Hagstofa Íslands hefur tekið saman yfirlit yfir fjölda nemenda í grunn- og framhaldsskólum sem læra erlend tungumál skólaárið 2005-2006 í tilefni af degi tungumála í Evrópu 26. september.

Yngri nemendum sem læra ensku fjölgar verulega
Enska er fyrsta erlenda tungumálið í grunnskólum og jafnframt það mál sem flestir grunnskólanemendur læra. Flestir grunnskólanemar hefja enskunám í 5. bekk og dönskunám í 7. bekk. Enskunemum hefur fjölgað ár frá ári og stunduðu 28.782 grunnskólabörn enskunám skólaárið 2005-2006. Aldrei áður hafa fleiri grunnskólabörn verið að læra ensku. Dönskunemum hefur einnig fjölgað en nú læra 18.237 nemendur grunnskólans dönsku. Alls völdu 226 nemendur sænsku og 127 nemendur norsku í stað dönsku.

Í nokkrum skólum hefst kennsla í erlendum tungumálum fyrr en kveðið er á um í aðalnámsskrá. Fleiri 6 ára nemendur læra nú ensku en nokkru sinni fyrr. Skólaárið 2005-2006 lærðu 1.111 nemendur í 1.-3. bekk ensku í grunnskólum landsins sem er rúmlega tvöföldun frá fyrra skólaári, en þá lærðu 506 nemendur í 1.-3. bekk ensku.

Nemendum í spænsku fjölgar mikið
Í mörgum grunnskólum landsins er nemendum boðið að læra þriðja erlenda tungumálið. Á undanförnum árum hafa flestir nemendur lagt stund á nám í þýsku og frönsku. Skólaárið 2005-2006 völdu flestir nemendur þýsku (588) en næstflestir spænsku (467). Þar á eftir völdu nemendur frönsku (260). Fjöldi nemenda í spænsku hefur þrefaldast frá fyrra skólaári. Nemendum í þýsku heldur áfram að fækka og hefur þeim fækkað úr 945 skólaárið 2003-2004.

Rúmlega 74% íslenskra framhaldsskólanema læra erlend tungumál
Skólaárið 2005-2006 lögðu 17.307 framhaldsskólanemar stund á nám í erlendu tungumáli eða 74,1% allra nemenda á þessu skólastigi. Árið á undan lærðu 16.651 nemendur erlend tungumál, en það eru 73,7% nemenda á framhaldsskólastigi. Nemendum í erlendum tungumálum hefur fjölgað um 656 milli ára en það er hlutfallsleg fjölgun sem nemur tæplega hálfu prósentustigi.

Hlutfall nemenda sem læra erlend tungumál svipað síðustu þrjú ár
Frá 1999 til 2002 var einungis safnað upplýsingum um tungumálanám nemenda á haustmisseri og því er miðað við nemendur á haustmisseri þegar samanburður er gerður við gögn frá þessum árum. Mynd 2 sýnir hlutfall framhaldsskólanema í tungumálanámi á haustin og að auki hlutfall allra nemenda sem læra tungumál skólaárin 2003/2004-2005/2006, þ.e. að meðtöldum nemendum á vormisseri. Svo er að sjá að hlutfall nemenda í erlendum tungumálum sé svipað þessi þrjú skólaár eða í kringum 74%.

 

Stúlkur eru að jafnaði fleiri í hópi tungumálanemenda. Skólaárið 2005-2006 lærðu 75,7% stúlkna á framhaldsskólastigi erlend tungumál en sambærileg tala meðal pilta var 72,5%. Munurinn á sókn kynja í tungumálanám er því 3,2 prósentustig en þessi kynjamunur er þó heldur minni en oft áður. Árið 1999 var munur á sókn kynjanna í tungumálanám 6,9 prósentustig en þá lögðu 73,7% stúlkna á framhaldsskólastigi stund á tungumálanám en 66,8% pilta.

Þýskunemendum fækkar hlutfallslega í framhaldsskólunum
Flestir framhaldsskólanemendur læra ensku, eða 14.698 nemendur skólaárið 2005-2006. Danska kemur næst á eftir en 8.738 nemendur stunduðu dönskunám þetta sama ár. Enska og danska eru skyldunámsgreinar hjá flestum framhaldsskólanemum. Þýska er þriðja algengasta erlenda tungumálið. Skólaárið 2005-2006 voru 4.892 nemendur skráðir í þýskunám en það voru 21,0% nemenda á framhaldsskólastigi. Spænska kemur næst á eftir þýsku en 2.780 nemendur lærðu spænsku, þ.e. 11,9% framhaldsskólanema. Frönsku lærðu 2.746 nemendur, eða 11,8% framhaldsskólanema. Nemendur í spænsku eru nú í fyrsta sinn fleiri en nemendur í frönsku þegar litið er á tölur bæði frá hausti og vori, en frönskunemar voru fleiri á haustmisseri en nemendur í spænsku. Þýsku- og frönskunemum hefur fækkað hlutfallslega frá haustinu 1999 þegar 26,7% framhaldsskólanema lærðu þýsku og 12,5% lærðu frönsku en einungis 4,4% spænsku. Spænskunni hefur því vaxið fiskur um hrygg með hverju ári. Þess ber að geta að tölur á milli ára eru ekki samanburðarhæfar nema að eingöngu sé miðað við haustmisseri eins og áður er getið. 

 

Um gögnin
Gögnum um tungumálanám nemenda grunnskóla er safnað einu sinni á ári fyrir allt skólaárið. Sú söfnun fer fram á vormisseri. Gögnum um nemendur framhaldsskóla var allt til ársins 2002 einungis safnað á haustin. Á skólaárinu 2002-2003 var gagnasöfnuninni breytt og gögnum þá safnað bæði frá skólum en einnig beint úr nemendakerfinu INNU. Þá var einnig farið að safna gögnum vegna nemenda í tungumálanámi á vormisseri. Þó eru einungis taldir þeir nemendur í tungumálanámi á vormisseri sem eru skráðir í nám á haustmisseri sama skólaár. Upplýsinga er eingöngu aflað um nemendur í lifandi tungumálum og því eru ekki taldir nemendur í forngrísku, latínu né heldur esperanto.

Talnaefni
  Grunnskólar
  Framhaldsskólar