lýsa samfélaginu. Stefna Hagstofu Íslands er að það sé gert með faglegum hætti, hlutleysis og trúnaðar sé gætt og að hagtölur séu nákvæmar, áreiðanlegar, samræmdar og samanburðarhæfar. Jafnframt er lögð áhersla á að hagtölur séu í samræmi við þarfir og væntingar viðskiptavina, að þeim sé miðlað stundvíslega, eins fljótt og hægt er, með notendavænum hætti. Til að þetta nái fram að ganga er sjálfstæði Hagstofu Íslands tryggt með lögum og jafnframt þarf að tryggja að þar starfi vel menntað starfsfólk sem býr yfir þekkingu og reynslu á við það sem best gerist. Eins þarf Hagstofa Íslands að samhæfa opinbera hagskýrslugerð á Íslandi, einfalda söfnun gagna, nýta stjórnvaldsskrár og beita traustum aðferðum sem tryggja hóflega svarbyrði. Hagstofan leggur áherslu á góða þjónustu þar sem gæði og skilvirkni eru í stöðugri þróun til að mæta vaxandi kröfum, innlendum jafnt sem alþjóðlegum. Hagstofan er virkur þátttakandi í alþjóðlegu starfi og stenst kröfur evrópska hagskýrslusamstarfsins.
Starfsemi Hagstofu Íslands fer fram í vel hönnuðum verkferlum og samkvæmt vönduðum áætlunum sem fylgt er eftir. Mælikvarðar á gæði og aðra mikilvæga þætti starfseminnar eru vel skilgreindir og vandlega er fylgst með árangri. Séu mælingar ekki í samræmi við sett markmið er brugðist við með umbótum á ferlum og verklagi.
Gæðakerfi Hagstofu Íslands byggir á meginreglum í evrópskri hagskýrslugerð (European Statistics Code of Practice, skammstafað CoP) sem gefnar eru út af Evrópska hagskýrslusamstarfinu (ESS) en þær eru 15 talsins:
1. Faglegt sjálfstæði
2. Heimildir til gagnasöfnunar
3. Fjárhagslegt sjálfstæði
4. Gæðaskuldbindingar
5. Trúnaðarkvaðir við hagskýrslugerð
6. Óhlutdrægni og hlutlægni
7. Traust aðferðafræði
8. Viðeigandi tölfræðilegar aðferðir
9. Hófleg svarbyrði
10. Hagkvæmni í rekstri
11. Notagildi
12. Nákvæmni og áreiðanleiki
13. Tímanleiki og stundvísi
14. Samræmi og samanburðarhæfni
15. Aðgengi og skýrleiki