Hjúskaparbreytingar


0. Skráningaratriði fyrir viðfangsefni


0.1 Heiti

Hjúskaparbreytingar

0.2 Efnisflokkur

Mannfjöldi

0.3 Umsjón; stofnun, deild, sérfræðingur o.s.frv.

Hagstofa Íslands
Mannfjölda- og manntalsdeild
Guðjón Hauksson
gudjon.hauksson (hjá) hagstofa.is

0.4 Tilgangur og aðdragandi

Með konungsbréfi árið 1735 var biskupum Íslands gert að safna árlegum skrám frá prestum um giftingar. Upplýsingum um lögskilnaði var byrjað að safna árið 1856 og skilnuðum að borði og sæng árið 1959. Upplýsingum um staðfesta samvist og samvistarslit var byrjað að safna frá árinu 1996.

Í manntalinu 1950 voru teknar saman töflur um fólk í óvígðri sambúð ef það átti börn saman, og það flokkað sem ógift. Í manntalinu 1960 var birt tafla yfir fólk í óvígðri sambúð og barneign þeirra. Frá árinu 1961 eru birtar árlegar töflur um börn sem fædd eru innan óvígðrar sambúðar, en með lögheimilislögum frá 1960 var skráð óvígð sambúð þeirra sem áttu barn eða börn saman. Með nýjum lögheimilislögum 1990 var leyft að skrá sambúð barnlausra einstaklinga. Með breytingu á lögum um lögheimili árið 2006 var einnig heimilt að skrá í íbúaskrá Þjóðskrár sambúð tveggja einstaklinga af sama kyni.

Reglubundin skýrslugerð um stofnun og slit sambúðar hófst árið 2004, en nær aftur til 1991.

Skýrslur um hjúskaparbreytingar og skráða sambúð hafa borist til Þjóðskrár eftir að hún tók til starfa, en Hagstofan fær upplýsingar sínar frá henni.

0.5 Notendur og notkunarsvið

Sveitastjórnir, stofnanir, fyrirtæki, félagasamtök og einstaklingar.

0.6 Heimildir

Breytingaskrá Þjóðskrár en í hana eru m.a. skráðar upplýsingar um sambúð, sambúðarslit, hjónavígslur (þ.m.t. staðfesta samvist) og skilnaði. Upplýsingar grundvallast á hjónavígsluskýrslum og gögnum um skilnaði og sambúðarslit sem berast til Þjóðskrár.

0.7 Lagalegur grundvöllur fyrir hagskýrslugerð

Lög um Hagstofu Íslands og opinbera hagskýrslugerð nr. 163/2007.
Hjúskaparlög nr. 31/1993.
Lög um staðfesta samvist nr. 87/1996.
Lög um þjóðskrá og almannaskráningu nr. 54/1962.
Lög um lögheimili nr. 21/1990.

0.8 Svarbyrði við innsöfnun


0.9 Ákvæði vegna EES og ESB


1. Efni


1.1 Efnislýsing

Hagstofa Íslands birtir árlega ítarlegar töflur um hjónavígslur og hjúskaparslit, stofnun og slit staðfestrar samvistar og stofnun og slit óvígðrar sambúðar. Þá birtir Hagstofan töflur um forsjá barna eftir sambúðarslit eða skilnaði.

Hjónavígslur eru taldar ef tvö af eftirfarandi þremur lögheimilum eru á Íslandi: 1. lögheimili konu fyrir giftingu, 2. lögheimili karls fyrir giftingu, og 3. sameiginlegt lögheimili hjóna eftir giftingu. Stofnun staðfestrar samvistar (hjúskapur tveggja einstaklinga af sama kyni) var heimiluð samkvæmt lögum nr. 87/1996 og er talin með hliðstæðum hætti og hjónavígslur. Sama regla gildir og um stofnun óvígðrar sambúðar.

Með sama hætti teljast hjónaskilnaðir ef tvö af eftirfarandi þremur lögheimilum eru íslensk: 1. lögheimili konu eftir skilnað, 2. lögheimili karls eftir skilnað, og 3. sameiginlegt lögheimili hjóna fyrir skilnað. Það sama gildir fyrir skilnaði að borði og sæng, sem og slit sambúðar. Sambúðarslit eru þó ekki talin með fyrr en 180 dagar eru liðnir frá lokum sambúðar.

Eftirtalin atriði koma meðal annars fram í útgefnu efni:

 • Hjónavígslur eftir vígslumáta og fyrri hjúskaparstétt brúðhjóna
 • Hjónavígslur eftir aldri brúðhjóna
 • Aldursbundin giftingartíðni eftir fyrri hjúskaparstétt
 • Stofnun sambúðar eftir hjúskaparstétt
 • Stofnun sambúðar eftir aldri
 • Hjúskaparslit og skilnaðir að borði og sæng
 • Lögskilnaðir eftir aldri hjóna
 • Aldursbundin tíðni lögskilnaða
 • Lögskilnaðir eftir lengd hjónabands
 • Lögskilnaðir og forsjá barna úr hjónabandi
 • Lok sambúðar
 • Sambúðarslit eftir aldri
 • Forsjá barna eftir sambúðarslit
Aldur barna úr lögskilnuðum og sambúðarslitum

1.2 Tölfræðileg hugtök

Hjónavígslutíðni: Reiknast sem fjöldi hjónavígslna á 1.000 íbúa miðað við miðársmannfjölda hvert ár.

Tíðni lögskilnaða: Reiknast yfirleitt sem fjöldi lögskilnaða á 1.000 íbúa miðað við miðársmannfjölda. Stundum er tíðni lögskilnaða reiknuð sem fjöldi lögskilnaða á 1.000 hjón miðað við miðársmannfjölda.

Vígslumáti: Getur verið annaðhvort kirkjulegur eða borgaralegur. Með kirkjulegum vígslumáta er átt við allar hjónavígslur sem gerðar eru af prestum þjóðkirkjunnar eða forstöðumönnum trúfélaga.

Staðfest samvist: Hjúskapur tveggja einstaklinga af sama kyni. Sambærilegur við hjónaband með nokkrum takmörkunum þó.

Hjúskaparstétt: Hjúskaparstétt skv. íbúaskrá Þjóðskrár er sundurliðuð í eftirfarandi flokka: ógift/ókvæntur, gift/kvæntur eða staðfest samvist, ekkill/ekkja, skilin/n að borði og sæng, skilin/n að lögum, hjón ekki samvistum, hjúskaparstaða óupplýst. Auk þessa greinir íbúaskrá Þjóðskrár nokkrar tegundir hjúskaparstéttar, sem Hagstofan flokkar alla sem gift/kvæntur: Íslendingur í hjúskap með útlendingi sem nýtur úrlendisréttar og verður því ekki skráður, Íslendingur með lögheimili erlendis í hjúskap með útlendingi sem ekki er á skrá, Íslendingur með lögheimili á Íslandi í hjúskap með útlendingi sem ekki er á skrá. Fólk sem skilið er að borði og sæng, eða hjón ekki samvistum telst vera enn í hjúskap.

2. Tími


2.1 Viðmiðunartími talnaefnis

Almanaksárið

2.2 Vinnslutími

Vinnslutíminn er sex mánuðir eða frá áramótum og fram til júnímánaðar.

2.3 Stundvísi birtingar

Bráðabirgðatölur um hjúskap, sambúð og hjúskaparslit eru birtar í maí eða júní hvert ár.

2.4 Tíðni birtinga

Árlega

3. Áreiðanleiki og öryggismörk


3.1 Nákvæmni gagna og áreiðanleiki

Árin 2001-2005 vantaði að meðaltali sex giftingaskýrslur, eina skilnaðarskýrslu og eina skýrslu um skilnaði að borði og sæng.

3.2 Skekkjuvaldar í gögnum

Skekkjur eru aðallega til komnar vegna tafa á afhendingu skýrslna til Þjóðskrár.

3.3 Tölur um öryggismörk/skekkjumælingar

Engin öryggismörk reiknuð þar sem um heildarsafn er að ræða.

4. Samanburður


4.1 Samanburðarhæfi milli tímabila

Árleg manntöl presta lögðust af með tilkomu Þjóðskrárinnar 1952 og byggja upplýsingar þaðan í frá á tilkynningum sem henni berast.

Fram til 1990 var ekki leyfilegt að skrá hjónaleysi í óvígða sambúð nema það ætti saman barn eða börn. Hjúskapur fólks af sama kyni var leyfður 1996, og sambúð slíkra leyfð 2006.

4.2 Samanburður við aðrar hagtölur


4.3 Samband milli bráðabirgðatalna og lokatalna

Skýrslur um hjónavígslur, sambúð og hjúskaparslit eru bráðabirgðatölur, en endanlegar tölur eru birtar samhliða útgáfu ári seinna.

5. Aðgangur að upplýsingum


5.1 Miðlunarleiðir

 • Fréttir birtar á vef Hagstofunnar
 • Hagtölur, efnisflokkaðar veftöflur
 • Hagtíðindi, ritröð
 • Landshagir, árbók Hagstofu Íslands
 • Hagtíðindi. Mánaðarrit Hagstofu Íslands. Útgáfu hætt 2004
 • Mannfjöldaskýrslur til ársins 1980. Í ritröðinni Hagskýrslur Íslands
 • Hagskinna. Sögulegar hagtölur um Ísland

5.2 Grunngögn; varðveisla og notkunarmöguleikar

Gögn geymd á tölvutæku formi hjá Mannfjölda- og manntalsdeild Hagstofu Íslands. Ekki er veittur aðgangur að einstaklingsbundnum gögnum en unnt er að fá sérvinnslur úr þeim gegn greiðslu.

5.3 Skýrslur


5.4 Aðrar upplýsingar

Frekari upplýsingar má fá hjá Mannfjölda- og manntalsdeild Hagstofu Íslands, s. 528 1030 eða með tölvubréfi: mannfjoldi (hjá) hagstofa.is

© Hagstofa �slands, �ann 4-1-2010