Greiðslujöfnunarvísitala


0. Skráningaratriði fyrir viðfangsefni


0.1 Heiti

Greiðslujöfnunarvísitala

0.2 Efnisflokkur

Laun og tekjur

0.3 Umsjón; stofnun, deild, sérfræðingur o.s.frv.

Hagstofa Íslands
Laun, tekjur og menntun
Tölvupóstfang: laun@hagstofa.is
Sími: 528 1250

0.4 Tilgangur og aðdragandi

Launavísitala til greiðslujöfnunar kom til árið 1983 vegna misgengis verðlags og launa og var tilgangur hennar að dreifa hluta vaxtagreiðslna af lánum. Hún var reiknuð samkvæmt lögum nr. 63/1985 um greiðslujöfnun fasteignalána til einstaklinga. Árið 1988 var byrjað að verðtryggja fasteignaveðlán með neysluverðsvísitölu og á sama tíma voru sett lög um gerð launavísitölu. Síðan þá og til ársins 2008 hefur launavísitala til greiðslujöfnunar tekið breytingum launavísitölu. Í nóvember 2008 var gerð breyting á lögum nr. 63/1985 um greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga og kveðið á um nýja greiðslujöfnunarvísitölu með þann tilgang að að jafna greiðslubyrði af verðtryggðum fasteignaveðlánum einstaklinga." Í breytingarlögum nr. 133/2008 var einnig kveðið á um að Hagstofa Íslands skyldi birta greiðslujöfnunarvísitölu frá og með janúar 2008 í samræmi við ákvæði laganna og að launavísitala til greiðslujöfnunar skuli frá þeim tíma taka sömu breytingum og nýja greiðslujöfnunarvísitalan.

0.5 Notendur og notkunarsvið

Greiðslujöfnunarvísitalan skal samkvæmt 2. gr. laga nr.133/2008 ná til verðtryggðra lána einstaklinga sem tryggð eru með veði í fasteignum hér á landi hjá opinberum lánastofnunum, lífeyrissjóðum og fjármálafyrirtækjum sem hafa starfsleyfi á grundvelli laga um fjármálafyrirtæki hér á landi".

0.6 Heimildir

Samkvæmt 6. gr. laga nr. 133/2008 skal greiðslujöfnunarvísitalan vera samsett af launavísitölu, sbr. lög um launavísitölu, sem vegin er með atvinnustigi", en með atvinnustigi er átt við hlutfall sem miðast við 100% að frádregnu atvinnuleysi í hlutfalli af vinnuafli í viðkomandi mánuði samkvæmt uppgjöri Vinnumálastofnunar".

0.7 Lagalegur grundvöllur fyrir hagskýrslugerð

Lög nr. 133/2008, um breytingu á lögum nr. 63/1985, um greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga, með síðari breytingum.

0.8 Svarbyrði við innsöfnun

Engum frumgögnum er safnað við útreikninga þar sem greiðslujöfnunarvísitala er samsett af opinberum hagtölum; mánaðarlegri launavísitölu Hagstofu Íslands sem er vegin með atvinnustigi, sem Vinnumálastofnun reiknar og birtir.

0.9 Ákvæði vegna EES og ESB

Á ekki við.

1. Efni


1.1 Efnislýsing

Útreikningsaðferðir við greiðslujöfnunarvísitölu og hvaða gögn skuli nota við útreikning eru ákvarðaðar í lögum nr. 133/2008 en ekki af Hagstofu Íslands.

Samkvæmt 6. gr. laganna skal greiðslujöfnunarvísitalan vera samsett af launavísitölu, sbr. lög um launavísitölu, sem vegin er með atvinnustigi", en með atvinnustigi er átt við hlutfall sem miðast við 100% að frádregnu atvinnuleysi í hlutfalli af vinnuafli í viðkomandi mánuði samkvæmt uppgjöri Vinnumálastofnunar".

Grunntími nýrrar greiðslujöfnunarvísitölu var nóvember 2008 og vísitalan reiknuð aftur til janúar 2008.

Til dæmis var við útreikning vísitölunnar í nóvember 2008 notuð launavísitala í september 2008, sem var 352,2 stig og atvinnustig september 2008, 98,7%. Margfeldi þessara liða var sett sem greiðslujöfnunarvísitala og miðað við 100 í nóvember 2008. Í desember 2008 var notuð launavísitalan í október, 353,3 stig og atvinnustig í október, 98,1%. Margfeldi þessara liða gaf greiðslujöfnunarvísitöluna 99,7 stig (samanber dæmið hér fyrir neðan) og þannig koll af kolli.

Greiðslujöfnunarvísitala í desember 2008:

(353,3*0,981)*100 / (352,2*0,987) = 99,7

1.2 Tölfræðileg hugtök

Sjá efnislýsingu.

2. Tími


2.1 Viðmiðunartími talnaefnis

Viðmiðunartími greiðslujöfnunarvísitölu er næstliðinn mánuður en greiðslujöfnunarvísitala sem birt er í einum mánuði gildir til greiðslujöfnunar frá og með fyrsta degi næsta mánaðar.

2.2 Vinnslutími

Vinnslutími er sá sami og í tilfelli launavísitölu Hagstofu Íslands, eða að jafnaði um 22 dagar frá því að viðmiðunarmánuði lýkur.

2.3 Stundvísi birtingar

Greiðslujöfnunarvísitalan er birt samkvæmt birtingaráætlun Hagstofu Íslands klukkan 09:00. Samtímis birt launavísitala til greiðslujöfnunar. Birtingaráætlun má nálgast á vef Hagstofu Ísland.

2.4 Tíðni birtinga

Mánaðarlega.

3. Áreiðanleiki og öryggismörk


3.1 Nákvæmni gagna og áreiðanleiki


3.2 Skekkjuvaldar í gögnum


3.3 Tölur um öryggismörk/skekkjumælingar


4. Samanburður


4.1 Samanburðarhæfi milli tímabila

Greiðslujöfnunarvísitala byggir á opinberum hagtölum og er útreikningsaðferð hennar ákveðin með lögum. Breytingar á undirliggjandi hagtölum, þ.e. útreikningi Vinnumálastofnunar á atvinnustigi eða launavísitölu sem Hagstofa Íslands reiknar og birtir, geta því haft áhrif á samanburðarhæfni á milli tímabila.

4.2 Samanburður við aðrar hagtölur

Greiðslujöfnunarvísitölum er ekki ætlað annað hlutverk en kveðið er á um í lögum. Samkvæmt 1. gr í lögum nr. 133/2008. er tilgangur þeirra að jafna greiðslubyrði af verðtryggðum fasteignaveðlánum einstaklinga."

4.3 Samband milli bráðabirgðatalna og lokatalna

Engar bráðabirgðatölur eru birtar.

5. Aðgangur að upplýsingum


5.1 Miðlunarleiðir

Efnisflokkaðar veftöflur á vef Hagstofu Íslands.

5.2 Grunngögn; varðveisla og notkunarmöguleikar

Útreikningar greiðslujöfnunarvísitalna byggja á opinberum hagtölum, annars vegar mánaðarlegri launavísitölu Hagstofu Íslands (sjá vef Hagstofu Íslands; www.hagstofa.is) og hins vegar atvinnustigi sem Vinnumálastofnun reiknar (sjá vef Vinnumálastofnunar; www.vinnumalastofnun.is).

5.3 Skýrslur

Ekki eru gefnar út sérstakar skýrslur í tengslum við greiðslujöfnunarvísitölu.

5.4 Aðrar upplýsingar

Slóð á lög nr. 133/2008, um breytingu á lögum nr. 63/1985, um greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga, með síðari breytingum: www.althingi.is/altext/stjt/2008.133.html

© Hagstofa �slands, �ann 21-10-2013