Í gær hófst úrslitakeppni heimsmeistaramótsins í knattspyrnu karla og á morgun leikur Ísland sinn fyrsta leik í þeirri keppni. Þetta mót vekur alla jafnan mikla athygli en ætla má að áhugi Íslendinga verði með allra mesta móti í þetta sinn enda í fyrsta skipti sem íslenska karlalandsliðið kemst í úrslitakeppnina.

En eru Íslendingar almennt áhugasamir um íþróttir? Evrópska lífskjararannsóknin varpar ljósi á þessa spurningu. Í viðauka við rannsóknina árið 2015 voru þátttakendur 16 ára og eldri spurðir hve oft þeir hefðu sótt íþróttaviðburði á undangengnum tólf mánuðum. Tölurnar má finna í gagnagrunni Eurostat.

Árið 2015 hafði rúmur helmingur landsmanna sótt a.m.k. einn íþróttaviðburð, en það var annað hæsta hlutfallið í Evrópu. Aðeins Holland var með hærra hlutfall árið 2015. Ef aðeins er horft til þeirra sem sóttu slíka viðburði fjórum sinnum eða oftar var hlutfallið tæp 32%, sem einnig var annað hæsta hlutfallið í Evrópu.

Áhugi á íþróttum virðist hafa aukist á milli 2006 og 2015 en árið 2006 var hlutfall þeirra sem hafði sótt a.m.k. einn íþróttaviðburð 8,7 prósentustigum lægra. Þessi hækkun færði Ísland úr fimmta í annað sætið. Aðeins í Hollandi jókst aðsókn meira en á Íslandi, eða um 13,5 prósentustig, en sú hækkun færði Holland úr níunda sæti í það fyrsta.




Alls staðar í Evrópu voru karlar líklegri en konur til að sækja íþróttaviðburði, en kynjabilið var nokkuð breytilegt á milli landa. Kynjabilið var minnst á Íslandi hjá þeim sem sóttu a.m.k. einn íþróttaviðburð, eða 8,3 prósentustig. Næst á eftir komu Holland og Malta með 9,1 og 10 prósentustiga mun á kynjunum. Ef grannt er skoðað má sjá að það er einkum aðsókn íslenskra kvenna á íþróttaviðburði sem skilar Íslandi öðru sætinu, en íslenskar konur voru í öðru sæti í Evrópu en íslenskir karlar í því áttunda.