Spurt og svarað

Vísitala neysluverðs er algengasti mælikvarðinn á verðbólgu. Vísitalan mælir í hverjum mánuði verðbreytingar á tilteknu safni vöru og þjónustu sem myndar grunn vísitölunnar. Í grunninum, eða „vörukörfunni“ eins og oft er talað um, eru áætluð ársútgjöld meðalheimilis til kaupa á vöru og þjónustu. Hún mælir hvorki magnbreytingu neyslunnar né breytingu á neysluhegðun, enda er henni ekki ætlað að gera það. Vísitalan er reiknuð samkvæmt alþjóðlegum stöðlum.
Vísitalan er fyrst og fremst reiknuð til að mæla verðbólgu, þ.e. breytingar á verðgildi eða kaupmætti peninga. Ef bera á saman tiltekin útgjöld eða tekjur yfir ákveðið tímabil þarf að miða við óbreyttan kaupmátt peninga. Til þess að það sé kleift er mikilvægt að þeirri körfu vöru og þjónustu sem að baki liggur sé haldið fastri yfir ákveðið tímabil, algengast er að karfan endurspegli ársútgjöld. Verðbólga er mikilvægur mælikvarði á stöðugleika í efnahagslífinu.
Já, hún byggist á lögum um vísitölu neysluverðs nr. 12/1995 með síðari tíma breytingum. Þar segir að vísitalan skuli mæla verðbreytingar einkaneyslu og að hún skuli reist á niðurstöðum útgjaldarannsóknar.
Í lögum um vísitölu neysluverðs er kveðið á um að Hagstofan ákveði grunn vísitölunnar út frá útgjaldarannsókn og þeim gögnum sem tiltæk eru og ákveði þær aðferðir sem beitt er við útreikninginn. Tekið er mið af alþjóðlegum leiðbeiningum og fyrirmælum og eru aðferðirnar í fullu samræmi við reglugerðir Evrópusambandsins. Hagstofa Íslands hefur frá árinu 1992 tekið þátt í umfangsmiklu samstarfi um aðferðafræði með helstu vísitölusérfræðingum heims og útreikningur vísitölunnar miðast við þær aðferðir sem helst er mælt með.
Grunnur vísitölunnar er byggður á útgjaldarannsóknum Hagstofunnar. Frá því árið 2000 hefur útgjaldarannsóknin verið samfelld, þ.e. hún er gerð ár hvert og stendur allt árið. Grunnur vísitölunnar er endurnýjaður einu sinni á ári. Grunnurinn tekur mið af neyslu fólks sem býr á Íslandi en ekki neyslu ferðamanna sem sækja landið heim.

Ef vara eða þjónusta er ekki aðgengileg en von er á henni aftur er verðið látið standa óbreytt frá fyrri mánuði. Það sama er gert ef ekki er unnt að finna strax nýja vöru eða þjónustu í staðinn til að mæla verð á. Þessi aðferð er algeng og alþjóðlega viðurkennd.

Vegna viðbragða til að hefta útbreiðslu COVID19 hafa mörg fyrirtæki og verslanir þurft að loka. Þetta hefur helst þau áhrif að draga úr þjónustu sem neytendur hafa aðgang að og líkast til fækkar vörum. Á meðan slíkt ástand varir getur Hagstofan ekki mælt verð á þessum stöðum. Sé ekki hægt að mæla vegna lokana gildir það verð sem áður var mælt fyrir lokun. Sú mæling telst fullnægjandi enda engin verðþróun sem fer framhjá mælingu þar sem engin viðskipti fara fram. Verð vörunnar eða þjónustunnar er svo mælt að nýju þegar viðskipti hefjast á ný.

Fleiri leiðir eru til, svo sem að láta vöruna taka verðbreytingu skyldra vara eða finna aðra leið til að meta trúverðuga verðbreytingu. Slíkar aðferðir eru hannaðar til að meta verð þar sem ekki hefur tekist að afla svara um verð á vörum sem eðlileg viðskipti hafa verið með.

Skoða þarf hvert tilvik fyrir sig í verðmælingu til að finna hvaða aðferð er viðeigandi við að meta verð vöru eða þjónustu. Alltaf er gætt varfærni við verðmat. Þess er ekki að vænta að vísitölur taki stökk í neysluflokkum þar sem viðskipti eru lítil eða engin.

Hafa ber í huga að ástandið sem skapast hefur vegna útbreiðslu COVID19 mun taka enda. Að því loknu er gert ráð fyrir að verslanir og fyrirtæki opni á ný og viðskipti hefjist. Neytendur munu leitast við að haga neyslu sinni í samræmi við sínar þarfir og tekjur og sækjast eftir vörum og þjónustu sem þeir þurftu að neita sér um á meðan á lokunum stóð.

Ef verslun lokar varanlega eru notaðar verðbreytingar á vörum í þeim verslunum sem eftir eru í úrtakinu. Hagstofan leitast við að bæta úrtakið jafnóðum og búðir eða vörur detta út.

Vegna viðbragða til að hefta útbreiðslu COVID19 er víða svo að verslanir eða fyrirtæki þurfa að loka. Þetta hefur helst þau áhrif að draga úr þjónustu sem neytendur hafa aðgang að og líkast til fækkar vörum. Á meðan slíkt ástand varir getur Hagstofan ekki mælt verð á þessum stöðum. Hagstofan lítur svo á að ástandið sem nú hefur skapast sé tímabundið og gengur út frá því að verslanir og fyrirtæki muni opna á ný að því loknu. Því verður ekki farið í vinnu við að skipta út búðum í úrtaki nema sýnilegt sé að þær muni ekki opna á ný. Sjá einnig svar við spurningunni „Hvernig er brugðist við ef vara er ekki til?“

Nei, vísitala neysluverðs mælir ekki breytingu á magni í vörukörfunni heldur verðbreytingar á þeirri vöru og þjónustu sem í henni er. Samdráttur eða aukning í neyslu heimila hefur því ekki bein áhrif á niðurstöður vísitölumælinga.

Sú neyslubreyting sem við verðum nú vitni að vegna útbreiðslu COVID19 er ekki afleiðing af því að neytendur hafi viljað breyta neysluhegðun sinni. Vegna þessara óvenjulegu ytri aðstæðna kaupa neytendur nú fyrst og fremst nauðsynlegar neysluvörur og þjónustu og fresta því sem getur beðið. Hagstofan vegur vísitölu neysluverðs með meðalneyslu sem er mæld yfir langan tíma en tekur ekki tillit til skammtímafrávika. Gert er ráð fyrir að áhrif af breyttum neysluvenjum vegna COVID19 verði tímabundin.

Já, verð getur mælst núll ef neytendur geta fengið vöru eða þjónustu ókeypis sem þeir hafa áður þurft að greiða fyrir. Þetta er sjaldgæft, en þó eru til dæmi um þetta í mælingu vísitölu neysluverðs á Íslandi.

Dæmi um þetta er þegar innheimtu veggjalda í Hvalfjarðargöngum var hætt í október 2018 en göngin opin fyrir umferð eftir sem áður. Þá var verð liðarins fært í núll af því að þarna var um að ræða þjónustu sem neytendur voru vanir að greiða fyrir og liðurinn hafði vægi í útreikningum vísitölu neysluverðs. (Í janúar 2019 hófst svo gjaldtaka í nýopnuðum veggöngum um Vaðlaheiði og hækkaði þá undirvísitalan 07248 Veggjöld á ný.)

Ef verslun lokar, þannig að vara eða þjónusta er tímabundið ekki aðgengileg, breytist verð ekki í núll. Það er vegna þess að neytendur geta ekki fengið vöruna eða þjónustuna ókeypis. Þess vegna er verð ekki fært í núll á liðum sem ekki er hægt að mæla í vísitölu neysluverðs vegna lokana sem rekja má til sóttvarnaraðgerða vegna COVID-19 kórónaveirunnar.

Sjá svör við „Hvernig er brugðist við ef vara eða þjónusta er ekki til?“ og „Hvernig er brugðist við ef verslun lokar?“ til að sjá hvernig verðmælingar eru metnar þegar ekki er hægt að mæla vegna tímabundinna aðgangshindrana.

Já, Hagstofan tók inn nýja samsetningu á vörukörfunni sem miðað er við í vísitölu neysluverðs 29. apríl 2020. Um var að ræða reglubundin grunnskipti sem fara fram árlega og miðaðist nýi grunnurinn við mars 2020. Til grundvallar lágu niðurstöður útgjaldarannsóknar árin 2016-2018. Þessi uppfærsla á vogum tók ekki tillit til skammtíma neyslubreytinga sem urðu vegna COVID19-veirunnar í mars og apríl, enda er gert ráð fyrir að þær neyslubreytingar muni ganga til baka þegar ástandið lagast.

Nei. Vogum neysluflokka er haldið föstum í mælingu vísitölu neysluverðs þrátt fyrir að vísbendingar séu um neyslutilfærslu vegna aðgerða sem miða að því að hefta útbreiðslu COVID19-veirunnar á Íslandi. Mælingar vísitölu neysluverðs miðast við fasta vörukörfu sem er vegin með almennum neysluvogum sem fengnar eru úr útgjaldarannsókn Hagstofu Íslands. Rannsókn á útgjöldum heimilanna skilar niðurstöðum um samsetningu neyslu í hefðbundnu árferði.

Neyslubreytingar tengdar COVID19 eru ekki vegna vilja neytenda til að breyta neysluhegðun sinni varanlega heldur hafa þeir forgangsraðað neyslu tímabundið vegna ytri aðstæðna. Þegar frá líður, og þessar aðstæður líða hjá, velja neytendur aftur neyslu í samræmi við sínar þarfir og tekjur. Þá er viðbúið að neyslan verði sambærileg og áður.

Hér liggur beint við að nota sýnidæmi. Ímyndum okkur neytenda sem hefur aðeins val um eina nauðsynjavöru og einn þjónustulið sem er ekki aðgengilegur vegna mikilvægra tímabundinna aðgerða.

Nauðsynjavaran gæti til að mynda verið matvara og þjónustuliðurinn gæti verið listviðburður. Vísitala neysluverðs er vegin saman út frá því hvernig neytandinn deilir útgjöldum sínum milli þessara tveggja neysluliða. Þegar öll útgjöld neytandans fara í matvöruna af því að listviðburðinum var aflýst er viðbúið að verð matvörunnar hækki vegna aukinnar eftirspurnar. Listviðburðurinn hvorki hækkar í verði né lækkar því hann fer ekki fram. Breyting vísitölunnar verður þá vegin breyting af hækkun á matvöru og óbreyttu verði listviðburðarins.

Ef vog listviðburðarins yrði hins vegar sett í núll myndi vog vísitölunnar fara að öllu leyti á matvöruna. Breyting vísitölunnar í heild myndi því verða sú sama og verðhækkunin á matvörunni. Sú staða getur eingöngu komið upp ef listviðburðir yrðu lagðir endanlega niður en þar sem listviðburðinum hefur aðeins verið frestað tímabundið er voginni ekki breytt..

Ástandið sem skapast hefur vegna COVID19 átti sér aðdraganda þó hann væri skammur. Í einhverjum tilfellum hafa neytendur nýtt tækifærið og birgt sig upp af nauðsynjavörum og að sama skapi fresta þeir nú neyslu sem getur beðið. Gengið er út frá því að ástandið vegna COVID19 sé tímabundið. Að því loknu munu neytendur á ný velja neyslu í samræmi við sínar þarfir og tekjur. Sú neysla kemur væntanlega til með að verða sambærileg og áður. Bjagi af völdum samdráttar í neyslu getur til skamms tíma leitt til vanmats á verðlagi en fari neyslan aftur í sambærilegt horf er slíkur bjagi óverulegur.

Já, mælingar vísitölu neysluverðs gefa vandaða og nákvæma mynd þrátt fyrir ástandið. Hagstofa Íslands mælir verðlag ítarlega í vísitölu neysluverðs og í góðri samvinnu við verslanir og fyrirtæki í landinu. Nú er viðbúið að margar verslanir og fyrirtæki þurfi að takast á við erfiðan rekstur á meðan ástandið vegna COVID19-veirunnar varir. Í sumum tilvikum munu þau þurfa að leggja niður eða takmarka starfsemi. Hagstofan mun í þeim tilvikum meta verð vörunnar eða þjónustunnar sem ekki verður neytendum aðgengileg á meðan. Sjá einnig svar við „Hvernig er brugðist við ef vara er ekki til?“ og „Er vægi neysluflokka endurskoðað ef neysla dregst saman eða stöðvast vegna COVID19 veirunnar?“

Ekki er sérstök ástæða til að ætla að þessar aðstæður ýti undir verðbólgu. Viðbúið er að nauðsynjavörur sem neytendur kaupa nú tímabundið í meira magni en venjulega hækki í verði á meðan verð á öðrum vörum sem neytendur kaupa í minna magni lækki eða haldi sama verði. Vægi neysluvara er ekki breytt vegna ástandsins enda talið að um skammtímaástand sé að ræða sem gangi til baka. Þar sem almenn eftirspurn er í minna lagi er líklegt að verðbreytingar haldist í lágmarki á meðan ástandið varir.

Þegar verðtrygging fjárskuldbindinga var tekin upp með lögum árið 1979 birti Seðlabanki Íslands samsetta lánskjaravísitölu sem byggð var á gildandi framfærsluvísitölu og byggingarvísitölu. Þessari aðferð var breytt árið 1989 er launavísitölu var bætt við. Árið 1995 voru sett lög um vísitölu neysluverðs, nr. 12/1995 og leysti hún vísitölu framfærslukostnaðar af hólmi. Þá var jafnframt ákveðið með lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, að nota einungis vísitölu neysluverðs til verðtryggingar.

Verðtrygging fjárskuldbindinga byggist á lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001 með síðari breytingum. Þar er kveðið á um að heimilt sé að verðtryggja sparifé og lánsfé sé miðað við vísitölu neysluverðs. Ákvörðun um að nota neysluverðsvísitölu til verðtryggingar er því ekki á valdi Hagstofunnar. Hún reiknar neysluverðvísitöluna eftir viðurkenndri alþjóðlegri aðferðafræði og í samræmi við lögin, nr. 12/1995, sem um hana gilda.

Slíkt er ætíð pólitísk ákvörðun og í sjálfu sér er ekkert sem kemur fræðilega í veg fyrir að hægt sé að miða við aðra mælikvarða. Þegar ákveðið var að nota neysluverðsvísitöluna eina til verðtryggingar vó þungt það sjónarmið að kostur væri að nota mælikvarða sem er almennur, umfangsmikill og vel þekktur innanlands og á alþjóðavettvangi.