Árið 2012 voru útgefin hér á landi 170 hljóðrit (geisladiskar og hljómplötur) með tónlist. Undanfarin ár hefur útgefnum hljóðritum með flutningi tónlistar fækkað talsvert frá því að fjöldi útgáfa var hæstur árið 2006, eða 292. Með tilkomu geisladiskanna undir lok níunda áratugar síðustu aldar hljóp verulegur vöxtur í útgáfu hljóðrita. Á árinu 1995 voru ríflega tvöfalt fleiri hljóðrit gefin út hér á landi miðað við árið 1990. Eftir nær samfellda aukningu í fjölda útgefinna titla frá 1990 og fram til ársins 2006, hefur útgáfan dregist nær samfellt saman, eða um 42 af hundraði (sjá mynd 1). Frá því um miðjan síðasta áratug hefur útgáfa á hverja 1,000 íbúa lækkað úr 0,9 í 0,5 hljóðrit á hverja 1.000 íbúa (sjá mynd 2).

 

 

Árið 2012 skiptist hljóðritaútgáfan eftir efni þannig að þrír fjórðu hlutar útgefinna hljóðrita innihéldu dægurtónlist af ýmsu tagi. Samanlögð útgáfa sígildrar tónlistar og ljóða- og kórsöngs nam átta af hundraði, og jass tónlistar og bræðings um önnur átta prósent. Útgáfa annarrar tónlistar var mun umfangsminni. Hlutfallsleg skipting milli tónlistartegunda hefur verið svipuð um árabil (sjá mynd 3).

 

Sala hljóðrita (geisladiska, platna og snælda) hefur dregist stöðugt saman hin síðari ár. Árið 2013 seldust 243.000 eintök hljómdiska og hljómplatna hér á landi, eða um 70 prósent færri en árið 2005 þegar salan náði hámarki, eða 823.000 eintökum. Á seinni árum hefur sala hljóðrita á stafrænum skrám (í niðurhali og streymi) vegið að nokkru upp á móti dvínandi sölu hljóðrita á efnislegu formi. Árið 2013 seldust yfir 3,8 milljónir eininga stafrænna skráa með tónlist (sjá mynd 4).
 

Heildar söluverðmæti hljóðrita og stafrænna skráa frá útgefendum nam árið 2013 466 milljónum króna, þar af nam sala hljóðrita (diska og platna) hátt í 407 milljónum á móti um 60 milljónum af sölu tónlistar í niðurhali og streymi.

Tölur um útgáfu hljóðrita eru fengnar úr Íslenskri útgáfuskrá sem Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn annast og tekur saman. Skráin er uppfærð reglulega og í henni birtist það efni sem til hefur náðst frá útgefendum og skráð er í bókasafnskerfinu Gegni. Niðurstöður talningar úr grunninum eru því ekki samhljóða frá einum tíma til annars. Hér er miðað við stöðu skráningar þann 11. febrúar 2015. Tölur um fjölda útgefinna hljóðrita hin síðustu ár eiga eftir að hækka með frekari innheimtu skylduskila frá útgefendum.

Upplýsingar um sölu hljóðrita eru fegnar úr árlegu upplagseftirliti Félags hljómplötuútgefenda.

Talnaefni