Hlutfall kvenna hefur aldrei verið hærra í hópi blaða- og fréttamanna. Af fullgildum félagsmönnum í félögum blaða- og fréttamanna við lok síðasta árs var hlutfall kvenna tæpt 43 af hundraði. Af samanlögðum félagmönnum beggja félaga voru konur 250 á móti 337 körlum.

Í árslok síðasta árs voru fullgildir félagsmenn í Blaðamannafélagi Íslands og Félagi fréttamanna samtals 587 talsins. Þar af voru félagsmenn Blaðamannafélagsins 533, en félagar Félags fréttamanna, sem fréttamenn Ríkisútvarpsins einir eiga aðild að, 54 að tölu. Fullgildum félagsmönnum í báðum félögum hefur fækkað nokkuð á undanförnum árum. Fullgildum félagsmönnum Blaðamannafélagsins hefur fækkað um 105, eða 16 prósent, frá því að þeir voru flestir árið 2006. Svipaða sögu er að segja um Félag fréttamanna, en þar hefur fullgildum félögum fækkað um 21, eða um 28 af hundraði, frá því að þeir voru flestir árið 2007 (sjá mynd 1).

 

Lengi vel var frétta- og blaðamennska álitinn fyrst og fremst vettvangur karla. Átti það jafnt við um blaðamennsku á einkareknum miðlum sem og í opinberum fjölmiðlum. Hlutur kvenna innan stéttarinnar hefur þó aukist jafnt og þétt, þótt hægfara hafi verið. Árið 1995 voru konur tæp 28 af hundraði félagsmanna í Blaðamannafélagi Íslands og 35 af hundraði af félagsmönnum í Félagi fréttamanna. Með árunum hefur hlutur kvenna á meðal félagsmanna í Blaðamannafélaginu vaxið nær samfellt á sama tíma og þróunin hefur verið mun ójafnari í Félagi fréttamanna (sjá mynd 2).


Um tölurnar
Hagstofa Íslands safnar árlega saman tölum um fjölda fullgildra félagsmanna Blaðamannafélags Íslands og Félags fréttamanna eftir kyni.

Talnaefni