Börn í leikskólum hafa aldrei verið fleiri
Í desember 2008 sóttu 18.278 börn leikskóla á Íslandi og hafa leikskólabörn aldrei verið fleiri. Leikskólabörnum hefur fjölgað um 717 frá desember 2007 eða um 4,1%. Þessi mikla fjölgun skýrist að hluta til af stærri árgöngum barna á leikskólaaldri. Hlutfall barna sem sækja leikskóla hefur líka hækkað, sérstaklega í yngri aldurshópunum. Þannig sóttu 36,4% barna á öðru ári leikskóla í desember 2008 en voru 30,8% í desember 2007.

Börnum með erlent móðurmál fækkar
Börnum sem hafa annað móðurmál en íslensku hefur fjölgað ár frá ári frá því að gagnasöfnun Hagstofu Íslands um leikskóla hófst árið 1998. Nú fækkar börnum með erlent móðurmál í fyrsta skipti frá 1998. Í desember 2008 var 1.521 barn með erlent móðurmál, sem er 61 barni færra en í desember 2007. Hlutfall leikskólabarna með erlent móðurmál lækkar jafnframt úr 9,0% í 8,3%. Þessi fækkun á sér eingöngu stað á landsbyggðinni, því börnum með erlent móðurmál í leikskólum á höfuðborgarsvæðinu fjölgar um fimm. Þrátt fyrir þessa fækkun barna með erlent móðurmál fjölgar börnum sem hafa pólsku að móðurmáli um 73, úr 328 í 401.

Börnum sem njóta sérstaks stuðnings fækkar frá 2007
Í desember 2008 nutu 934 börn sérstaks stuðnings vegna fötlunar, félagslegra eða tilfinningalegra erfiðleika, sem eru 5,1% allra leikskólabarna. Börnum sem njóta stuðnings fækkaði um 278 frá árinu 2007. Það ár voru börn sem nutu stuðnings óvenjumörg, eða 6,9% leikskólabarna. Fjöldi barna sem naut stuðnings í desember 2008 er svipaður og árin 2002-2006 en á þessu árabili nutu 901-1.081 börn stuðnings. Hlutfall barna sem nýtur stuðnings er þó lægra en þessi ár vegna fjölgunar leikskólabarna á tímabilinu, og hefur ekki lægra hlutfall barna notið stuðnings síðan 1999.

Börnum á einkareknum leikskólum fjölgar áfram
Starfandi leikskólar 1. desember 2008 voru 276 talsins. Alls voru 238 reknir af sveitarfélögum en 38 af einkaaðilum. Alls sóttu 2.366 börn nám í einkareknum leikskólum í desember 2008 og hefur þeim fjölgað um 191 börn frá árinu áður, eða um 8,8%.

Talnaefni