Verðvísitölur sjávarafurða


0. Skráningaratriði fyrir viðfangsefni


0.1 Heiti

Verðvísitölur sjávarafurða

0.2 Efnisflokkur

Fiskveiðar

0.3 Umsjón; stofnun, deild, sérfræðingur o.s.frv.

Hagstofa Íslands
Vísitöludeild
Netfang: framleidsluverd@hagstofa.is
Upplýsingasími vísitöludeildar: 528 1200

0.4 Tilgangur og aðdragandi

Vísitala sjávarafurða er mælikvarði á verðþróun þess verðs sem sjávarútvegsfyrirtæki fá fyrir vörur sínar við sölu. Vísitalan er undirvísitala í vísitölu framleiðsluverðs þar sem teknar eru saman verðvísitölur ýmissa framleiðslugreina. Verðmælingar fara fram mánaðarlega hjá sjávarútvegsfyrirtækjum í úrtaki og er tekið tillit til bæði verðmætis og magns þeirra vara sem seldar eru í hverjum mánuði. Frá 1989-2006 var vísitalan reiknuð með þeim hætti að magngrunnur hennar var ákvarðaður árlega og alla jafna miðaður við framleiðslu ársins á undan. Tekið var tillit til ólíkra pakkninga og reynt að tryggja að þær næðu til afurða úr öllum helstu fisktegundum og til helstu markaðssvæða. Verðupplýsingum var safnað hjá helstu útflytjendum um miðjan hvern mánuð.

0.5 Notendur og notkunarsvið

Verðvísitölur sjávarafurða nýtast aðilum í sjávarútvegi og opinberum aðilum s.s. Verðlagsstofu skiptaverðs, Seðlabanka Íslands, Sjávarútvegsráðuneytinu en einnig einkaaðilum á borð við greiningardeildir fjármálafyrirtækja. Vísitalan er notuð við mat á hagþróun til skamms tíma.

0.6 Heimildir

Hagstofa Íslands safnar verð- og magnupplýsingum frá innlendum útgerðarfyrirtækjum. Um 10.000 verðmælingum er skilað mánaðarlega með rafrænum hætti.

0.7 Lagalegur grundvöllur fyrir hagskýrslugerð

Lög um Hagstofu Íslands og opinbera hagskýrslugerð, nr. 163, 21. desember 2007.

0.8 Svarbyrði við innsöfnun

Verðupplýsingum er skilað mánaðarlega á rafrænan hátt. Þannig er reynt að lágmarka svarbyrði fyrirtækja.

0.9 Ákvæði vegna EES og ESB

Vísitala sjávarafurða er undirvísitala vísitölu framleiðsluverðs. Aðildarríkum EES er skylt að birta vísitölu framleiðsluverðs mánaðarlega samkvæmt reglugerð ESB, nr. 1165/98 um hagskýrslur til skamms tíma, sem birt er í viðauka XXI EES-samningsins.

1. Efni


1.1 Efnislýsing

Vísitala sjávarafurða er afurðaverðsvísitala fyrir innlenda framleiðslu og mælir það verð sem útgerð fær fyrir fullunna afurð sína (e. Factory gate price). Kaupandinn er þá ýmist heildsali, smásali eða annar framleiðandi sem notar afurðirnar sem aðföng í sína framleiðslu. Vísitalan nær ekki yfir þjónustu heldur aðeins vöruframleiðslu.
Viðmið 4. ársfjórðungur 2005=100. Allir útreikningar miðast við verð í íslenskum krónum. Þeir eru miðaðir við tölur með fullum aukastöfum. Vegna styttingar aukastafa kann að skapast ósamræmi milli birtra talna. XDR (SDR) er mánaðarmeðaltal kaupgengis sérstakra dráttarréttinda samkvæmt heimildum Seðlabanka Íslands.

1.2 Tölfræðileg hugtök

Vísitala sjávarafurða er reiknuð sem afburðavísitala (e. superlative index) bæði í grunni og fyrir yfirflokka. Vægi fyrirtækjanna er metið mánaðarlega út frá söluverðmæti afurða. Vísitala hvers fyrirtækis er jafnan reiknuð út frá öllum þeim vörum sem framleiðandi selur bæði í útreikningsmánuði og fyrri mánuði.

2. Tími


2.1 Viðmiðunartími talnaefnis

Verðvísitala sjávarafurða er reiknuð mánaðarlega og er viðmiðunartími hennar næstliðinn mánuður. Vísitala febrúarmánaðar, sem birt er í lok mars, byggir því á verðbreytingum milli janúar og febrúar.

2.2 Vinnslutími

Vísitala fyrir hvern mánuð er jafnan reiknuð og birt fyrir lok þess næsta.

2.3 Stundvísi birtingar

Vísitalan er birt kl. 9:00 að morgni samkvæmt birtingaráætlun. Birtingaráætlun fyrir hvert ár er birt á vef Hagstofunnar í nóvember árið á undan.

2.4 Tíðni birtinga

Vísitalan er birt mánaðarlega.

3. Áreiðanleiki og öryggismörk


3.1 Nákvæmni gagna og áreiðanleiki

Verðvísitala sjávarafurða er undirvísitala framleiðsluverðsvísitölu og byggir á bókhaldsgögnum fyrirtækja. Gögnum er safnað með rafrænum hætti. Vísitalan er yfirfarin reglulega til að viðhalda gæðum mælinganna. Þegar gögn berast eru þau yfirfarin og gæðaprófuð. Komi fram verðsveiflur sem hafa afgerandi áhrif á niðurstöðu útreikninga eru þær bornar undir viðkomandi framleiðanda og leiðréttar ef gögnin reynast röng eða misvísandi. Gengið er út frá þeirri reglu að til að afurð sé með í útreikningi vísitölunnar þurfi að selja hana sama kaupanda tvo mánuði í röð.

3.2 Skekkjuvaldar í gögnum

· Úrtaksskekkja: Fyrirtæki í úrtaki Hagstofunnar fyrir vísitölu framleiðsluverðs eru handvalin en ekki valin af handahófi. Gögn Hagstofunnar ná yfir mis mikinn hluta hverrar framleiðslugreinar og ekki er tryggt að verðþróun þeirra fyrirtækja, sem eru í úrtakinu, sé lýsandi fyrir verðþróun heildarinnar.
· Gæðabreytingar: Ef gæði vöru breytast veldur það jafnan verðbreytingu sem ekki á að taka tillit til við útreikning verðvísitölu. Þegar verð vöru er mælt frá einum tíma til annars skulu gæði hennar vera óbreytt. Rafræn gagnasöfnun þar sem gögn eru sundurgreind niður á vörunúmer minnkar hendingarskekkju vegna gæðabreytinga.
· Mælingavillur: Endurnýting vörunúmera fyrir ólíkar vörur og breyting á magneiningum í gögnum geta valdið skekkju í verðmælingu, en þó er líklegt að slíkar villur finnist við gæðaprófun gagna.

3.3 Tölur um öryggismörk/skekkjumælingar

Ekki hefur verið gerð sérstök athugun á umfangi skekkju í vísitölunni. Úrtakið er ekki valið af handahófi og því eru öryggismörk ekki reiknuð.

4. Samanburður


4.1 Samanburðarhæfi milli tímabila

Verðvísitölur fyrir sjávarafurðir hafa verið reiknaðar frá 1986. Þegar aðferðafræði við útreikning verðvísitölu sjávarafurða var endurskoðuð í ársbyrjun 2007 voru eldri vísitölur sjávarafurða birtar með nýju viðmiði til samræmis við vísitölu framleiðsluverðs aftur til janúar 2006. Í þessu felst að verðbreytingar ársins 2006 eru þær sömu á nýju viðmiði og eldra. Nýjar undirvísitölur voru reiknaðar með nýrri aðferð frá ársbyrjun 2006. Slíkur eðlismunur er á þeim upplýsingum sem verðvísitala sjávarafurða veitir fyrir og eftir breytinguna í upphafi árs 2007, að í raun er um að ræða tvær ólíkar vísitölur. Því skyldi ætíð setja þann fyrirvara séu þær tengdar saman.

4.2 Samanburður við aðrar hagtölur

Vísitala framleiðsluverðs og verðvísitala sjávarafurða mæla verð frá framleiðanda eftir að tekið hefur verið tillit til afslátta og annarra frádráttarliða. Hún er því fræðilega skyld vísitölu neysluverðs vegna þess að hluti þeirrar framleiðslu sem vísitalan nær yfir er seldur til neytenda.

4.3 Samband milli bráðabirgðatalna og lokatalna

Ekki eru birtar bráðabirgðatölur.

5. Aðgangur að upplýsingum


5.1 Miðlunarleiðir

· Fréttir, birtar á vef Hagstofunnar
· Hagtölur, efnisflokkaðar veftöflur
· Landshagir, árbók Hagstofu Íslands

5.2 Grunngögn; varðveisla og notkunarmöguleikar

Grunngögn eru varðveitt á Hagstofu Íslands og eru ekki aðgengileg öðrum en þeim starfsmönnum vísitöludeildar sem vinna við vísitöluna.

5.3 Skýrslur

Gerð er grein fyrir þróun á aðferðafræði við útreikning framleiðsluvísitölunnar í Hagtíðindum og með fréttatilkynningum samhliða birtingu.

5.4 Aðrar upplýsingar

Nánari upplýsingar um verðvísitölu sjávarafurða er hægt að fá með því að senda tölvupóst á netfangið framleidsluverd@hagstofa.is eða hringja í síma 528-1200.

© Hagstofa �slands, �ann 6-1-2016