Hvergi í Evrópu starfar jafnhátt hlutfall vinnandi fólks á sviði íþrótta og á Íslandi, eða 2% (1,9% starfandi kvenna og 2,2% karla). Þetta má m.a. sjá í evrópsku vinnumarkaðsrannsókninni á vef Eurostat. Af þeim 10 löndum þar sem íþróttageirinn er hlutfallslega stærstur eiga fimm lönd sæti í heimsmeistarakeppninni í fótbolta ásamt Íslandi, en þau eru Svíþjóð, Bretland, Spánn, Danmörk og Portúgal. Króatía er með fimmta lægsta hlutfallið af Evrópulöndunum.

Störfum í íþróttageiranum hefur fjölgað í Evrópu frá árinu 2011, mest í Slóvakíu, Ungverjalandi, Portúgal og Eistlandi þar sem árlegur vöxtur fór yfir 10%. Þá hefur störfum í íþróttum fjölgað meira en störfum á vinnumarkaði í heild víðast hvar í Evrópusambandinu, en hlutfallið jókst að meðaltali úr 0,7% árið 2011 í 0,8% árið 2016. Á Íslandi hefur störfum á sviði íþrótta ekki fjölgað meir en á vinnumarkaði almennt og hlutfallið því haldist stöðugt við 2%.

 

Í Lúxemborg og Frakklandi var aðferðum breytt við þennan útreikning á tímabilinu 2011–2016 og tölur því ekki sambærilegar. Þeim löndum er því sleppt hér.

Allar tölurnar eru fengnar af vef Eurostat.