Laun


0. Skráningaratriði fyrir viðfangsefni


0.1 Heiti

Laun

0.2 Efnisflokkur

Laun og tekjur

0.3 Umsjón; stofnun, deild, sérfræðingur o.s.frv.

Hagstofa Íslands
Laun, tekjur og menntun
Tölvupóstfang: laun@hagstofa.is
Sími: 528 1250

0.4 Tilgangur og aðdragandi

Efnisflokkurinn "Laun", lýsir launastigi (krónutölu), dreifingu launa og launasamsetningu. Ný tímaröð nær nú til áranna 2014-2016. Ætlunin er að gefa út sambærilega tímaröð fyrir árin 2008-2013. Þar til að sú tímaröð verður birt er hægt, að hluta til, að styðjast við tímaraðir í efnisflokknum Eldra efni" við samanburð á milli ára. Helsti munur á nýrri tímaröð og þeirri fyrri er að nú er hægt að sjá aukið niðurbrot á gögnum auk þess sem tölur um starfsstéttir og störf ná einnig til opinberra starfsmanna en ekki eingöngu starfsfólks á almennum vinnumarkaði eins og áður var. Þá hefur verið bætt við upplýsingum um grunndagvinnulaun og veginn fjölda í úrtakinu, auk þess sem að skilgreining á fullvinnandi einstaklingum hefur verið lítillega þrengd.
Talnaefni um laun var fyrst gefið út árið 2005 en nokkrar breytingar voru gerðar á aðferðafræði árið 2008 til þess að fanga betur ólíka samsetningu launa og var þá gefin út tímaröð aftur til ársins 1998.
Við samanburð við eldra talnaefni er rétt að hafa í huga að aðferðir og gögn hafa verið bætt.
Um er að ræða bráðabirgðagögn.

0.5 Notendur og notkunarsvið

Notendur eru aðilar á vinnumarkaði, stofnanir í hagrannsóknum, opinberir aðilar, ýmsir innlendir og erlendir rannsóknaraðilar, fjölmiðlar, fyrirtæki og einstaklingar. Efnisflokkurinn er notaður til að segja til um launastig, dreifingu launa og launasamsetningu. Honum er ekki ætlað að lýsa launaþróun miðað við fasta samsetningu eins og launavísitala heldur notuð til að lýsa launastigi miðað við samsetningu vinnumarkaðarins hverju sinni. Breyting launa milli tímabila endurspeglar breytingu launa á tímabilinu en einnig breytingar í samsetningu vinnumarkaðar. Gögnin eru einnig notuð til viðmiðunar í samningagerð og við gerð evrópskra og alþjóðlegra fyrirspurna.

0.6 Heimildir

Tölfræði um laun er byggð á upplýsingum úr launarannsókn Hagstofu Íslands. Launarannsóknin byggist á handahófsúrtaki fyrirtækja og sveitarfélaga með tíu eða fleiri starfsmenn. Notað er heildarsafn ríkisstarfsmanna. Launaupplýsingar eru fengnar um öll störf og er gagna aflað mánaðarlega rafrænt frá fyrirtækjum í úrtaki í gegnum hugbúnað sem notaður er til launaútreikninga. Þau atriði sem safnað er í launarannsókn eru þegar til staðar í hugbúnaði fyrirtækja. Safnað er ítarlegum upplýsingum um laun, launakostnað, greiddar stundir og ýmsa bakgrunnsþætti starfsmanna og launagreiðenda.
Launarannsókn Hagstofu Íslands er úrtaksrannsókn og við gerð úrtaksramma eru notuð staðgreiðslugögn frá ríkisskattstjóra.

0.7 Lagalegur grundvöllur fyrir hagskýrslugerð

Lög um Hagstofu Íslands nr. 163/2007.

0.8 Svarbyrði við innsöfnun

Reynt er að halda svarbyrði fyrirtækja, sveitarfélaga og stofnana í lágmarki í launarannsókn. Í upphafi er farið í gegnum tæknileg atriði með sérfræðingi Hagstofunnar. Launasamsetning rekstrareiningar er skoðuð og launaliðir tengdir færslu rannsóknarinnar þannig að samræmis sé gætt við aðrar rekstrareiningar. Þegar innleiðingarferli er lokið senda rekstrareiningar mánaðarlega skilagrein í formi textaskjals til Hagstofunnar. Ef koma upp álitamál við vinnslu gagna er haft samband við viðkomandi rekstrareiningu.

0.9 Ákvæði vegna EES og ESB

Engin ákvæði EES eða ESB eiga við.

1. Efni


1.1 Efnislýsing

Efnisflokknum Laun", er ætlað að svara því hvaða laun eru greidd á íslenskum vinnumarkaði. Meðallaun eru reiknuð sem meðaltal launa þeirra einstaklinga sem tilheyra ákveðnum hópi. Einstaklingur er sá launamaður sem er í starfi hjá sama fyrirtæki, í sömu atvinnugrein og í sama starfi á tilteknu tímabili. Upplýsingar um laun eru brotin niður í þrjá flokka: eftir launþegahópi og starfsstétt, atvinnugrein og starfsstétt og niður á einstök störf. Upplýsingarnar eru einnig birtar eftir kyni.
Fyrir fullvinnandi einstaklinga eru reiknuð fjögur launahugtök, grunnlaun, regluleg laun, regluleg heildarlaun og heildarlaun og þannig má sjá samsetningu launa.
Laun einstaklings sem ekki er fullvinnandi eru umreiknuð í fullt starf. Einungis eru reiknuð grunnlaun og regluleg laun fyrir einstaklinga sem ekki eru fullvinnandi.

Eftirfarandi töflur eru birtar fyrir efnisflokkinn "Laun"

 • Laun fullvinnandi launamanna eftir starfi og kyni
 • Laun eftir launþegahópi, starfsstétt og kyni
 • Laun eftir atvinnugrein, starfsstétt og kyni
 • Dreifing launa fullvinnandi launamanna eftir launþegahópi og starfsstétt
 • Dreifing launa fullvinnandi launamanna eftir atvinnugrein og starfsstétt

Í efnisflokknum Laun - eldra efni" eru birtar eldri tímaraðir sem er að hluta til hægt að nota til samanburðar við nýjar töflur.

Töflurnar eru tvískiptar:
Töflur sem ná til vinnumarkaðarins í heild árin 2008-2014:

 • Laun eftir launþegahópi og kyni
 • Laun eftir atvinnugrein (ÍSAT08) og kyni
 • Dreifing launa fullvinnandi launamanna eftir launþegahópi
 • Dreifing launa fullvinnandi launamanna eftir atvinnugrein (ÍSAT08)

Töflur sem ná eingöngu til almenns vinnumarkaðar 1998-2014:

 • Laun fullvinnandi launamanna á almennum vinnumarkaði eftir starfi og kyni
 • Laun á almennum vinnumarkaði eftir starfsstétt og kyni
 • Dreifing launa fullvinnandi launamanna á almennum vinnumarkaði eftir starfstétt
 • Laun á almennum vinnumarkaði eftir atvinnugrein (ÍSAT95) og kyni 1998-2011
 • Dreifing launa fullvinnandi launamanna á almennum vinnumarkaði eftir starfstétt
 • Dreifing launa fullvinnandi launamanna á almennum vinnumarkaði eftir atvinnugrein (ÍSAT95) 1998-2011

1.2 Tölfræðileg hugtök

Laun byggja á launum einstaklinga í ákveðnum launþegahópi, atvinnugrein, starfsstétt eða starfi.

Einingar og þýði
Þýði launarannsóknar Hagstofu Íslands eru allir launamenn sem starfa hjá fyrirtækjum og sveitarfélögum með 10 eða fleiri starfsmenn. Notað er heildarsafn ríkisstarfsmanna. Í útreikningum á launum er notað deiliúrtak launamanna 18 ára og eldri úr launarannsókninni. Úrtaksramminn byggir á staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra.

Úrtak
Úrtak
launarannsóknar nær nú til eftirfarandi atvinnugreina (ÍSAT08): Framleiðsla (C), rafmagns-, gas- og hitaveitur (D), vatnsveita, fráveita, meðhöndlun úrgangs og afmengun (E), byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð (F), heild- og smásöluverslun, viðgerðir á vélknúnum ökutækjum (G), flutningur og geymsla (H) og fjármála- og vátryggingastarfsemi (K), opinber stjórnsýsla og varnarmál; almannatryggingar (O), fræðslustarfsemi (P), heilbrigðis- og félagsþjónusta (Q). Þessar atvinnugreinar ná til um 80% af launamanna á íslenskum vinnumarkaði.
Í atvinnugrein J vantar upplýsingar um smærri fyrirtæki og fyrirtæki á sviði upplýsingatækni.
Atvinnugreinar O, P og Q byggja eingöngu á úrtaki opinberra starfsmanna, þ.e. starfsmanna ríkis og sveitarfélaga. Þeir eru um 95% þýðis í O, tæplega 90% í P og 80% í Q. Vegna þessa er vægi opinberra starfsmanna hærra í úrtakinu en í þýðinu eða um 50% í stað 35%.


Í eldra efni þarf að hafa í huga að úrtak launarannsóknar hefur breyst í gegnum tíðina og gögn
fyrri ára byggja á eftirfarandi atvinnugreinum:
 • 1998-2004: Niðurstöður byggja á ÍSAT95 atvinnugreinaflokkuninni og ná til atvinnugreinanna: Iðnaður (D), byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð (F), verslun og ýmis viðgerðaþjónusta (G) og samgöngur og flutningar (I).
 • 2005-2011: Niðurstöður byggja á ÍSAT95 atvinnugreinaflokkuninni og ná til atvinnugreinanna: Iðnaður (D), byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð (F), verslun og ýmis viðgerðaþjónusta (G), samgöngur og flutningar (I) og fjármálaþjónusta, lífeyrissjóðir og vátryggingar (J).
 • 2012-2014: Bráðabirgðatölur. Niðurstöður byggja á ÍSAT08 atvinnugreinaflokkuninni.
o Á almennum vinnumarkaði ná gögnin til atvinnugreinanna: Framleiðsla (C), rafmagns-, gas- og hitaveitur (D), vatnsveita, fráveita, meðhöndlun úrgangs og afmengun (E), byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð (F), heild- og smásöluverslun, viðgerðir á vélknúnum ökutækjum (G), flutningur og geymsla (H) og fjármála- og vátryggingastarfsemi (K). Í atvinnugrein J vantar upplýsingar um smærri fyrirtæki og fyrirtæki á sviði upplýsingatækni.
o Á vinnumarkaðinum í heild ná gögnin til ofangreindra atvinnugreina og að auki: Opinber stjórnsýsla og varnarmál; almannatryggingar (O), fræðslustarfsemi (P), heilbrigðis- og félagsþjónusta (Q). Atvinnugreinar O, P og Q byggja eingöngu á úrtaki opinberra starfsmanna, þ.e. starfsmanna ríkis og sveitarfélaga.

Breytur
 • Laun: Grunndagvinnulaun, vaktaálag, eftirvinna, álagsgreiðslur, bónusgreiðslur, kostnaðargreiðslur, yfirvinnulaun, fyrirframgreidd mæling, uppgjör mælinga, ákvæðisgreiðslur, eingreiðslur, veikindalaun, orlofslaun og önnur laun.
 • Greiddar stundir: Stundir í dagvinnu, vaktavinnu, eftirvinnu, uppmælingum og yfirvinnustundir.

Bakgrunnsþættir einstaklinga og launagreiðanda í úrtaki: Rekstrareining, launamaður, starf, atvinnugrein, kyn, vinnutími og aldur.

Tölfræðilegar stærðir

·Vogir: Þegar meta á meðaltal, miðtölu, fjórðungsmörk og dreifingu þarf að taka tillit til mismunandi vægis einstaklinga þar sem um úrtaksrannsókn er að ræða. Við útreikning á launum á almennum vinnumarkaði eru notaðar tvær vogir. Í fyrsta lagi er notuð vog sem tekur tillit til samsetningar á vinnumarkaði og tekur mið af vægi úrtaks af heildarlaunasummu atvinnugreinar samkvæmt staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra. Ef laun væru reiknuð án hennar fengju stór fyrirtæki of mikið vægi þannig að einungis væri hægt að draga ályktanir um laun einstaklinga sem vinna hjá stórum fyrirtækjum. Með því að nota umrædda vog er litlum fyrirtækjum gefið meira vægi og þannig tryggt að meðaltalið verði nær raunverulegu meðaltali þýðisins. Í öðru lagi er notuð vog sem tekur tillit til fjölda mánaða sem einstaklingur vinnur á árinu. Með henni er meðaltal launa einstaklingsins fyrir árið vegið með fjölda mánaða sem hann vinnur. Ef þetta væri ekki gert fengju starfsmenn sem vinna fáa mánuði á ári óeðlilega mikið vægi í ársmeðaltalið miðað við þá sem vinna allt árið.
·Meðaltal: Meðaltal er vegið meðaltal. Það lýsir launastigi í tilteknu starfi, atvinnugrein eða launþegahópi. Það er mjög næmt fyrir einstökum jaðargildum.
·Miðgildi: Miðgildi lýsir launastigi og er fundið þannig að gildum er raðað í stærðarröð eftir launum og vegið miðjugildi síðan fundið. Helmingur hópsins er með hærri laun en miðgildi og hinn helmingurinn er með lægri laun en miðgildið.
·Fjórðungsmörk: Miðgildi skiptir röð gilda sem raðað er í stærðarröð eftir launum í tvennt en fjórðungsmörk skipta röð gilda sem raðað er í stærðarröð í fernt. Fjórðungur hópsins er með lægri laun en neðri fjórðungsmörk og fjórðungur er með hærri laun en efri fjórðungsmörk.
·Tíundamörk: Á sama hátt og fjórðungsmörk skipta röðuðu safni í fernt skipta tíundamörk safninu í 10 jafna hluta. Þannig eru 10% safnsins með laun lægri en 10% mörkin og 10% safnsins með laun hærri en 90% mörkin. Tíundamörkin byggja á vegnum stærðum.
·Tíundastuðull: Tíundastuðull er hlutfallið á milli veginnar launasummu þeirra sem tilheyra efsta tíundahluta launastigans og þeirra sem tilheyra neðsta tíundahluta launastigans. Ef að stuðullinn er 4 eru launamenn í efsta tíundahluta með fjórum sinnum hærri laun en launamenn í neðsta tíundahluta.
·Fjórðungastuðull: Fjórðungastuðull er hlutfallið á milli veginnar launasummu þeirra sem tilheyra efsta fjórðungi launastigans og þeirra sem tilheyra neðsta fjórðungi launastigans. Ef að stuðullinn er 3 eru launamenn í efsta fjórðungi með þrisvar sinnum hærri laun en launamenn í neðsta fjórðungi.
·Hlutfall undir meðaltali: Hlutfall þeirra sem eru með laun undir meðaltali í prósentum.
·Fjöldi: Veginn fjöldi í úrtaki launarannsóknar. Einstaklingur er bæði veginn með úrtaksvog fyrirtækis og fjölda mánaða sem hann starfar.
·Launadreifing: Launadreifing er metin með meðaltali, miðgildi, fjórðungsmörkum, tíundamörkum, tíundastuðli, fjórðungastuðli og hlutfalli undir meðaltali. Því breiðara sem bilið er á milli fjórðungamarka og tíundamarka því meiri dreifing er á launum í ákveðnum hópum. Hins vegar eru launin einsleitari eftir því sem bilið markanna er þrengra. Ef meðaltal er hærra en miðgildið má leiða líkum að því að nokkrir einstaklingar séu með töluvert hærri laun en meginþorri í tilteknum hópi. Þessir einstaklingar hafa áhrif á meðaltalið til hækkunar. Meðaltal er mjög næmt fyrir jaðargildum svo ef miðgildið og meðaltalið er svipað þá má leiða líkur að því að ekki sé mikið um jaðargildi. Hlutfall undir meðaltali gefur einnig vísbendingar um dreifingu launa. Ef miðgildi og meðaltal væri það sama væru 50% með laun undir meðaltali. Þeim mun hærra hlutfall launamanna sem eru undir meðaltali þeim mun fleiri jaðargildi eru til hækkunar meðaltals.

Flokkun efnis

·Launþegahópar: Stuðst við evrópska þjóðhagsreikningastaðalinn ESA 2010 við ákvörðun um skiptingu vinnumarkaðarins í almennan vinnumarkað og opinbera starfsmenn. Opinberir starfsmenn teljast þeir sem vinna hjá "hinu opinbera" (S.13). Til hins opinbera telst rekstur ríkis og sveitarfélaga sem er undir stjórn þeirra og er rekinn að meiri hluta fyrir skatttekjur. Aðrir teljast þá til almenns vinnumarkaðar, þar með talið fyrirtæki í eigu opinberra aðila sem rekin eru að meiri hluta fyrir tekjur af sölu á vöru eða þjónustu.
·Atvinnugreinar: Atvinnugreinaflokkun er í samræmi við íslenska atvinnugreinaflokkun, ÍSAT 08. ÍSAT 08 er flokkunarstaðall sem byggður er á atvinnugreinaflokkun Evrópusambandsins, NACE, rev. 2.
·Starfsstéttir og störf: Starfaflokkun er í samræmi við íslenska starfaflokkun ÍSTARF95. ÍSTARF95 er flokkunarstaðall sem byggir á starfaflokkun Alþjóða vinnumálastofnunarinnar, ILO, ISCO-88. Meginmarkmið flokkunarkerfisins er að störf séu flokkuð eftir innihaldi starfs í stað starfsheitis.
·Fullvinnandi: Einstaklingur telst í fullu starfi ef samanlagður fjöldi greiddra stunda í dagvinnu, vaktavinnu, eftirvinnu og uppmælingum er a.m.k. 90% af mánaðarlegri dagvinnuskyldu. Dagvinnuskylda er mismunandi eftir kjarasamningum, t.d. er dagvinnuskylda verkafólks oftast 173,3 klst. á mánuði en skrifstofufólks 162,5 klst. Í eldra efni er stuðst við samanlagðan fjöld allar greiddra stunda (það er að yfirvinnu meðtalinni) þegar ákvarðað er hvort einstaklingur telst fullvinnandi eða ekki.Launahugtök

 • Grunnlaun: Grunnlaun eru greidd mánaðarlaun fyrir dagvinnu, grunndagvinnulaun, án allra aukagreiðslna. Grunnlaun hlutastarfsfólks eru umreiknuð í laun fyrir fullt starf.
 • Regluleg laun: Regluleg laun eru greidd mánaðarlaun fyrir umsaminn vinnutíma hvort sem um er að ræða dagvinnu eða vaktavinnu. Í þessum launum eru hvers konar álags-, bónus- og kostnaðargreiðslur, svo sem föst yfirvinna, sem gerðar eru upp á hverju útborgunartímabili. Regluleg laun hlutastarfsfólks eru umreiknuð í laun fyrir fullt starf.
 • Regluleg heildarlaun: Regluleg heildarlaun eru regluleg laun að viðbættum launum fyrir tilfallandi yfirvinnu. Regluleg heildarlaun eru einungis reiknuð fyrir fullvinnandi einstaklinga.
 • Heildarlaun: Heildarlaun eru öll laun einstaklingsins, þ.e. regluleg heildarlaun auk ýmissa óreglulegra greiðslna s.s. orlofs- og desemberuppbótar, eingreiðslna, ákvæðisgreiðslna og uppgjörs vegna uppmælinga. Við útreikninga er hvorki tekið tillit til hlunninda né akstursgreiðslna. Heildarlaun eru einungis reiknuð fyrir fullvinnandi einstaklinga.
 • Greiddar stundir: Greiddar stundir eru mánaðarlegar stundir fullvinnandi einstaklinga, hvort heldur sem er í dagvinnu, vaktavinnu eða yfirvinnu. Til að umreikna mánaðarstundir í vikustundir þarf að deila í greiddar stundir með (52/12). Í mörgum tilvikum eru greiddar stundir ágætur mælikvarði á vinnustundir launamanns. Það er þó ekki algilt þar sem fastlaunasamningar eru víða í gildi hjá fyrirtækjum og í þeim tilvikum er erfitt er að meta og mæla vinnustundir. Þessir samningar eru algengastir meðal stjórnenda og sérfræðinga þótt fastlaunasamningar séu til staðar í öllum starfsstéttum. Fastlaunasamningar eru sérsamningar við vinnuveitanda þar sem ekki er greitt sérstaklega fyrir yfirvinnu. Þetta hefur í för með sér að raunverulegur vinnutími er ekki skráður og því geta greiddar stundir verið vanmetnar hjá þessum hópi. Greiddar stundir eru einungs reiknaðar fyrir fullvinnandi einstaklinga.

Til þess að upplýsingar um ákveðna hópa séu birtar þurfa að vera að minnsta kosti 50 einstaklingar í þremur rekstrareiningum í hópnum. Í starfatöflu er miðað við 30 einstaklinga.

2. Tími


2.1 Viðmiðunartími talnaefnis

Laun á íslenskum vinnumarkaði byggja á meðaltali mánaðarlauna einstaklinga á ársgrundvelli.

2.2 Vinnslutími

Birting launa á íslenskum vinnumarkaði er einu sinni á ári og stefnt er að birtingu eigi síðar en 6 mánuðum eftir að viðmiðunarári lýkur.

2.3 Stundvísi birtingar

Í samræmi við birtingaráætlun sem er á vef Hagstofu Íslands. http://www.hagstofa.is

2.4 Tíðni birtinga

Einu sinni á ári.

3. Áreiðanleiki og öryggismörk


3.1 Nákvæmni gagna og áreiðanleiki

Launarannsókn Hagstofu Íslands er úrtaksrannsókn sem byggist á handahófsúrtaki fyrirtækja og sveitarfélaga tíu eða fleiri starfsmenn og byggir úrtaksramminn (sá hópur sem úrtakið er valið úr og ætlað að endurspegla þýðið) á staðgreiðslugögnum ríkisskattstjóra. Notað er heildarsafn ríkisstarfsmanna. Á hverju ári verða breytingar, sumar rekstrareiningar hætta starfsemi, önnur stækka auk þess sem samruni eða sameining rekstrareininga er algeng. Við þessu hefur verið brugðist með vali sambærilegra rekstrareininga inn í úrtakið. Úrtaksramminn er endurnýjaður á hverju ári.
Við hönnun úrtaks á almennum vinnumarkaði er notað s.k. lagskipt klasaúrtak (e. stratified cluster sampling) þar sem úrtakseining (e.sampling unit) rannsóknarinnar og grunneining úrtaksrammans er rekstrareining fyrirtækisins (e. kind of activity unit). Lagskipt er eftir atvinnugrein og stærð og eru rekstrareiningar klasar. Í hverju lagi (atvinnugrein) er fundin viðmiðunarstærð sem endurspeglar fjölda starfsmanna í meðalstóru fyrirtæki. Stærstu fyrirtækin í hverri atvinnugrein eru sjálfvalin og fá úrtakslíkur 1. Önnur fyrirtæki eru dregin af handahófi. Öll fyrirtæki í sama atvinnugreinabálki og stærðarflokki hafa sömu líkur á að vera dregin í úrtak. Einstaklingar hafa sömu úrtakslíkur og fyrirtækið sem þeir starfa hjá.
Sveitarfélög eru dregin í úrtak eftir landssvæði og stærð og eru stærstu sveitarfélögin á hverju landsvæði sjálfvalin í úrtak.
Til að tryggja nákvæmar og réttar upplýsingar um störf og launaupplýsingar í launarannsókn Hagstofu Íslands er leitað beint til fyrirtækja, sveitarfélaga og stofnanna og gagna aflað með rafrænum hætti úr launahugbúnaði þeirra. Sú aðferð er sú áreiðanlegasta sem völ er á þar sem gögnin berast hrein og milliliðalaust. Áður en þátttaka rekstrareininga í rannsókninni hefst hafa starfsmenn frá Hagstofu Íslands samband við þær og gefa nákvæmar leiðbeiningar við flokkun og teningar launaliða auk þess sem gætt er að samræmingu eftir nákvæmum verklagsreglum. Eftir að rekstrareining er komin í regluleg skil heldur endurgjöf áfram ef ástæða þykir. Við gæðaprófun gagna er mikil áhersla lögð á stöðluð villupróf, vönduð og nákvæm vinnubrögð og samræmingu.
Samsetningu gagnasafnsins er ekki haldið fastri milli ára og endurspeglaniðurstöður launa á almennum vinnumarkaði því breytingar í samsetningu vinnuafls. Notaðar eru vogir til að leiðrétta samsetningu úrtaks.
Ekki hafa verið reiknuð skekkjumörk. Stöðugt er unnið gæðamálum til að auka áreiðanleika launa á íslenskum vinnumarkaði. Gerðar eru ákveðnar kröfur um fjölda og vægi fyrirtækja og einstaklinga í störfum og atvinnugreinum.

3.2 Skekkjuvaldar í gögnum

Skekkjur geta verið af ýmsum toga en í grunninn flokkast þær eftir því hvort um er að ræða úrtaksskekkjur (e. sampling errors) eða aðrar skekkjur(e. non sampling errors).

Úrtaksskekkjur: Úrtaksskekkjur stafa af þeirri óvissu sem felst í því að úrtakið er ekki nákvæm eftirmynd þýðis. Úrtaksskekkjur eru háðar úrtakshönnun, stærð úrtaks og dreifingu (e. variance). Við úrtakshönnun og gerð úrtaksramma launarannsóknarinnar hefur verið reynt að halda úrtaksskekkju í lágmarki. Á hverju ári er úrtaksrammi endurnýjaður og unnið markvisst að stækkun úrtaks til að minnka þessar skekkjur.

Aðrar skekkjur:
Aðrar skekkjur eru þrenns konar, skekkjur vegna ófullkomins úrtaksramma (e. coverage/frame errors), brottfallsskekkjur (e. nonresponse errors) og mæliskekkjur (e. measurement errors). Skekkjur geta orðið vegna galla í úrtaksramma sem unnin er úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra s.s. ef rekstrareining er rangt flokkuð í atvinnugreinanúmer, rekstrareining í blönduðum rekstri telst einungis til einnar atvinnugreinar, rekstrareiningar eru nýjar í rekstri og vantar í úrtaksramma, rekstrareiningar hafa hætt rekstri en eru í úrtaksramma og rekstrareiningar sem hafa breytt rekstri án þess að nýjar upplýsingar skili sér í úrtaksramma. Staðgreiðslugögn frá Ríkisskattsstjóra hafa verið skoðuð og framkvæmdar leiðréttingar ef þarf. Brottfallsskekkjur og mæliskekkjur eru þær skekkjur sem koma upp við gagnasöfnun. Með góðu samstarfi við fyrirtæki sem taka þátt í rannsókninni og nákvæmum vinnureglum við gæðaprófun gagna er reynt að draga úr þessum skekkjum.
Við skoðun á vinnutíma á bak við laun á almennum vinnumarkaði ber að nefna að fastlaunasamningar eru víða í gildi hjá fyrirtækjum sem veldur því að erfitt er að meta og mæla vinnustundir. Fastlaunasamningar eru sérsamningar við vinnuveitanda þar sem ekki er greitt sérstaklega fyrir yfirvinnu. Þetta hefur í för með sér að raunverulegur vinnutími er ekki skráður og því geta greiddar stundir verið vanmetnar hjá þessum hópi.

3.3 Tölur um öryggismörk/skekkjumælingar

Ekki liggja fyrir tölur um öryggismörk eða skekkjur.

4. Samanburður


4.1 Samanburðarhæfi milli tímabila

Við samanburð á milli tímabila þarf að hafa í huga að gæði og magn gagna aukast ár frá ári. Mikil vinna hefur verið lögð í samræmingu og gæðaprófun gagna. Hægt að bera saman gögn ár frá ári en hafa ber í huga að breytingar á milli ára geta stafað af breytingum á samsetningu úrtaksins.

4.2 Samanburður við aðrar hagtölur

Eldri tímaraðir er að finna í efnisflokknum Eldra efni". Töflur um launþegahópa og atvinnugreinar eru samanburðarhæfar á milli tímabila, þrátt fyrir að gæði gagna og aðferða hafi verið bætt. Gögn um starfsstéttir og störf eru ekki samanburðarhæf nema að litlu leyti þar sem að í eldri tímaröðum vantar upplýsingar um opinbera starfsmenn.
Hægt er að framreikna regluleg laun með launavísitölu sem gefin er út mánaðarlega og birt niður á launþegahópa, atvinnugreinar og starfsstéttir. Í launavísitölu er notað launahugtakið reglulegt tímakaup sem er sambærilegt hugtakinu regluleg laun. Í reglulegum launum er hlutastarf uppreiknað í fullt starf en í útreikningum launavísitölu eru regluleg laun umreiknuð í greitt tímakaup. Að öðru leyti er samsetning launahugtakanna hin sama.

4.3 Samband milli bráðabirgðatalna og lokatalna

Tölurnar eru bráðabirgðatölur vegna skorts á upplýsingum um ákveðna hópa.

5. Aðgangur að upplýsingum


5.1 Miðlunarleiðir

 • Fréttir, birtar á vef Hagstofunnar
 • Hagtölur, efnisflokkaðar veftöflur
 • Hagtíðindi, ritröð

5.2 Grunngögn; varðveisla og notkunarmöguleikar

Grunngögn sem mánaðarlaun byggja á koma úr launarannsókn Hagstofu Íslands. Í grunngögnum eru:
1. Kennitala fyrirtækis
2. Sveitarfélag
3. Atvinnugrein
4. Kennitala starfsmanns
5. Fæðingarmánuður og ár
6. Kyn
7. Stéttarfélag
8. Lífeyrissjóður
9. Menntun
10. Starf
11. Starfsaldur (ráðningardags.)
12. Starfshlutfall
13. Útborgunartímabil
14. Skráður vinnutími
15. Orlofsprósenta
16. Orlofsmerking
17. Samningur
18. Launaflokkur
19. Þrep
20. Grunndagvinnulaun
21. Dagvinnutímar
22. Álagsgreiðslur
23. Kostnaðargreiðslur
24. Bónusgreiðslur
25. Ákvæðisgreiðslur og akkorð
26. Vaktaálag
27. Vaktaálagstímar
28. Yfirvinnulaun
29. Yfirvinnutímar
30. Veikindalaun
31. Veikindatímar
32. Eingreiðslur og sérstakar greiðslur
33. Nefndar-/stjórnunarlaun
34. Akstursgreiðslur
35. Hlunnindi
36. Önnur laun
37. Orlofsgreiðslur
38. Lífeyrissjóðsgjald
39. Tryggingagjald
40. Sjúkrasjóðsgjald
41. Orlofs(félags)heimilasjóðsgjald
42. Vísindasjóður/endurmenntun
43. Séreignasjóður
44. Byrjunardags. greiðslutímabils
45. Endadags. greiðslutímabils


Ekki fást alltaf allar upplýsingar frá öllum rekstrareiningum t.d. halda ekki allar rekstrareiningar sérstaklega utan um veikindagreiðslur í launakerfum.
Grunngögn eru varðveitt sem trúnaðarupplýsingar á Hagstofunni og eru í gildi sérstakar verklagsreglur um meðferð þeirra. Sjá nánar í verklagsreglum Hagstofu Íslands um meðferð trúnaðargagna:http://www.hagstofa.is/media/2983/Reglur-um-medferd-trunadargagna.pdf og um aðgang að trúnaðargögnum: http://www.hagstofa.is/thjonusta/trunadargogn

5.3 Skýrslur

Gerð er grein fyrir þróun á aðferðafræði við útreikning launa samhliða birtingu.

5.4 Aðrar upplýsingar

Frekari upplýsingar fást hjá starfsmönnum deildarinnar.

© Hagstofa �slands, �ann 11-9-2018