Árið 2012 var hlutfall launa af launakostnaði 79,8% sem skiptist í 0,4% vegna hlunninda, 2,4% vegna eingreiðslna, 9,8% vegna orlofs og sérstakra frídaga og 67,2% vegna launa. Launagreiðendur bera annan launakostnað en beinar launagreiðslur til starfsmanna og voru þær greiðslur 20,2% af launakostnaði. Þær skiptast í 9,6% vegna mótframlags í lífeyris- og séreignasjóði, 7,0% vegna tryggingagjalds, 2,7% vegna kostnaðar við veikinda- og eftirlauna og 0,9% vegna kjarasamningsbundinna greiðslna.


Milli áranna 2008 og 2012 hefur samsetning launakostnaðar breyst og hlutfall annars launakostnaðar en launa aukist. Skýrist það helst af því að launagreiðslur í formi eingreiðslna lækkuðu og tryggingagjald hækkaði. Árið 2008 voru eingreiðslur 4,8% af launakostnaði en árið 2012 voru þær 2,4% og munar mest um breytingar á eingreiðslum í fjármálastarfsemi. Þá hækkaði hlutfall tryggingagjalds af launakostnaði úr 4,9% í 7,0% sem skýrist að mestu af breytingum á atvinnutryggingagjaldi sem er hluti af tryggingagjaldi.

Hlutfall annars launakostnaðar en launa hæst í heilbrigðis- og félagsþjónustu
Hlutfall annars launakostnaðar en launa var hæst í heilbrigðis- og félagsþjónustu eða 22,3% árið 2012 en lægst í byggingarstarfsemi eða 17,5%. Hátt hlutfall annars launakostnaðar í heilbrigðisþjónustu skýrist meðal annars af háu mótframlagi launagreiðenda í lífeyrissjóð og háu hlutfalli veikindafjarvista en veikindafjarvistir, sem hlutfall af launakostnaði, voru mestar í þeirri atvinnugrein. Í byggingarstarfsemi var minna um veikindi en í flestum öðrum atvinnugreinum.

Launakostnaður á greidda stund hæstur í fjármála- og vátryggingastarfsemi 
Launakostnaður á greidda stund var að meðaltali um 3.020 krónur árið 2012 sem er hækkun um 17,5% frá árinu 2008. Kostnaðurinn var lægstur í menningar-, íþrótta- og tómstundastarfsemi, eða um 2.320 krónur, en hæstur í fjármálastarfsemi, um 4.670 krónur á greidda stund. Hafa ber í huga að í einhverjum tilvikum geta vinnustundir verið vanmetnar, til dæmis þegar launamenn eru með fastlaunasamninga en slíkir samningar fela í sér að ekki er greitt sérstaklega fyrir tilfallandi yfirvinnu. Greiddar stundir innihalda allar greiddar fjarvistir, til dæmis vegna orlofs- og helgidaga og veikinda. Árið 2012 voru greiddar að meðaltali 1,24 stundir fyrir hverja unna vinnustund í þeim atvinnugreinum sem rannsóknin náði til.

Þessar niðurstöður má finna í nýju hefti Hagtíðinda um launakostnað 2012. Þar má einnig finna upplýsingar eftir atvinnugrein um fjölda launamanna sem fengu greitt mótframlag í séreignasjóði og hlutfall fjarvista vegna veikinda af greiddum stundum.

Um launakostnað
Rannsókn á launakostnaði á Íslandi byggir á niðurstöðum úr Labour Cost Survey sem er rannsókn sem Eurostat, hagstofa Evrópusambandsins, stendur fyrir og eru gögn fengin úr launarannsókn Hagstofu Íslands. Rannsóknin er framkvæmd á fjögurra ára fresti og er ætlað að veita upplýsingar um launakostnað og samsetningu hans í einstökum atvinnugreinum.

Launakostnaður 2012 - Hagtíðindi

Talnaefni